Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra telur að stemma þurfi stigu við lóðabraski sem hefur viðgengist hér á landi árum saman. Í Facebook-færslu sem Sigurður Ingi birti nú fyrir skömmu sagði hann lóðabrask gjarnan leiða til hærra fasteignaverðs og auka verðbólgu. Viðskiptin einkennast af því að lóðarreitir eru keyptir af einstaklingum eða fyrirtækjum sem sitji á þeim um tíma og selji síðan lóðirnar á hærra verði.
Innviðaráðherra segir raunar að lóðarreitir séu „keyptir á milljarða króna af aðilum sem selja svo nokkrum vikum síðar á enn fleiri milljarða til bygginga. Einstaklingur sem kaupir íbúð á reit sem hefur lent í lóðabraski stendur uppi með ennþá hærra kaupverð, þarf að taka enn hærra lán og afleiðingarnar verða enn hærra fasteignaverð sem setur þrýsting á verðbólguna. Ekki er hægt að kalla þetta annað en lóðabrask og hefur ekkert með húsnæðisöryggi fólks að gera.“
Í færslunni tilkynnti Sigurður Ingi að hann hafi mælt fyrir frumvarpi í vikunni, „sem felur í sér skýran hvata fyrir lóðarhafa til hefja uppbyggingu íbúðarhúsnæðis eins og deiliskipulag gerir ráð fyrir.“ Þetta sér gert til þess að vinda ofan af „þessu óforsvaranlega athæfi,” að sögn Sigurðar.
Verði frumvarpið samþykkt á þingi geta sveitarfélög knúið lóðareigendur til þess að hefja uppbyggingu í samræmi við samþykkt deiliskipulag.
Sigurður Ingi telur frumvarpið vera „eitt af fjölmörgum þáttum sem geta unnið að því ásamt öðru að koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn þar sem miklar sveiflur hafa verið á húsnæðisverði og byggingu íbúð.“
Í frumvarpinu sem lagt var fyrir þingið 26. janúar er sveitarfélögum veitt lagaheimild til þess að geta tekið uppbyggingarheimildir lóðareigenda til endurskoðunar ef framkvæmdir hefjast ekki innan fimm ára frá birtingu samþykkts deiliskipulags.
Sömuleiðis myndu lögin veita sveitarfélögum heimild til þess að kalla eftir skýringum frá lóðarhöfum ef engin umsókn um byggingaráform hefur borist innan tilskilins frests.
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að breytingin sé til þess fallið að veita sveitarfélögum lagaheimild til að knýja á um framgang samþykkts deiliskipulags og tryggja að hraði uppbyggingarinnar sé í samræmi við húsnæðisþörf.
Forsendurnar baki frumvarpinu er meðal annars sá að frestur á uppbyggingu felur í sér mikinn kostnað fyrir sveitarfélögin. Þá veldur seinagangur við uppbyggingu miklum óþægindum fyrir fólk sem býr í nágrenni við lóðir sem til stendur að byggja á.
Það á hætta að teygja á framkvæmdum og byrja strax!