Þegar Singapúr sagði sig úr lögum við Malasíu og gerðist sjálfstætt ríki 1965 voru bæði löndin bláfátæk líkt og Asía nær öll. Framleiðsla og tekjur á mann voru þá að vísu næstum þrisvar sinnum meiri í Singapúr en í Malasíu. Það var að vissu marki eðlilegt þar eð Singapúr var og er borgríki, lítill landskiki, rösklega 700 ferkílómetrar að flatarmáli, en Malasía sem er þrisvar sinnum stærri en Ísland var og er dreifbýl. Tekjur á mann eru jafnan mun hærri í þéttbýli en í dreifbýli þar eð þétt byggð hefur í för með sér ýmislegt hagræði, til dæmis nálægð við nauðsynlega þjónustu, sem dreifðar byggðir vantar.
Frá örbirgð til allsnægta
Við stofnun sjálfstæðs borgríkis í Singapúr 1965 voru tekjur á mann þar aðeins um fjórðungur af tekjum á mann í móðurlandinu, Bretlandi. Malasía hafði verið brezk nýlenda frá 1946 til 1957 þegar fólkið þar tók sér sjálfstæði frá Bretum. Átta árum síðar, 1965, klauf Singapúr sig frá Malasíu. Það voru þyngstu spor ævi minnar að leiða land mitt til sjálfstæðis, sagði landsfaðir Singapúr, Lee Kuan Yew, þegar hann leit um öxl löngu síðar í sjálfsævisögu sinni, en hann taldi skilnað landanna nauðsynlegan til að halda friðinn. Hann var forsætisráðherra Singapúr 1959-1990.
Nú er kaupmáttur landsframleiðslu á mann í Singapúr næstum ferfaldur á við Malasíu og rösklega tvöfaldur á við Bretland. Í því felst gróft reiknað að fólkið í Singapúr er bara þrjá mánuði að vinna sér inn venjuleg árslaun Malasíubúa og hálft ár að vinna sér inn venjuleg árslaun Breta. Myndin sýnir þróun kaupmáttar landsframleiðslunnar í löndunum þrem í alþjóðlegum Bandaríkjadölum á föstu verðlagi ársins 2017 (heimild: Alþjóðabankinn).
Tvær skýringar
Fyrir fáeinum árum þegar Lee Kuan Yew var spurður um skýringuna á þessum mikla árangri lands hans í efnahagsmálum svaraði hann: Umburðarlyndi er lykillinn að velgengni okkar. Hann átti við að í Singapúr búa ólíkir kynþættir saman í friði og spekt. Kínverjar eru meiri hluti landsmanna, nú 76% af heildarmannfjöldanum. Í minni hlutanum eru annars vegar Malajar (15%) og hins vegar Indverjar (7%). Þeim semur vel þarna í öllum þrengslunum.
Lee Kuan Yew var síðan spurður að því hvort einhverri annarri skýringu á allri þessari velgengni væri kannski til að dreifa. Hann svaraði að bragði (í lauslegri þýðingu minni):
„Loftkæling var okkar mikilvægasta uppgötvun, kannski ein merkasta uppfinning allra tíma. Hún breytti eðli siðmenningarinnar með því að gera hagþróun mögulega í hitabeltinu. Án loftkælingar geturðu ekki stundað vinnu þína að gagni nema í svölu lofti snemma á morgnana eða seint á kvöldin. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég varð forsætisráðherra var að setja upp loftræstikerfi í opinberum byggingum. Þetta var lykillinn að auknum vinnuafköstum almennings.“ Loftkæling hafði rutt sér til rúms í Bandaríkjunum um 30 árum áður.
Þessi lexía frá Singapúr á brýnt erindi við hitabeltislönd í Afríku og annars staðar. Aðeins helmingur Afríkubúa hefur aðgang að rafmagni borið saman við níu af hverjum tíu í heiminum í heild. Virkjun Kongófljóts hefur dregizt von úr viti þótt hún myndi duga til að rafvæða álfuna alla og ríflega það. Í heitum löndum er loftkæling er ekki lúxus heldur lífsnauðsyn.
Við hér norður frá megum þakka fyrir svalt loftslag. Við þurfum ekki að koma okkur upp dýrri loftkælingu, hvorki á heimilum né vinnustöðum.
Lýðræði skiptir máli
Það skyggir að vísu á efnahagsárangurinn sem náðst hefur í Singapúr að lýðræði þar hefur verið og er enn ábótavant. Lýðræðisstofnun Gautaborgarháskóla í Svíþjóð er nú mikilvæg heimild um ástand lýðræðis um heiminn og birtir niðurstöður sínar í árlegum skýrslum. Lýðræði í Singapúr er undir meðallagi á heimsvísu. Á listanum frá Gautaborg með 179 löndum skipar Singapúr nú 95. sæti með einkunnina 3,4 af 10, sömu einkunn og Mexíkó og Ungverjaland. Stjórnarandstæðingar í Singapúr sæta harðræði af hálfu stjórnvalda og eru stundum fangelsaðir af litlu tilefni. Singapúr er eitt fárra landa þar sem skorður gegn lýðræði virðast ekki hafa hamlað vexti og viðgangi efnanahagslífsins.
Deng Xiaoping, arftaki Maós formanns og hæstráðandi í Kína 1978-1989, var einu sinni spurður að því hvaðan honum hefði komið hugmyndin um markaðsbúskap í Kína. Frá Singapúr, svaraði hann að bragði og sagði svo: Þegar ég kom þangað sá ég með eigin augum hvers Kínverjar eru megnugir fái þeir að starfa í friði í heilbrigðu efnahagsumhverfi. Deng var aðalarkitekt efnahagsumbótanna sem hófust í Kína 1978 og lyftu smám saman hundruðum milljóna upp úr sárri fátækt. Hafði hann aldrei komið til Hong Kong? Þar hefði hann getað séð sömu grósku og í Singapúr.
Nú er Hong Kong aftur hluti af Kína. Lýðræðið gekk íbúum borgarinnar úr greipum 1997 þegar Bretar skiluðu henni aftur til Kína. Taívan sem var harðsvírað einræðisríki fram til ársins 1995 er nú óskorað lýðræðisríki. Yfirgnæfandi hluti fólksins þar kýs lýðræði og kvíðir innrás Kínverja sem telja sig eiga rétt á yfirráðum í Taívan líkt og Rússar telja sig eiga rétt á yfirráðum í Úkraínu. Ekki telja Þjóðverjar sig eiga rétt á yfirráðum í Austurríki. Munurinn er sá að Þýzkaland er lýðræðisríki. Lýðræði skiptir sköpum.
Við lifum órólega tíma.
Athugasemdir (3)