Skipulagsstofnun gagnrýnir sveitarfélagið Ölfuss út af framkvæmdum við landfyllingu í Þorlákshöfn. Stofnunin telur að Ölfus hafi ekki fylgt réttu verklagi við gerð landfyllingarinnar. Þetta kemur fram í bréfi frá Skipulagsstofnun til sveitarfélagsins sem dagsett er 15. janúar. Stofnunin segir að ekki sé gert ráð fyrir landfyllingunni í aðalskipulagi Ölfuss.
Framkvæmdir við landfyllinguna hafa verið umdeildar síðustu mánuði og hefur Brimbrettafélag Íslands meðal annars gagnrýnt þær í innlendum og erlendum fjölmiðlum. Enn liggur ekki fyrir í hvað á að nota landfyllinguna ef af henni verður. Formaður Brimbrettafélags Íslands hefur vænt Elliða Vignisson um spillingu í málinu vegna tengsla við fjárfesta sem nota lóð sem liggur að fyrirhugaðri landfyllingu til að flytja út jarðefni.
„Að lokum bendir Skipulagsstofnun á að fyrirhuguð framkvæmd fellur undir tl. 13.02 í 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.“
Ósammála mati Ölfuss
Í bréfinu er rakið hvernig Skipulagsstofnun metur framkvæmdina við landfyllinguna með öðrum hætti en sveitarfélagið. Samkvæmt bréfinu taldi Ölfus að gerð landfyllingarinnar fæli í sér „óverulegar framkvæmdir innan hafnarsvæðis“ og myndi rúmast innan aðalskipulags.
Þessu er stofnunin ósammála og bendir á að breyti þurfi aðalskipulagi Ölfuss og að framkvæmdin falli undir lög um umhverfismat. „Skipulagsstofnun getur ekki tekið undir þá skýringu að umrædd stækkun á hafnarsvæði falli undir almenna skilmála aðalskipulags um óverulegar framkvæmdir innan hafnarsvæðis, enda um rúmlega 8% stækkun á hafnarsvæðinu H3 að ræða.“
Skipulagsstofnun segist í bréfinu geta fundað með Ölfusi um framkvæmdina óski sveitarfélagið eftir því. „Stofnunin er reiðubúin að funda með sveitarfélaginu og skipulagsráðgjöfum þess ef óskað er frekari skýringa.“
Tilskilin leyfi ekki fyrir hendi
Skipulagsstofnun er önnur ríkisstofnunin sem hefur gagnrýnt sveitarfélagið Ölfus upp á síðkastið vegna landfyllingarinnar. Fyrr í janúar greindi Heimildin frá því að Umhverfisstofnun hefði stöðvað framkvæmdir við landfyllinguna.
Sveitarfélagið aflaði ekki tilskilinna leyfa til að hefja gerð landfyllingar og dýpkunarframkvæmda í Þorlákshöfn áður en hafist var handa samkvæmt fundargerð frá Umhverfisstofnun. Í fundargerðinni segir orðrétt um þetta „Umhverfisstofnun boðaði til fundarins til að fylgja eftir ábendingu um að framkvæmdir væru hafnar án tilskilinna leyfa. [...] Dýpkunarframkvæmdir eru hafnar og samkvæmt fulltrúum sveitarfélagsins er unnið að því að ljúka við breytingu á skipulagi og áætlað að sækja um tilskilin leyfi í kjölfarið.“
Elliði Vignisson sagði um gagnrýni Umhverfisstofnunar: „Ég veit það að sveitarfélagið hefur ekki beðið um þessa framkvæmd eða leyft hana og þetta verður ekki gert fyrr en öll leyfi liggja fyrir.“
Spillingarþokan er mikil yfir Ölfusunu ?