Hættustig hefur verið fært niður á öllum svæðum samkvæmt nýju hættumati Veðurstofu Íslands. Kvika flæðir ekki lengur inn í kvikuganginn sem myndaðist 14. janúar en landris heldur þó áfram í Svartsengi. Of snemmt er að fullyrða um hvort að hraðinn á landrisinu við Svartsengi sé meiri en hann var fyrir gosið 14. janúar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Áfram sjást skýr merki um landris við Svartsengi.
Hættan á að jarðvegir hrynji ofan í sprungur innan Grindavíkur er enn mikil. Litlar breytingar eru innan Grindavíkur samkvæmt GPS mælingum. Veðurstofa segir mikilvægt að nýjar sprungur verði kortlagðar og breytingar á þekktum sprungum metnar.
Uppfært hættumat tók gildi í dag klukkan þrjú og gildir til klukkan þrjú, fimmtudaginn 25. janúar 2024 að öllu óbreyttu.
Bláa lónið og Northern Light Inn hafa nú heimild til að hefja rekstur á ný með hliðsjón af nýju hættumati. Farið hefur verið yfir rýmingaráætlanir rekstraraðila en á stöðunum er sólahringsvöktun.
Verðmætabjörgun mun halda áfram í Grindavík um helgina þar sem vatni og rafmagni verður komið á bæinn. Það hefur reynst krefjandi að halda rafmagni í Grindavík, samkvæmt tilkynningu frá Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Pípulagningarmenn og rafvirkjar verða við störf í Grindavík um helgina. Kemur einnig fram að frekari verðmætabjörgun, það er flutningur verðmæta út úr bænum, getur fyrst farið fram þegar kvarði á hættumatskorti Veðurstofunnar fer á ,,töluverða hættu“.
Ef er landris undir Svartsengi, er þá ekki enn verið að hlaða eldgos byssuna, þó ekki sé vitað hver verði í skotlínunni?