Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis afhenti í morgun forseta alþingis beiðni um formlega skipun rannsóknarnefndar um aðdraganda og viðbragð yfirvalda vegna Súðavíkursnjóflóðsins í ársbyrjun 1995. Nefndin samþykkti samhljóða beiðni um skipan nefndarinnar í gær, eftir nokkurra mánaða skoðun á málinu, þar sem fjöldi fólks var kallaður fyrir nefndina.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, staðfesti þetta í samtali við Heimildina í morgun. Rannsóknarnefndin er skipuð á grundvelli laga um rannsóknarnefndir alþingis, sem sett voru 2011, „til þess að rannsaka málsatvik í mikilvægu máli sem varðar almenning“. Samkvæmt þeim þarf svo forseti að veita umsögn og þaðan fer síðan málið til formlegrar afgreiðslu.
„Mér finnst þetta marka ákveðin tímamót,“ sagði Þórunn um niðurstöðu nefndarinnar í morgun. „Hér erum við að tala um atburð sem gerðist fyrir tæplega þremur áratugum, en aðstandendur og ættingjar hafa árangurslaust reynt að fá málið rannsakað og reynt í því skyni að fá svör og skýringar. Við höfum haft þessi lög um rannsóknarnefndir frá árinu 2011 og þau gefa tækifæri til að rýna þetta allt saman og veita fólki sem upplifði þennan atburð tækifæri að ræða hann.“
Þórunn segir gleðilegt og mikilvægt að nást hafi samhljómur í nefndinni um þessa niðurstöðu, þvert á flokkslínur. Það hafi gerst eftir rækilega yfirlegu og fundi með fjölda gesta, bæði eftirlifendum, fulltrúum almannavarna og viðbragðsaðila sem komu að málinu.
„Við fengum gesti og ræddum allar hliðar málsins, sem er nauðsynlegt og ekki síður það að náist samstaða um það að fara þessa leið, þvert á allar flokkslínur. Það er mjög mikilvægt að það gerist. Þannig að ég er mjög ánægð með að þessi áfangi hafi náðst, þó það hafi tekið allan þennan tíma,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Stjórnskipunar og eftirlitsnefndar í samtali við Heimildina.
29 ár og þrír dagar
Síðastliðin þriðjudag, 16 janúar, voru 29 ár frá því flóð féll á byggð nyrst í Súðavíkarþorpi. Klukkan var þá rétt rúmlega sex að morgni og hreif með sér stóran hluta byggðarinnar og fjölda húsa. Alls létust 14 manns í flóðinu, þar af voru 8 börn.
Ættingjar þeirra sem létust fóru fljótlega eftir atburðinn fram á að óháð opinber rannsókn yrði gerð á því hvernig yfirvöld hefðu brugðist yfirvofandi hættu, misserin og dagana fyrir flóðið. Þeim beiðnum fólksins var ítrekað hafnað, af ráðherrum, ríkissaksóknara og Umboðsmanni alþingis næstu tíu árin eftir flóð. Rökstuðningurinn var jafnan sá að rannsókn hefði þegar farið fram af hálfu Almannavarna Ríkisins, sem hefði komist að því að ekki hefði verið hægt að forða manntjóni í flóðunum. Sú rannsókn var kynnt ári eftir flóðin og var harðlega gagnrýnd fyrir innra ósamræmi og þá staðreynd að sömu aðilar og borið hefðu ábyrgð, væru þar að rýna eigin verk.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur haft málið til umfjöllunar síðan að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sendi Þórunni, formanni þingnefndarinnar, bréf 8. júní síðastliðin þar sem hún sagðist telja að rannsóknarnefnd sem þessi væri til þess fallin að skapa traust um niðurstöður rannsóknar á aðdraganda og eftirmálum snjóflóðanna. Það gerði Katrín eftir að aðstandendur og eftirlifendur þrettán þeirra sem fórust í snjóflóðunum í Súðavík óskuðu eftir að opinber rannsókn færi fram á aðdraganda og eftirmálum flóðanna. Erindi þeirra var sent í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar Heimildarinnar um snjóflóðin sem birtist í 5. apríl á síðasta ári.
Nefndin tók í kjölfarið málið til skoðunar og meðferðar og það var loks í október síðastliðnum sem þrír aðstandendur, þau Hafsteinn Númason, Maya Hrafnhildardóttir og Sigríður Rannveig Jónsdóttir, fengu að koma fyrir nefndina og fá áheyrn. „Þetta hafa verið 28 ár í bið, bráðum 29 ár,“ sagði Hafsteinn við það tilefni. „Loksins hlustað á okkur.“
Hafsteinn, og Berglind Kristjánsdóttir, þáverandi eiginkona hans, áttu þrjú af þeim átta börnum sem létust í flóðinu. Sigríður Rannveig missti eitt barn. Maya missti foreldra sína. Þegar þau komu fyrir nefndina voru akkúrat liðnir tíu þúsund og fimm hundruð dagar frá atburðinum. Á þeim tíma höfðu stjórnvöld ítrekað neitað að rannsaka flóðið. Nú 29 árum og tveimur dögum frá atburðinum hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd samþykkt einróma að slík rannsókn skuli loks fara fram.
Í rannsókn Heimildarinnar sem birt var í apríl voru fjölmörg atriði tínd til sem gáfu skýrar vísbendingar um að yfirvöld hefðu sýnt af sér vanrækslu í aðdraganda flóðsins í Súðavík. Í umfjölluninni kom meðal annars fram að hættumat á svæðinu gerði ráð fyrir snjóflóðavarnargörðum sem aldrei risu, auk þess sem að mistök hafi verið gerð þegar hættumatskort var teiknað, sem tók mið af gömlum loftmyndum sem sýndu ekki alla byggðina í bænum.
Það var svo greint frá því í fyrsta sinn í umfjölluninni um mistök við gerð snjóðflóðahættumatsins hafi orðið til þess að almannavarnayfirvöld hafi ranglega haldið að ekkert húsanna sem fór undir flóðið hafi verið á hættusvæði. Þvert á móti voru þrjú íbúðarhús og leikskóli inni á hættusvæðinu og fóru öll undir flóðið. Gömul loftmynd sem notuð var sem grunnur að kortinu gerði það að verkum að inn á kortið vantaði þessi hús, þar sem þau voru byggð eftir að loftmyndin var tekin.
Þetta er í fimmta sinn sem Alþingi skipar rannsóknarnefnd en í fyrsta skipti sem nefnd er falið að rannsaka mál sem ekki tengist falli bankanna eða aðdraganda þess með einhverjum hætti.
Athugasemdir