„Ég er fæddur þarna og uppalinn. Ég hef trú á þessu svæði,“ sagði Ómar Smári Ármannsson, Grindvíkingur og fornleifafræðingur í samtali við blaðamann Heimildarinnar. Hann hefur ákveðið að sækja um að byggja sér hús í Grindavík, nánar tiltekið í Þórkötlustaðahverfi.
„Við höfum í gegnum tíðina lifað með þessari ógn og þessari áhættu sem boðið hefur verið upp á,“ segir Ómar um Grindavík. Bendir hann á að ef landslagið er skoðað má sjá hvernig fyrri eldgos hafa mótað landið. „Þetta sem hefur verið að birtast núna á seinustu tímum er bara það svartasta sem að við áttum von á, en framtíðin er björt.“
Ómar þekkir vel sögu Grindavíkur og fjallar um sögu þess á vefnum Ferlir, þar sem hann fer ítarlega yfir hvern þann krók og kima sem má finna á Grindavíkur svæðinu.
Vill byggja lítið hús í Grindavík
Ómar stefnir á að sækja um lóð í óskiptu landi Þórkötlustaða. Hann hefur velt þeirri pælingu upp síðustu tíu árin en stefnir á að koma henni í framkvæmd ef umsókn hans um nýbyggingu verður samþykkt. „Ég ætla að byggja þarna lítið hús. 80 fermetra ef ég fæ leyfi. Njóta umhverfisins og útsýnisins til allra átta. Ég get dundað þar við skriftir og rannsóknir og þess háttar. Það er allt fram undan í þessum efnum, það á eftir að skrá ýmsa staði.“
Athugasemdir (1)