Í tilkynningu frá stjórnarráðinu er greint frá því að Jón Arnór Stefánsson verið skipaður stöðu formanns stjórnar Þjóðarhallar ehf. Fyrirtæki sem stofnað var af ríki og Reykjavíkurborg, í gær, til þess að skipuleggja byggingu á nýrri þjóðarhöll sem á að rísa í Laugardalnum.
Ásamt Jóni sitja í stjórn tveir einstaklingar sem tilnefndir voru af ríkinu og aðrir tveir sem tilnefndir voru af Reykjarvíkurborg. Helga Sigurrós Valgeirsdóttir, sjávarútvegsfræðingur og fyrrum aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannessonar þegar hann gegndi stöðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þórey Edda Elísdóttir, umhverfisverkfræðingur og fyrrum afreksíþróttamaður í stangastökki, voru tilnefnd af ríkinu.
Fyrir hönd Reykjavíkurborgar sitja Ómar Einarsson, sviðsstjóri Íþrótta- og tómstundasviðs, og Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs í stjórn félagsins.
Þá voru tilnefndir tveir varamenn í stjórnina. Varamenn eru Högni Haraldsson og Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.
Glæstur ferill
Jón Arnór, var um langt skeið með bestu körfuknattleiksmönnum Íslands. Áður en hann lagði skóna á hilluna árið 2021, lék hann með félagsliðum í Þýskalandi, Ítalíu, Rússlandi, Spáni og Bandaríkjunum. Þá var hann Íslandsmeistari með KR fimm sinnum.
Að loknum körfuboltaferlinum hóf Jón störf hjá BDA Sports Management og færði sig síðar yfir til starfa hjá verðbréfafyrirtækinu Fossar markaðir. Jón er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.
Fjármálaráðherra leitaði til Jóns
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá því í færslu sem birt var á Facebook-síðu ráðherra að hún hafi átt fund með Jóni Arnóri morgun. Í færslunni segir hún Jón vera vel undirbúinn til þess að takast á við starfið. „Jón Arnór er eins og allir vita margfaldur Íslandsmeistari og atvinnumaður í körfubolta sem veit hvað þarf til þess að ná langt og þekkir þarfir íþróttahreyfingarinnar,“ segir Þórdís.
Þá kemur einnig fram í færslunni að hún hafi leitað til hans og beðið hann um að taka starfið að sér.
Fréttin er í vinnslu og verður uppfærð
Athugasemdir