Dagur B. Eggertsson, sem verður borgarstjóri Reykjavíkur í nokkra daga í viðbót, greindist með alvarlegan gigtarsjúkdóm haustið 2017. Áhrifin af þeim sjúkdómi voru öllum sýnileg. Um tíma þurfti borgarstjórinn að styðjast við staf við gang. Dagur segir að þetta hafi verið mikið áfall. „Maður var alveg sleginn kylliflatur í orðsins fyllstu merkingu. Ég fékk mikið af kveðjum frá fólki með gigt. Þær voru allar settar fram af góðum hug en mér leist ekkert á blikuna þegar fólk var að segja að því sjálfu gengi mjög vel og gæti alveg verið í hálfu starfi. Það þyrfti bara að leggja sig svona eftir tveggja tíma vinnu skorpu. Þannig að ég var um tíma óviss um einhvern veginn hvort ég mundi valda því að sinna starfi borgarstjóra, því að það auðvitað fylgir því mikið álag.
Ég var heppinn að fá mjög góðan lækni sem setti mig á meðferð sem átti eftir að koma á daginn að reyndist mjög árangursrík. En hann bankaði líka létt í öxlina á mér þegar hann var búinn að setja mig á meðferðina og sagðist vera bjartsýnn. Ég þyrfti bara að passa að vera ekki undir álagi. Svo hló hann eins og hross.“
Sú tegund af gigt sem Dagur greindist með gengur niður hjá stórum hópi á 12 til 18 mánuðum. Það gerðist ekki hjá honum. „Ég var á lyfjum í fjögur ár og er núna í lyfjahléi. Það getur alveg brugðið til beggja vona hvort ég þurfi að byrja að taka lyfin aftur. Ég þurfti auðvitað aðeins að breyta um takt, sérstaklega framan af. En á lyfjunum finnst mér samt merkilegt hvað maður hefur getað beitt sér. Nú er ég nánast búinn að gleyma þessu nema ég hef stafinn alltaf hangandi í anddyrinu heima til þess að minna mig á þakklæti.“
Árásin hafði djúpstæð áhrif á fjölskylduna
Í byrjun árs 2021 fundust byssukúlur í hurð á bifreið fjölskyldu Dags. Ljóst var á ummælum hans í fjölmiðlum eftir að málið kom upp að honum var verulega brugðið. Pólitísk orrahríð hafði tekið á sig þessa mynd og hún var komin heim til hans þar sem áhrifin voru ekki bara á hann, heldur fjölskylduna. Fólkið sem er honum kærast.
Dagur segir að skotárásin hafi þó ekki leitt til þess að hann hafi hugsað af neinni alvöru að hætta í stjórnmálum. „Ég hugsa að strax í kjölfarið hafi þetta frekar haft áhrif á það að ég ákvað að láta ekki gott heita. Mér hefði fundist einhvern veginn það gefa röng skilaboð, þó að það hafi sannarlega komið upp í hugann og ég hafi farið í gegnum það. En öll reynsla sem maður verður fyrir tekur maður með og vinnur úr á einhvern hátt.“
Viðbrögð langflestra hafi líka verið þannig að það hafi komið eitthvað jákvætt út úr atvikinu. „Sem betur fer tóku langflestir undir það að við sem samfélag viljum auðvitað vera nákvæmlega það, samfélag, en ekki land eða borg þar sem borgarstjórar eða ráðherrar eða ráðamenn ferðast um í lögreglufylgd eða þurfa að vera í stöðugri gæslu. En þetta er mjög brothætt ef eitthvað gerist.“
Rannsókn á málinu var fellt niður síðla árs 2021 og sá sem var grunaður um verknaðinn því aldrei ákærður. Dagur segir þó að hann hafi aldrei fundið annað en að lögreglan hafi reynt að gera sitt besta. „Það voru takmörkuð gögn sem og dómafordæmi sem leiddu til þess að það var ekki saksótt fyrir þetta. Og það er auðvitað eitthvað sem maður situr uppi með en mér fannst heldur ekki gagnlegt einhvern veginn að láta þetta verða fyrirferðarmikið í okkar daglega lífi. Þó að þetta væri staðreynd sem við fjölskyldan sátum uppi með og hafði djúpstæð áhrif á okkur öll.“
Sjá meira

Athugasemdir (3)