Pláneturnar eru átta eins og allir vita — eftir að Plútó var lækkaður í tign og kallast nú dvergpláneta. Vísindamenn hefur að vísu lengi grunað að einhvers staðar úti í óravíðáttum geimsins leynist níunda plánetan; sennilega þungur gasrisi á stærð við Neptúnus og Úranus, en leit að þessum risa hefur ekki enn skilað árangri.
Nú eru hins vegar komnar á kreik í hópi stjarnvísindamanna hugmyndir um að enn fleiri plánetur kunni að leynast úti í myrkrinu og eru þær alveg óskyldar kenningunni um Plánetu 9. Helsti talsmaður þessara hugmynd er Amir Siraj stjarneðlisfræðingur við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum.
Samkvæmt grein sem birtist á dögunum á vefsíðu New Scientist, þá upplýsir Siraj að hugmyndir hans (og fleiri) um margar fleiri plánetur úti í myrkri sólkerfisins séu sprottnar af tveimur rótum — það er að segja rannsóknum sem hafa verið á döfinni undanfarið.
Annars vegar hefur skilningur vísindamanna á tilurð stjarna og sólkerfa aukist upp á síðkastið. Fólk gerir sér nú betur en áður grein fyrir því að stjörnur myndast sennilega flestar í eins konar knippum, þegar stór gasský í geimnum taka að dragast saman. Fyrst eftir að sólir myndast í slíkum knippum eru þær sennilega býsna nærri hver annarri (í stjarnfræðilegum skilningi!) en fjarlægjast svo með tíð og tíma.
Að lokum er svo óravíðátta milli þeirra, rétt eins og nú er milli Sólarinnar okkar og nálægra sólstjarna.
Í öðru lagi hefur fólk líka áttað sig miklu betur en áður á að sennilega er umtalsverður fjöldi reikistjarna á sveimi milli sólkerfa og stjörnuþoka eftir að hafa af ýmsum ástæðum hrakist burt frá sól sinni í árdaga.
Um einn anga þeirra rannsókna var skrifað hér á síðuna í október síðastliðnum, sjá hér.
Hugmyndir Siraj og félaga ganga sem sagt út á að þegar Sólin okkar var nýkviknuð og sólkerfið komið í gang fyrir rúmum fjórum milljörðum ára, þá hafi hún lengi vel verið svo nærri öðrum sólum úr sama knippi að alls ekki sé ólíklegt að hún hafi með aðdráttarafli sínu „rænt“ svo og svo mörgum plánetum frá öðrum sólum í næsta nágrenni.
Við vitum að allt lék á reiðiskjálfi í sólkerfinu okkar fyrstu milljónatugina og áhrif frá öðrum sólum gætu til dæmis vel hafa haft áhrif á hamfarir eins og árekstur hinnar týndu plánetu Theiu á Jörðina — sem hér var fjallað um í Heimildinni nýlega.
Og rétt eins og Sólin gæti haft rænt plánetum frá öðrum stjörnum, þá gætu þær líka hafa rænt Sólina einhverjum af hinum fyrstu plánetum sínum.
En nema hvað, með flóknum tölvulíkönum og útreikningum sem Siraj og félagar hafa sett saman og framkvæmt, þá er niðurstaða þeirra sú að úti í niðdimmunni í hinu svonefnda Kuyper-belti handan Neptúnusar og jafnvel alla leið úti í Oort-skýinu sem er ennþá fjær, þar gætu leynst ein til þrjár plánetur á stærð við Mars og allt frá tveim til fimm aðrar á stærð við Merkúr litla, minnstu plánetuna í hinu þekkta sólkerfi.
Ekki kann ég að skýra reikningsaðferðir Sirajs en í greininni í New Scientist er vitnað til stjarneðlisfræðingsins Richard Parkers við Sheffield-háskóla sem segir að rannsóknir Sirajs virðist ábyggilegar þótt vitaskuld þurfi að rannsaka málið nánar áður en fallist verður afdráttarlaust á þær.
Og það er einmitt það sem stendur til því árið 2025 verður Veru C. Rubin-stjörnuathugunarstöðin á háum afskekktum fjallstoppi í Tjíle komin almennilega í gang og hún mun vera þess umkomin að skyggnast út í hér um bil ystu afkima sólkerfisins.
Fjarlægðirnar þar úti eru gífurlegar og Siraj viðurkennir fúslega að mjög erfitt verði að finna þessar „stolnu plánetur“ því þær leynist líklega í mörg hundruð og jafnvel mörg þúsund sinnum meiri fjarlægð frá Sólinni en Jörðin.
En ef þær finnast og ef hægt verður að senda þangað geimfar til rannsókna (vissulega vart í náinni framtíð), þá gætu niðurstöðurnar skilað mjög auknum skilningi á upphafi sólkerfa í heiminum.
„Ímyndið ykkur að geta sent geimfar til að rannsaka gerð plánetu úr öðru sólkerfi í þessu sólkerfi; ímyndið ykkur allt sem við getum lært af því,“ segir Siraj.
Athugasemdir