Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Ingó veðurguð, sendi á dögunum kröfubréf til konu sem lét ummæli um hann falla á netinu árið 2022. Þetta staðfestir Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Ingólfs, í samtali við Heimildina. Hún segir ekki loku fyrir það skotið að fleiri kröfur verði sendar á hendur fólki fyrir að hafa tjáð sig um Ingólf á samfélagsmiðlum með meiðandi hætti.
„Hann ætlar ekki að sitja undir því að vera sakaður um að nauðga konum og beita ofbeldi,“ segir hún. Í kröfubréfinu var farið fram á að ummælin væru leiðrétt eða afturkölluð og beðist afsökunar á þeim. Ingólfur krefur konuna um greiðslu 250 þúsund króna í miskabætur og til viðbótar 150 þúsund króna í lögmannskostnað, ellegar áskilji hann sér rétt til að fara fram á „fullar miskabætur honum til handa sem og málskostnað“.
Auður tekur fram að þetta sé ekki herför gegn neinum og segist vona að hægt verði að ná samkomulagi við þá stefndu svo málið endi ekki fyrir dómi. „Það er náttúrulega það sem við vildum helst vilja.“ Ekki er ljóst hvað myndi felast í slíku samkomulagi, en ef marka má kröfurbéf er það að viðkomandi biðji Ingólf afsökunar, dragi ummæli til baka og greiði miskabætur.
Athugasemdir (4)