Haustið 2015 greindi Karsten Lauritzen, þáverandi ráðherra skattamála í Danmörku, frá því á fréttamannafundi, að danski skatturinn hefði „endurgreitt“ samtals 12,7 milljarða danskra króna (257 milljarðar íslenskir) til nokkurra aðila sem ráðherrann tilgreindi ekki nánar. Grunur léki á að um væri að ræða skattsvik.
Þegar fyrirtæki sem starfar í Danmörku skilar hagnaði gengur hluti hagnaðarins yfirleitt til hluthafanna. Af þessum hagnaði eiga hluthafarnir að greiða 27 prósent skatt, sem viðkomandi fyrirtæki heldur eftir og skilar síðan til skattsins. Danmörk er með sérstakt samkomulag varðandi skattamál við mörg lönd. Í því samkomulagi felst meðal annars að hluthafi sem búsettur er utan Danmerkur getur óskað eftir að fá skattinn endurgreiddan og borgað skatt af upphæðinni í búsetulandi viðkomandi (þar sem skattprósentan er iðulega lægri). Oft er endurgreiðslubeiðandinn sjóður í landi þar sem ekki er skylt að borga skatt af arðgreiðslum. Sá sem óskar endurgreiðslu sendir umsókn til skattsins og ef allt er með felldu fær viðkomandi peningana greidda.
Maðkur í endurgreiðslumysunni
Ef allt er með felldu sagði hér að ofan. En, í endurgreiðslunum sem danski skattamálaráðherrann greindi frá, og var ástæða fréttamannafundarins, var ekki allt með felldu. Milljarðarnir 12,7 voru nefnilega ekki endurgreiðsla, peningarnir höfðu aldrei verið greiddir, þarna var einfaldlega verið að greiða út peninga sem aldrei höfðu runnið í danska ríkiskassann, gegnum skattinn. Þeir sem höfðu fengið peningana höfðu einfaldlega sent beiðni um endurgreiðslu til skattsins sem samþykkti þá og borgaði svo.
257
Þótt margir Danir hafi hrokkið við þegar skattamálaráðherrann greindi frá endurgreiðslunum, og kannski blöskrað upphæðin, var þó annað sem kom þeim enn meira á óvart varðandi málið. Það var þegar fjölmiðlar greindu frá því, eftir að hafa gengið hart eftir upplýsingum frá skattinum, hvernig afgreiðsla endurgreiðslnanna fór fram. Einn maður sá um að yfirfara endurgreiðslubeiðnirnar og senda þær áfram í gjaldkeradeildina sem svo millifærði á viðtakanda. Þessi eini starfsmaður, sem fjölmiðlar nefndu „manninn með gúmmístimpilinn“, komst engan veginn yfir að rannsaka hverja beiðni og afleiðingin varð sú að beiðnirnar voru afgreiddar, nánast á færibandi. Ef allt hefði verið með felldu hefði afgreiðsludeildin, sem var einn maður, átt að kanna hvort umsækjendur hefðu átt hlutabréf í dönskum fyrirtækjum.
Danska skattstofan, SKAT, mátti árum saman búa við mikinn niðurskurð. Rök stjórnmálamanna voru ætíð þau að tækni nútímans kæmi í stað „starfsfólksins á gólfinu“ eins og það var iðulega orðað, þúsundum starfsfólks var sagt upp. Ekkert var hlustað á margendurteknar ábendingar starfsfólks um að miklar brotalamir væru í eftirliti skattsins á mörgum sviðum, þar á meðal vegna endurgreiðslna.
Það var ekki fyrr en SKAT fékk ábendingu frá erlendum skattayfirvöldum um að líklegt væri að erlend fyrirtæki, eða sjóðir, hefðu fengið greiddar háar fjárhæðir frá SKAT að farið var að kanna málið og upp komst um svikin.
Allt í háaloft þegar fréttirnar birtust
Þegar fréttirnar um endurgreiðslurnar birtust í dönskum fjölmiðlum snemma í september 2015 varð uppi fótur og fit. Stjórnmálamennirnir kepptust hver um annan þveran að lýsa hneykslun sinni og kröfðust skýringa frá SKAT og skattaráðuneytinu. Enginn taldi sig bera ábyrgð á þessu stærsta skattsvikamáli í sögu Danmerkur. Allir voru sammála um að það væri með ólíkindum, og vitaskuld óþolandi, að milljarðar gætu streymt eftirlitslaust úr ríkiskassanum. Danskir fjölmiðlar fjölluðu ítarlega um „skandalen“ og ræddu meðal annars við fjölda fyrrverandi og þáverandi starfsmanna SKAT. Í þessum viðtölum sögðu margir úr þessum hópi að þeim hefði ekki virst sérstakur vilji hjá skattayfirvöldum til að aðhafast þótt athygli þeirra væri vakin á fjölmörgum málum, jafnvel málum þar sem vafi léki á hvort lögum væri fylgt. Innra eftirlit SKAT hafði allt frá árinu 2012 margoft sent ráðuneytisstjóra skattaráðuneytisins skýrslur og minnisblöð þar sem vakin var athygli á brotalömum í endurgreiðslukerfinu, og mörgu öðru. Danskir fjölmiðlar fullyrtu að þessar skýrslur og minnisblöð hefðu endað í skúffu ráðuneytisstjórans og aldrei náð lengra.
Þegar línur fóru að skýrast varðandi kröfur dönsku skattstofunnar í „endurgreiðslumálinu“ varð ljóst að það tæki mörg ár og flókin málaferli að endurheimta milljarðana 12,7 og vafasamt verður að telja að þeir fjármunir náist allir til baka. Málaferli eru í gangi í nokkrum þessara mála og fleiri í undirbúningi. Stærsta málið varðar breskan ríkisborgara, Sanjay Shah, sem fékk „endurgreidda“ tæpa níu milljarða danskra króna. Hann sat í gæsluvarðhaldi í Dubai og barðist lengi með kjafti og klóm gegn því að verða framseldur til Danmerkur sem hefur ekki framsalssamning við Dubai. Í vikunni bárust skyndilega þær fréttir að Shah hefði verið framseldur og hefði verið fluttur rakleiðis í Vestre fangelsið í Kaupmannahöfn. Hans bíða nú réttarhöld í Danmörku og í Bretlandi, sem hefur framsalssamning við Dubai en nýlega kvað Hæstiréttur þar upp úr að Danir fái leyfi til að rétta yfir Shah í þar í landi. Þau réttarhöld eiga að hefjast á næsta ári.
Bech-Bruun málið
Árið 2014 vann danska lögmannsstofan Bech-Bruun náið með þýska bankanum North Channel Bank, NCB. Samvinnan fólst í ráðgjöf varðandi skattamál. Fimm árum síðar, í september 2019, játuðu stjórnendur NCB fyrir rétti í Glostrup í Danmörku að þeir hefðu útbúið skjöl í þeim tilgangi að fá útborgaða endurgreiðslu frá SKAT í Danmörku og notið ráðgjafar og leiðsagnar Bech-Bruun lögmannsstofunnar. Endurgreiðslan nam 1,1 milljarði danskra króna. Í framhaldi af þessu krafði SKAT Bech-Bruun um 750 milljónir danskra króna, sú krafa var birt 2. apríl 2020. Lögmannsstofan neitaði og málið fór fyrir dómstóla. Eystri-Landsréttur hafnaði kröfu SKAT, sem áfrýjaði málinu til Hæstaréttar, æðsta dómstóls Danmerkur. Dómur Hæstaréttar var kveðinn upp 20. nóvember sl. Hæstiréttur sneri við dómi Eystri-Landsréttar og Bech-Bruun lögmannsstofunni ber að greiða SKAT 400 milljónir danskra króna. Við þessa upphæð bætast vextir frá 2. apríl 2020.
Þótt milljónirnar 400 séu ekki stór hluti milljarðanna 12,7 í svikamyllunni segja danskir skatta- og réttarfarssérfræðingar niðurstöðuna athyglisverða og vísbendingu um framhaldið.
Eins og áður var nefnt eru mörg önnur mál í undirbúningi, eða nú þegar, í dómskerfinu.
Athugasemdir (1)