Bjarni Benediktsson sagði af sér embætti fjármála- og efnahagsráðherra í byrjun október. Ástæðan var niðurstaða umboðsmanns Alþingis um að Bjarni hefði verið vanhæfur til að taka ákvörðun um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka til félags í eigu föður hans í mars 2022.
Bjarni hafði þá setið sem fjármála- og efnahagsráðherra meira og minna í áratug, með stuttu stoppi í forsætisráðuneytinu árið 2017.
Þegar tölur Maskínu um traust á þeim einstaklingi sem gegnir því embætti eru skoðaðar vekur athygli að Bjarni hefur aldrei verið í þeirri stöðu að fleiri treystu honum vel til verka en vantreystu honum. Líkt og Katrínu tókst Bjarna þó um tíma að vinna verulega á hjá þjóðinni. Í desember 2021, skömmu eftir síðustu kosningar, voru 38 prósent aðspurðra farnir að treysta honum vel á meðan að 44 prósent sögðust bera lítið traust til hans. Sá árangur entist þó ekki lengi. Mest mældist vantraustið 71 prósent í apríl í fyrra, skömmu eftir að áðurnefnd sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, sem hefur hlotið margháttað áfelli eftirlitsstofnana, fór fram. Þá sögðust einungis 18 prósent aðspurðra treysta Bjarna vel. Á fimm mánuðum gjörbreyttist staðan.
Bjarni á þó aðeins í land með að ná því vantrausti sem Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra í hrunstjórninni, mældist með í byrjun desember 2008. Þá sögðust einungis 5,5 prósent aðspurðra treysta honum vel en 79 prósent báru lítið traust til hans.
Í nóvember í fyrra hafði staða Bjarna lagast lítillega og vantraustið var komið niður í 62 prósent. Það þýddi samt sem áður að næstum tveir af hverjum þremur báru lítið traust til hans.
Skiptust á stólum en vantraustið elti
Eftir afsögn Bjarna var ákveðið að hann, formaður Sjálfstæðisflokksins, myndi hafa sætaskipti við varaformann sinn, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, sem gegnt hafði embætti utanríkisráðherra. Þórdís Kolbrún byrjar setu sína í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í traustbrekku. Alls segjast 31 prósent treysta henni mikið en 41 prósent að þeir beri lítið traust til hennar. Staðan er þó mun skaplegri en í síðustu mælingu á trausti til Bjarna til að gegna sama embætti.
Þórdís Kolbrún sigldi líka nokkuð lygnan sjó í utanríkisráðuneytinu og fékk sína bestu traustmælingu þar í fyrra þegar 35 prósent sögðust treysta henni vel á meðan að 34 prósent sögðust bera lítið traust til hennar. Það var mesta traust sem mælst hefur til sitjandi utanríkisráðherra síðan fyrir árið 2008.
Bjarni tók óvinsældir sínar með sér úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu og yfir í utanríkisráðuneytið, þar sem gustað hefur um hann vegna ummæla um stríðið milli Ísraesl og Hamas á Gaza. Í nýjustu könnun Maskínu sögðust þrír af hverjum fjórum aðspurðum, 75 prósent, að þeir vantreystu Bjarna sem utanríkisráðherra. Einungis 17 prósent sögðust bera mikið traust til hans.
titra fúin sprekin smá
þjóðin snúin þögnin búin
þrotin trúin formenn á.