Hlutfall þeirra sem eru andvíg laxeldi í sjókvíum við Ísland hefur vaxið um 50% á síðustu tveimur árum; farið úr 46% í ágústkönnun Maskínu 2021 í 69% í könnun sem fyrirtækið framkvæmdi í þessum mánuði.
Í ágúst 2021 voru 23% svarenda hlynnt laxeldi í skjókvíum en það hlutfall er nú komið niður í 10%.
Svipuð þróun hefur átt sér stað hvað varðar laxeldi á landi á Íslandi en mun fleiri eru þó hlynntir því en sjókvíaeldinu eða 47%. 26% svarenda sögðust andvíg laxeldi á landi í nýjustu könnun Maskínu en í ágúst 2021 voru 14% andvíg því.
Sjálfstæðismenn hlynntastir en þó ekkert svo hlynntir
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins reyndust líklegastir til þess að segjast hlynntir laxeldi í sjókvíum en samt voru einungis 21% þeirra hlynntir því. Kjósendur Samfylkingarinnar reyndust hvað andvígastir en 85% þeirra sögðust andvígir laxeldi í sjókvíum við Ísland.
Heimildin birti nýverið myndbönd frá Veigu Grétarsdóttur, kajakræðara og náttúruverndarsinna, sem sýndu lús- og bakteríuétna laxa í sjókvíum Arctic Fish í Tálknafirði. Myndböndin vöktu hörð viðbrögð.
Athugasemdir (2)