Fyrir liggur að umtalsverður fjöldi Grindvíkinga getur ekki flutt í fyrra húsnæði vegna þeirra skemmda sem orðið hafa í jarðskjálftum og jarðsprungum.
Enginn veit á þessarri stundu hvort hraunflæði eða aska og gös munu spilla byggðinni frekar. Við verstu aðstæður gæti farið svo að allir Grindvíkingar þurfi að koma sér fyrir í húsnæði utan bæjarins til skemmri eða lengri tíma – jafnvel varanlega.
Hér var gríðarlegur húsnæðisskortur fyrir; efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar og vaxtaokurstefna Seðlabankans hefur keyrt hefðbundnar íbúðabyggingar neytenda niður í ekki neitt og ríkisbankarnir skammta afar takmarkað til nýbygginga og á okurvöxtum í þokkabót. Þess vegna stefnir í að nýbyggingar fari niður undir núll, með frosti framundan í byggingarstarfsemi.
Nú má rökstyðja að það vanti að minnsta kosti tólf þúsund íbúðir á markaðinn eins og hann var fyrir hamfarirnar í Grindavík – og ljóst að þarna þarf kannski 1500 íbúðir strax til að hýsa alla Grindvíkinga.
Þegar Vestmannaeyingar flúðu heimili sín í skyndi árið 1973 tók ekki langan tíma að setja af stað varanlega uppbyggingu íbúða/húsa með virkum stuðningi frá nágrannaþjóðum. Viðlagasjóður reisti 500 íbúðir á einu ári, sem voru keypt inn frá verksmiðjum í nágrannalöndum, þar sem stjórnvöld norrænu ríkjanna léttu undir með beinum stuðningi og fjárstyrkjum. Þarna var ekki um að ræða neitt „bráðabirgðahúsnæði“ – þvert á móti, því enn þessum 50 árum síðar eru þessi hús næstum öll í fullri nýtingu.
Stjórnvöld sem vakla í aðstæðum eins og þessum eru ekki að vinna sína vinnu. Þau fabúlera bara og virðast alls ekki vita hvert verkefnið var og hvað þá eins og þetta hefur verið að gerast með jarðeldum og náttúruvá.
Launþegahreyfingin og nokkur stéttarfélög hafa þegar komið til liðs við bráðaþörf og m.a. tekið á móti þjónustu verkalýðsfélags Grindavíkur og VR sinnir félagsmönnum sínum sem búa og starfa í Grindavík. Efling reið á vaðið og rýmdi orlofshús félagsins á Suðvesturlandi og Kennarasambandið hefur gert það sama. Alþingi gæti vissulega sett lög í skyndi til að heimila tímabundið „leigunám“ tómra íbúða eða íbúða í gistirekstri og frítímalúxus.
Ég leyfi mér að skora á fulltrúa launþegasamtakanna og forystumenn sveitarfélaganna og taka forystu í þessum bráðu húsnæðisaðstæðum. Það þarf greinilega mjög skýra pressu til þess að ríkisstjórnin verði með í nauðsynlegum aðgerðum.
Varnargarðar ríkisstjórnarinnar utan um einkafyrirtæki í gróðarekstri verða reistir í hasti en þar bar forsætisráðherra ekki einu sinni gæfu til að leiða þingheim saman til samhljóða niðurstöðu að því er varðar fjármögnun verkefnisins þar sem húsnæðiskostnaður almennings verður hækkaður ofan á þá hroðalegu verðbólgu sem er á leigumarkaði.
Reynslan frá 1973-1974 liggur fyrir og á þeim grunni ætti að leita til nágrannaþjóða um stuðning við að koma á sambandi við öfluga framleiðendur forsmíðaðra íbúðareininga og húsa. Með einföldum lagabreytingum má heimila og réttlæta hraðferð í skipulagi svæða til bygginga í þessum neyðaraðstæðum sem fyrir voru og nú bætist hastarlega ofan á. Sveitarfélögin ættu þá að geta fengið lánaða „risajarðýtur“ til að hraða lóða undirbúningi eins og nauðsynlegt er í samhenginu.
Jákvætt frumkvæði þarf hins vegar að koma fram því hér eru raunverulegar neyðaraðstæður þótt enginn virðist í beinni hættu á að verða undir eldgosinu ef það kemur upp á þeim stöðum sem hræringar mælast á.
Forsætisráðherra var í viðtali í Kastljósi að kvöldi 16. nóvember. Því miður staðfestist þar að hún býður ekki upp á nein plön um skjótar aðgerðir sem mundu geta komið til framkvæmda.
Verkalýðshreyfingin og sveitarfélögin verða að kalla Alþingi og ríkisstjórn til samstarfs um virkar lausnir.
Framkvæmdastjóri og formaður Samtaka atvinnulífsins urðu sér til skammar á fyrstu klukkustundum hamfaranna í Grindavík með því að ráðleggja fyrirtækjaeigendum að vísa frá sér ábyrgð gagnvart starfsfólki sínu. Landsamband lífeyrissjóða sýndi líka með yfirlýsingu að þeir ætluðu sko ekki að gefa eftir eina krónu af áfallandi vöxtum eða verðbótum lána sjóðfélaganna – og kusu að rifja upp að í gegn um Hrun 2008-2010 og Covid 2020-2021 innheimtu lífeyrissjóðirnir ítrustu kröfur sínar hjá almenningi – um leið og þeir afskrifuðu eða færðu niður kröfur á fyrirtækjaeigendur í stórum slöttum.
Slík viðhorf eiga ekki heima í þeim lausnum sem grípa þarf til þegar samfélag fólks, barna og foreldra og farsæld fjölskyldna er í húfi.
Já; og börnin þurfa að komast í skóla sem allra fyrst þar sem þau eignast félagsskap við þroskandi viðfangsefni – utan við angist fjölskyldunnar og áhyggjur af nánustu framtíð.
"Stjórnvöld sem vakla í aðstæðum eins og þessum eru ekki að vinna sína vinnu."
Ef HS orka og Bláa fara í hraunið.... mun þá ríkisstjórnin bæta þeim tjónið.... með skattlagningu á landsmenn ????