„Mér finnst þetta orka tvímælis. Aðstoðarmenn ráðherra eru eðli málsins samkvæmt ráðnir pólitískt og sinna pólitískum störfum í umboði ráðherrans og búa þess vegna yfir upplýsingum og kontöktum sem ekki er víst að aðrir byggju yfir. Mín skoðun er að huga þurfi betur að þessu: Þannig að aðstoðarmenn ráðherra geti ekki farið beint í eitthvert slíkt starf í sama málaflokki,“ segir Þórunn Sveinbjarnsdóttir, þingkona Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
„Raunar má ætla að aðstoðarmenn ráðherra hafi ríkari áhrif og aðgang að stefnumótun stjórnvalda“
Heimildin greindi frá því í morgun að Guðrún Ása Bjarnadóttir, aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra hefði látið af störfum í ráðuneytinu í síðustu viku og ráðið sig sem framkvæmdastjóra Klíníkurinnar, einkarekins heilbrigðisfyrirtækis í Ármúla. Guðrún Ása mun hefja störf hjá Klíníkinni í byrjun næsta árs. Heimildin spurði Þórunni sérstaklega um mál Guðrúnar Ásu þar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur með slík mál eins og hæfi og hagsmunaárekstra kjörinna fulltrúa og embættismanna að gera.
Ætla að gera 1000 aðgerðir á næsta ári
Vistaskipti Guðrúnar Ásu úr ráðuneytinu til Klíníkurinnar eiga sér stað á sama tíma og útvistun á ríkisrekstri í heilbrigðisþjónustu á Íslandi yfir til einkaaðila stendur á ákveðnum tímamótum. Klíníkin gerði til dæmis fyrsta samninginn um liðskiptaaðgerðir við Sjúkratryggingar Íslands, sem heyra undir heilbrigðisráðherra, fyrr á árinu. Þessi samningur gildir bara út árið. Nú þurfa heilbrigðisráðherra og Sjúkratryggingar Íslands að ákveða hvort gera eigi nýjan samning við Klíníkina, í kjölfar útboðs á liðskiptaaðgerðunum, og eins hvort Klíníkin eigi að fá að gera fleiri aðgerðir.
Fyrir skömmu gaf Klíníkin það út að fyrirtækið ætli sér að gera 1000 liðskiptaaðgerðir á næsta ári og að þeir verði 700 á endanum á þessu ári.
Einungis einn og hálfur mánuður
Minnihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis reyndi að breyta lagafrumvarpi sem tók til þessara atriða á síðasta kjörtímabili. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpinu og kallast þau: „Lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands.“
Með lögunum var kveðið á um að æðstu stjórnendur í stjórnarráði Íslands megi ekki að taka að sér störf fyrir einkaðila í sama málaflokki og þeir unnu að í sex mánuði eftir að þeir láta af störfum. Í lögunum segir: „Með æðstu stjórnendum er í lögum þessum átt við ráðherra, ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og sendiherra í Stjórnarráði Íslands.“
Minnihlui nefndarinnar vildi að lögin myndu einnig ná til aðstoðarmanna ráðherra. Meirihluti nefndarinnar vildi það hins vegar ekki og því fór lagafrumvarpið í gegnum þingið án þess að af því yrði.
Ef vilji meirihlutans hefði orðið ofan á þá hefði Guðrún Ása ekki getað farið strax úr starfi aðstoðarmanns ráðherra og yfir til Klíníkurinnar með þessum hætti: Að á einungis rúmlega einum og hálfum mánuði hætt að vinna sem aðstoðarmaður ráðherra og tekið við framkvæmdastjórastarfi Klíníkurinnar.
Í nefndaráliti minnihlutans sagði meðal annars um mikilvægi þess að láta lögin ná líka yfir aðstoðarmenn ráðherra: „Við umfjöllun í nefndinni var á það bent að eðlilegt væri að láta sömu viðmið gilda um aðstoðarmenn ráðherra, enda gegni þeir áhrifastöðum í sínum ráðuneytum og hafi greiðan aðgang að trúnaðarupplýsingum innan þeirra. Raunar má ætla að aðstoðarmenn ráðherra hafi ríkari áhrif og aðgang að stefnumótun stjórnvalda heldur en t.d. sendiherrar eða skrifstofustjórar ráðuneyta sem þó er lagt til í frumvarpinu að sæti takmörkunum á starfsvali að starfi sínu loknu.“
Þórunn vill breyta lögunum
Aðspurð um hvort hún telji að breyta þurfi lögunum um varnir gegn hagsmunaárekstrum segir Þórunn: „Ég myndi vilja að lögin nái einnig yfir aðstoðarmenn ráðherra. Ég verð að hugsa það hvort ég beiti mér fyrir því að lögunum verði breytt. En ég held að það sé full ástæða til að gera það.“
Eitt af því sem minnihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerði í nefndarálitinu á síðasta kjörtímabili, þar sem mælt var með því að lögin næðu einnig til aðstoðarmanna ráðherra, var að benda á það að samkvæmt rannsóknum á því í hvaða störf aðstoðarmenn ráðherra fara þegar þeir láta af því starfi þá tæplega 14 prósent farið að vinna hjá hagsmunasamtökum í kjölfarið. „Rannsókn á aðstoðarmönnum ráðherra á tímabilinu 1971–2008 sýndi að hjá 13,7% þeirra hafi næsta starf eftir starfslok hjá hinu opinbera verið hjá hagsmunasamtökum,“ sagði meðal annars í nefndarálitinu.
Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki svarað spurningum Heimildarinnar um málið.
Það getur reynst erfitt fyrir ráðherra að fá aðstoðarfólk ef vissir vegir eru fyrir það lokaðir að starfi loknu. En í einræðisríkjum er þetta ekkert mál. Við viljum ekki líkjast þeim.
Þórunni Sveinbjarnardóttur orðar þetta varfærnislega: „Aðstoðarmenn ráðherra eru eðli málsins samkvæmt ráðnir pólitískt og sinna pólitískum störfum í umboði ráðherrans og búa þess vegna yfir upplýsingum og kontöktum sem ekki er víst að aðrir byggju yfir. Mín skoðun er að huga þurfi betur að þessu: Þannig að aðstoðarmenn ráðherra geti ekki farið beint í eitthvert slíkt starf í sama málaflokki,“.