„Þetta er Íslandi að kenna, ekki bara venesúelskum stjórnvöldum,“ segir venesúelski hælisleitandinn Zarkis Abraham Mulki Peña um aðstæður samlanda hans sem sendir voru úr landi í gær. Á flugvellinum í höfuðborginni Caracas tóku lögreglumenn á móti hópnum sem nú er í haldi lögreglu sem sögð er vopnuð.
Útlendingastofnun, í samvinnu við landamærastofnun Evrópu (Frontex), stóð að fluginu frá Íslandi til Venesúela en í hópnum voru 25 börn og 155 fullorðnir. Dómsmálaráðuneytið segir að flugið hafi gengið vel og farþegarnir hafi gengið heilu og höldnu frá borði og inn í flugstöð. En þar skildu leiðir Venesúelabúanna og starfsfólks Útlendingastofnunar og Frontex.
„Þau höfðu hægt um sig á meðan íslensku fulltrúarnir voru þarna. Eftir að þau fóru gerðu venesúelsk stjórnvöld það sem þau vildu,“ segir Zarkis í samtali við Heimildina. Hann er sjálfur enn hér á landi og vill alls ekki snúa til Venesúela með flugvél fullri af Venesúelabúum eftir að hafa séð móttökurnar sem fólkið fékk.
„Venesúelska ríkisstjórnin sér þig sem svikara“
Sumir Venesúelabúanna segja að peningar, hundruð þúsunda sem fólkið hafði fengið í ferða- og aðlögunarstyrk frá íslenska ríkinu, hafi verið teknir af þeim. Þá var þeim gert að skrifa undir ýmis skjöl án lögfræðiaðstoðar og er talið að eitt skjalið hafi verið um landráð.
„[Venesúelsk stjórnvöld] vissu að þarna var fólk sem hafði sótt um hæli á Íslandi. Þau létu fólkið skrifa undir skjal þar sem það játar á sig landráð,“ segir Zarkis.
Hann gagnrýnir Útlendingastofnun fyrir að hafa skipulagt svo stóran flutning á Venesúelabúum með leiguflugi.
„Ef þú ferð með venjulegu flugi er það mjög erfitt fyrir venesúelsk stjórnvöld að hafa uppi á þér,“ segir Zarkis. Með þeim hætti er hægt að týnast í fjöldanum. En í þessu tilviki var vélin full af fólki sem hafði sótt um hæli á Íslandi.
„Þetta er á ábyrgð íslenskra stjórnvalda,“ segir Zarkis. „Venesúelska ríkisstjórnin sér þig sem svikara ef þú sækir um hæli í öðru landi – með því ertu að segja að Venesúela sé ekki í lagi.“
Ótti í hópi Venesúelabúa á Íslandi
Við komuna til Venesúela voru vegabréf fólksins tekin af því. „Þetta fólk mun ekki geta flúið aftur beint frá Venesúela,“ segir Zarkis um það. „Til þess að flýja þyrftu þau að fara í gegnum Kólumbíu eða Ekvador.“
Venesúelskir hælisleitendur eins og Zarkis sem enn eru á Íslandi upplifa nú mikinn kvíða og streitu. Hræðsla um að þeirra bíði sömu örlög hefur gripið um sig.
„Ég er mjög hræddur,“ segir Zarkis. Hann hafði sjálfur fengið atvinnutilboð frá Hinu húsinu þegar honum var neitað um hæli. Mál hans er nú í ferli hjá kærunefnd útlendingamála en hann hefur ekki fengið leyfi til þess að vinna.
Lögmenn sem Heimildin hefur rætt við telja að íslensk stjórnvöld þurfi að rannsaka atburði síðasta sólarhrings vel og að varla sé verjanlegt að senda fleiri Venesúelabúa með leiguflugi frá Íslandi til Venesúela í bili.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur ekki gefið kost á viðtali í dag. Hið sama má segja um forstjóra Útlendingastofnunar.
Athugasemdir (4)