Grindvíkingurinn Sigríður María Eyþórsdóttir gagnrýnir lánastofnanir harðlega fyrir þau úrræði sem bankar og lífeyrissjóðir hafa boðið Grindvíkingum upp á varðandi húsnæðislán sín. Í aðsendri grein á Vísi segir hún að tilboð um frystingu húsnæðislána Grindvíkinga séu „falsörlætistilboð“ og „samfélagslega siðfirrt“, þar sem vextir og verðbætur safnist upp á meðan.
Kallar hún eftir því í greininni að Alþingi og samfélagið allt beiti sé fyrir því að lán Grindvíkinga verði fryst tafarlaust, án vaxta og verðbótasöfnunar. Í greininni segir hún frá því að hún sjálf borgi 420 þúsund á mánuði af húsi sínu í vexti og ef frysta þyrfti lánið í eitt ár myndi eign hennar rýrna um allt að fimm milljónir, sem síðan þyrfti að greiða vexti af í framhaldinu.
„Ég skora á stjórnaraðstöðuna, ég skora á alþingismenn alla, ég skora á kirkjuna, ég skora á verkalýðshreyfinguna, ég skora á félagasamtök, ég skora á almenning, ég skora á alla sem telja sig hafa sóma sem manneskjur að stöðva þetta ferli með öllu móti, hvort sem heldur er með mótmælum eða lagasetningum,“ segir Sigríður María í grein sinni, sem birtist á Vísi í morgun.
Hún segir að það sé „sár stund að átta sig á því að það væri skárri kostur að sjá eftir heimili sínu undir hraun eða ofan í gjótu, en að sjá það standa heilt“ en segir að hvernig sem fari virðist vera að Grindvíkingar muni missa heimili sín og lífsviðurværi, „annað hvort í gegnum forgarð helvítis“ eða þá að þau verði „gleypt af hinum skrímslunum í mynd bankastofnana“.
„Hér erum við Grindvíkingar, heimilislaus, í framtíðarótta. Sum hver, jafnvel mörg okkar, sjá fram á atvinnumissi, fjárhagslegt hrun og þurfa á sama tíma að framfleyta fjölskyldum á óöruggum og hagnaðardrifnum húsaleigumarkaði um ófyrirsjáanlega framtíð. Þetta eru ekki kaldar kveðju til okkar sem horfum inn í óvissuna, þetta er svívirða. Við húseigendur sem höfum varla haft bolmagn til að greiða af lánum okkar í þeim aðstæðum og vaxtahækkunum sem við höfum staðið frammi fyrir undanfarið, sjáum nú fram á það að í miðjum hörmungum verðum við endanlega slegin af,“ segir Sigríður María í greininni.
Þingmaður Flokks fólksins ræddi um samfélagsábyrgð bankanna
Heimildin sagði frá því í gær að fyrstu viðbrögð banka og nokkurra lífeyrissjóða við þeirri stöðu sem uppi er væri að bjóða Grindvíkingum upp á frystingu lána, sem felur í sér að ekki er greitt af lánum, en vextir og verðbætur bætast við höfuðstól.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir þingmaður Flokks fólksins tók málið upp á þingi í gær og spurði þar meðal annars hvort engir af stjórnendum bankanna byggju yfir nokkurri sómakennd og hvort þeir fyndu aldrei fyrir samfélagslegri ábyrgð sinni.
„Frysting sem felur í sér að ekki er greitt af lánum en vextir og verðbætur bætast við höfuðstól, er verra en ekki neitt. Fólk stendur mikið verr að vígi að þessari frystingu lokinni en það gerir nú þegar, með skuld sem hefur hækkað og, í atburðum eins og þessum, jafnvel með óíbúðarhæfa eign sem hefur safnað á sig skuldum í vikur eða mánuði. Þetta var ein af „lausnunum“ sem fólki í vanda var beint í eftir hrun og það fór alltaf illa. Ef þetta tilboð bankanna sýnir fram á og staðfestir eitthvað, er það það að samkennd, sómakennd og samfélagsleg ábyrgð er ekki til hjá stjórnendum þeirra. Við sem samfélag eigum meira inni hjá bönkunum en þetta. Þeir verða einfaldlega að fella niður greiðslur á þessum lánum þar til mál taka að skýrast. Það væri smá bragur á því og í raun það minnsta sem þeir geta gert fyrir fólk í gríðarlega erfiðum aðstæðum,“ sagði þingmaðurinn í ræðu sinni, í umræðum um almannavarnaástandið á Reykjanesskaga.
."„annað hvort í gegnum forgarð helvítis“ eða þá að þau verði „gleypt af hinum skrímslunum í mynd bankastofnana“.