Það er ánægjulegt að fá að hugsa svar við spurningunni um það hvað ég hafi lært. Það er alls ekki sjálfgefið nefnilega að maður gefi sér tíma til að hugsa út í það hvað maður kann í raun og hvaðan það kemur. Og eiginlega vonlaust að velja eitt, nema kannski að það sé svo allt. Eða?
Ég byrja á að hugsa út í skólagönguna sjálfa, nokkuð augljóst að þar er margt sem mér finnst mikilvægt að hafa lært. Mín skólaganga litaðist af ánægju með kennara sem kenndu á bókina en spiluðu líka við okkur fótbolta, sýndu raunverulegan áhuga og báru metnað í brjósti. Svo fyrsta vináttan. Eiga trausta vináttu í fjögurra stráka hópnum sem var bekkurinn í sveitaskólanum mínum og síðar þegar í stærri hópa var komið þurft að læra að koma til móts við ólíka strauma og stefnur.
Sveitastörfin kenndu mér virðingu fyrir lífinu og sáðu fræi um mikilvægi hins smæsta og stærsta, bæði í lífríkinu sjálfu sem og í verkefnum hvers dags. Frá því að rétta heimalning mjólkurpela og í að sitja 16 klukkustundir á dráttarvél á stórum heyskapardegi. Vinnan göfgar jú manninn, sannleikur þar fólginn.
Íþróttirnar styrktu sjálfsmyndina, gáfu útrás fyrir orku sem alla tíð hefur þurft að eiga sér farveg. Þær lyftu sálinni í hæstu hæðir í meðvindi en skelltu á jörðina þegar mótlætið birtist, dans sem var stiginn og mótaði hugmyndir um að líða best í kröftugum hópi fólks sem keppir að sama marki. Ólík hlutverk innan hóps sem ráðast af styrkleika hvers og eins en ef tekst að leiða vel saman verður til galdur sem nær árangri. Leiddi af sér þörf um að finna farveg í starfi byggt á þeim gildum og það leiddi mig inn í lífsstarf með ólíkum hópum á mismunandi stöðum. Gæfan að fá að læra á starf með reynslumiklum eldhugum fullum hugsjóna. Smátt og smátt ná tökum á verkefninu að gefa af sér til ungs fólks á sama hátt og hafa fengið þær gjafir frá áðurnefndum kennurum.
Að lifa og hrærast í lærdómssamfélögum skóla í áratugi kennir svo ótrúlega margt. Viðfangsefni hvers dags eru ólík og gera kröfu um að vera skipulagður og undirbúinn en um leið með aðlögunarfærni og tilbúinn að skipta fyrirvaralítið um gír og áherslur. Horfa á lítil börn þroskast og sækja sér fróðleik allt þar til þau standa keik á útskriftardaginn, svo óralangt frá upphafinu en samt svo fersk enn þá og tilbúin að takast á við heiminn. Vá, hvað ég sakna þeirra daga!
„Erfiðasti lærdómurinn kemur í gegnum áföllin en kennir kannski mest“
Lífið er stærsti lærdómurinn. Fólk sem þú hittir á leiðinni límir saman heiminn þinn á sama tíma og þau eru meðleikendur í þinni mótunarsögu. Eru aðilarnir sem hjálpa þér að læra á lífið og vinna sigrana en líka þau sem verða fyrir því þegar þú gerir mistökin og stara með þér inn í ósigrana. Þau sem treysta þér fyrir að spila fótboltaleikinn, ráða þig í starfið, treysta þér fyrir eldamennskunni á hótelinu sínu eða ákveða að kjósa þig til trúnaðarstarfa.
Erfiðasti lærdómurinn kemur í gegnum áföllin en kennir kannski mest. Þau sitja í beinunum og hríslast um sálina og sinnið á meðan gangverkið vinnur á þeim. Mikilvægt að bera virðingu fyrir þeim og hafa kjark til að leita aðstoðar ef brestir eru að koma í bakið, það má ekki brotna. Sum af annarra völdum en við öðrum verður maður að gangast við að hafa skapað sér sjálfur, hversu erfitt sem það er. Upp og áfram, en draga lærdóm.
Svo er það ástin, í öllum sínum formum. Ekki bara blossi rómantíkurinnar og heitir kossar, heldur líka hitinn í brjóstinu við algleymi fegurðarinnar þegar maður lítur barnið sitt fyrst augum, gleðistraumurinn sem hríslast um í leiknum við barnabörnin en líka sviðinn umlykjandi að sitja við dánarbeð móður og kveðja í hinsta sinn. Ástin felst líka í því að velja næstu þáttaseríu í sjónvarpinu eða að eiga saman rótsterkan kaffibolla og samtal. Helsta gæfan er að elska og vera elskaður. Það kenndi Moulin Rouge bíómyndin okkur.
„Lífið er lærdómssamfélag og hver dagur á sína sögu“
Að velja hvað ég hef lært!? Fyrst skiptir máli að horfa yfir sviðið og skilja að ég á fyrst og síðast öðru fólki að þakka hvað ég lærði. Auðmýkt þarf að vera til staðar svo hægt sé að draga lærdóm af fólki, ættingjum, vinum, fjölskyldu, kennurum og öllum þeim sem hafa verið með mér í ólíkum hópum og liðum. Þeim á ég allt að þakka og helst það að hafa lært hver ég er og hvað ég stend fyrir.
Þau hafa kennt mér það að lífið skilar mestu þegar þú tekur þátt í því af einlægni. Hverjar sem aðstæður eru í einkalífi, vinnunni eða félagsskapnum. Það að vera einlægur krefst þess að vera auðmjúkur gagnvart sínum eigin breyskleika en gerir líka kröfur á að vinna að því að gera betur hvern dag. Það gerir kröfu um að sýna öllu umhverfinu áhuga og koma fram við ólíkar aðstæður og einstaklinga af þeirri virðingu sem ber.
Lífið er lærdómssamfélag og hver dagur á sína sögu. Niðurstaða? Ég hef lært það að einlægur áhugi, auðmýkt og virðing fyrir margbreytileikanum er það sem mótar mig hvern dag, frá fyrsta kaffibolla að kvöldtannburstanum. Og ég held að ég verði bara betri með aldrinum í þessu, svei mér þá.
Athugasemdir