Gasa hefur alltaf notið þess, nú, eða goldið, að vera í þjóðbraut milli Afríku og Asíu, Sýrlands og Egiftalands, Miðjarðarhafsbotns og Arabíuskaga. Þar hefur verið byggð frá árdögum mannkynsins.
Það sanna mikilvægir fornleifafundir í nágrenninu, reyndar fleiri í Ísrael en á svæðum Palestínumanna, einfaldlega af því meira hefur verið grafið á vegum Ísraelsmanna en Palestínumanna; þeir síðarnefndu hafa haft öðru að sinna.
Verslunarstöð frá Egiftalandi
Elstu leifar um eiginlega bæjarbyggð á svæði Gasaborgar eru meira en 5.000 ára gamlar. Íbúarnir á því svæði sem nú kallast Ísrael og Palestína töluðu semískt mál og kölluðust Kanaansmenn en fyrsti bærinn á Gasa virðist hafa byggst sem friðsæl verslunarstöð frá Egiftalandi, Tell es-Sakan. Kanaansmennirnir í nágrenninu virðast ekki síst hafa stundað veiðar en smátt og smátt færðist landbúnaður í aukana.
Tell es-Sakan er nú aðeins tveim kílómetrum norðan við Nuseirat-flóttamannabúðirnar sem ísraelski flugherinn hefur látið sprengjum rigna yfir síðustu daga.
Eftir nokkur hundruð ára byggð í Tell es-Sakan virðist egifski verslunarbærinn hafa verið yfirgefinn og í margar aldir blésu eyðimerkurvindarnir ótruflaðir til sjávar og kaupmannalestir fóru framhjá rústum hans. Sennilega var ástæðan sú að umsvif Egifta færðust norður til þess svæðis þar sem seinna hét Fönikía en nú Líbanon. Íbúar þar voru Kanaansmenn og þar spratt sedrusviðurinn níðsterki sem Egiftar notuðu meðal annars í hlunna undir þá tröllauknu steina sem þeir hlóðu píramídana úr.
Blómlegur landbúnaður á Gasa
Um árið 2500 FT byggðist Tell es-Sakan aftur og nú voru það Kanaansmenn sem bjuggu þar. Borgin varð miðstöð í býsna blómlegu landbúnaðarhéraði þar umhverfis (já! í alvöru!) en hefur áreiðanlega líka verið þó nokkur verslunarmiðstöð á krossgötum. Velsæld virðist hafa ríkt í borginni þá. Hveiti, bygg, ólífur, vínber og grænmeti, allt var þetta ræktað í námunda við borgina, fiskur var veiddur út af ströndinni og skelfiski safnað í fjörunni, hjarðir af nautgripum, kindum og geitum gengu um sveitir.
Athyglisvert að Kanaansmennirnir í Tell es-Sakan töldu sig þurfa að víggirða vel borg sína og voru borgarmúrarnir úr sólþurrkuðum leirsteinum allt að átta metra þykkir.
Ekki hafa þó fundist merki um stríðsátök eða umsátur óvina við borgina en vera má að slíkt uppgötvaðist ef meira væri grafið. Svo mikið er víst að eftir að Kanaansmenn höfðu búið þarna í fimm hundruð ár, þá var borgin skyndilega yfirgefin og hafa menn enga skýringu fundið á því. Ekki er vitað til að nein stórslys hafi þá orðið í náttúrunni sem hefðu átt að kippa grundvelli undan mannabyggð á svo mikilvægum og fjölförnum slóðum.
Hrun á Gasa, ekki í fyrsta sinn
En eitthvað hefur þó gerst því verslun við Egiftaland virðist hafa lagst nálega af og reyndar virðist bæjum og þorpum í bæði hinum núverandi Palestínu og Ísrael hafa hnignað mjög verulega á þessu bronsaldarskeiði – af meira og minna ókunnum ástæðum.
Þegar aftur fór að rísa byggð norðan til á Gasa var um að ræða lítil hirðingjaþorp en ekki öflugan bæ eða borg eins og Tell es-Sakan. Um 1800 FT var hirðingjabyggðin orðin þokkaleg blómleg og verslun milli Egiftalands og Sýrlands um Gasa komin nálægt fyrra horfi.
Um árið 1500 FT virðist Gasa svo hafa verið síðasta vígi hinnar dularfullu Hyksos-þjóðar sem þá hafði ráðið neðri (nyrðri) hluta Egiftalands í um hundrað ár en harla fátt er vitað um. Margir fræðimenn efast reyndar um að Hyksos hafi verið sérstök þjóð, heldur frekar eins konar bandalag eða jafnvel einfaldlega herflokkur í upphafi. Svo mikið virðist þó víst að Hyksos hafi komið úr vestri og náð yfirráðum yfir neðri hluta Nílar og óshólmanna.
Hinir dularfullu Hyksos, voru þeir Gyðingar?
Hyksos bjuggu svo í vellystingum í Egiftalandi þessa öld en Forn-Egiftum (sem töluðu afróasíska tungu) gramdist ósegjanlega að þurfa að lúta yfirráðum útlendinga.
Sagnaritarinn Jósefus – Gyðingur sem gerðist Rómverji og skrifaði undir lok fyrstu aldar ET – hélt því fram á einum stað að Hyksos hefðu verið Gyðingar en fræðimenn eru ekki á því að það eigi sér nokkra stoð. Í fyrsta lagi er mjög vafasamt að svo snemma sé yfirleitt hægt að tala um nokkra sérstaka Gyðingaþjóð og í öðru lagi benda líkur loks til þess að uppruni Hyksos hafi verið töluvert norðar eða í Fönikíu.
Jósefus nefnir reyndar að aðrir telji að Hyksos hafi verið Arabar en það er líka ærið vafasamt og fræðimenn láta sér nú flestir duga að kalla Hyksos semitíska og/eða Kanaansmenn.
Faraó ákveður að gereyða óvinum sínum
Svo mikið er víst að eftir að Amosis, ættarlaukur konungsættarinnar í efra (syðra) Egiftalandi, hratt Hyksos á braut, þá hugðist hann láta kné fylgja kviði og útrýma Hyksos algerlega. En leifar Hyksos bjuggu þá um sig í vel vörðu virki á Gasa, en þar hét Sharuhen. Þar héldu þeir út í þrjú ár (ein heimild segir sex). Að her Amosisar hafi setið um virkið svo lengi sýnir hvílíkt kapp hann lagði á að gereyða Hyksos því í þá daga stóðu herferðir yfirleitt aldrei lengur en nokkra mánuði.
Að lokum náði Amosis virkinu og til er áletrun frænda hans sem kveðst hafa fengið tvær konur og einn þræl frá Sharuhen og auk þess heilmikið gull sem herfang „fyrir það hugrekki sem ég sýndi“.
Engar heimildir eru því miður til um hlutskipti verjendanna í virkinu.
Einhver hluti þeirra komst undan og flúði til Sýrlands en þangað elti Amosis þá. Og nú fór í hönd einn af helstu stórveldistímum í langri sögu Egiftalands.
Hvar var Sharuhen-virkið?
Fræðimenn eru ekki alveg á eitt sáttir um hvar Sharuhen var niðurkomið. Hugsanlega var það inni á núverandi Gasasvæði, rétt hjá Tell es-Sakan og Nureirat-flóttamannabúðunum. Eða það var 20 kílómetrum sunnar á lágri hæð skammt frá hinum núverandi bæ Ein HaBesor í Ísrael. Sá bær er innan við 8 kílómetra frá landamærum Gasa og eldsnemma í morgunsárið 7. október réðust Hamasmenn á bæinn.
Íbúarnir þar voru hins vegar reiðubúnir. Um 70 manna varnarlið hafði staðið vörð alla nóttina, búið nokkrum vélbyssum og skammbyssum. Þessu liði tókst að hrekja Hamasmennina á flótta. Einn varnarliða særðist og þegar ekið var með hann í snarhasti á sjúkrahús eltu Hamasmenn á mótorhjólum og skutu á bílinn.
Bíllinn komst þó leiðar sinnar svo enginn féll í þessari nýju árás á Sharuhen – ef virkið var þá þar en ekki inni á Gasa-svæðinu sjálfu.
Þetta viðbragðsskjóta varnarlið í Ein HaBesor var ekki að bíða eftir hryðjuverkaárás frá Gasa þótt svona hittist á. Heldur hafði því verið ætlað að kveða niður bylgju bílaþjófnaða sem gengið hafði yfir Ein HaBesor og nágrannaþorpið næstu daga á undan.
Gos í Heklu olli hamförum um veröld víða
En víkjum aftur til bronsaldar. Gasa var nú vel og tryggilega í höndum Egifta í 300 ár eða til á að giska 1200. Þá varð dularfullt áfall í mestallri menningu Mið-Austurlanda, landbúnaður hrundi, borgir fóru í eyði, heilu þjóðirnar lögðust í flakk. Sjálfsagt hafa orsakir fyrir þessu áfalli verið ýmsar en margir vísindamenn telja að gríðarlegt gos í Heklu um þetta leyti hafi haft sitt að segja.
„Sjálfsagt hafa orsakir fyrir þessu hruni á Gasa verið ýmsar en gríðarlegt gos í Heklu hafði eflaust sitt að segja.“
Gosið er kallað „Hekla 3“ af jarðfræðingum og fjallið þeytti svo mikilli gosösku út í andrúmsloftið að hitastig á norðurhveli jarðar, þar á meðal og ekki síst við Miðjarðarhaf, kólnaði verulega í mörg ár á eftir.
Ein af afleiðingum hrunsins var að snemma á tólftu öld FT gerðu hinar mjög svo dularfullu „sæþjóðir“ árás á Egiftaland og raunar fleiri lönd og héruð við austanvert Miðjarðarhaf. Mjög er málum blandið hverjar sæþjóðirnar voru en í bili hallast flestir að því að þær hafi verið „frumstæðir“ hópar frá Evrópu, ekki síst Ítalíuskaga og Grikklandi, sem hafi flúið versnandi lífsskilyrði í kjölfar fyrrnefndra hamfara og leitað inn á hin auðugri og rótgrónari svæði við Miðjarðarhafsbotn.
En þau voru heldur ekki upp á sitt besta eftir hrunið.
Sigrast á sæþjóðunum: Palestína verður til
Að lokum tókst Ramesses 3. Egiftalandsfaraó að sigrast á sæþjóðunum í gríðarlegri orrustu í óshólmum Nílar um 1175 FT og þá er svo að sjá sem hann hafi ákveðið að planta einni hinni sigruðu sæþjóða niður á Gasa. Og þar fékk sú þjóð heimaland.
Fólkið sem fyrir var – hirðingjar af ætt Kanaansmanna – var eflaust ekki spurt frekar bæði fyrr og síðar.
En hér var komin sú þjóð sem brátt skaut svo djúpum rótum á Gasa og nágrenni að allt svæðið er síðan kennt við hana: Palestína.
Því þetta voru þeir frægu Filistear.
Athugasemdir (1)