Útlendingastofnun hefur staðfest að brottvísun írösku Hussein-fjölskyldunnar, sem til stóð að framkvæma í næstu viku, hafi verið frestað. Er það gert í samræmi við úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu.
„Það eina sem við viljum er að fá að búa á Íslandi, vinna hér og læra eins og venjulegt fólk því við elskum þetta land,“ segir Yasameen Hussein við Heimildina. Hér hafi þau eignast marga góða vini sem séu allir af vilja gerðir að styðja þau og hjálpa. Yasameen og systir hennar eru í námi í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. En endalausar áhyggjur af því sem gæti verið í vændum hefur tekið sinn toll af þeim öllum. „Við erum auðvitað að reyna að einbeita okkur að náminu en það hefur verið erfitt.“
Þetta er í annað sinn sem vísa á fjölskyldunni úr landi. Fyrri brottvísunin var framkvæmd með valdi í fyrra og vakti það reiði margra er lögreglumenn tóku Hussein Hussein, sem er fatlaður og notar hjólastól, úr stólnum og komu honum fyrir í bíl sem ekki var til þess búinn að flytja fólk í hjólastól. Fjölskyldan, sem telur auk Husseins tvær systur hans, bróður og móður, var að því búnu skipað um borð í flugvél og send í fylgd lögreglumanna til Grikklands.
Fjölskyldan kom fyrst til Íslands í leit að vernd fyrir um þremur árum. En þar sem þau höfðu áður fengið vernd í Grikklandi ákváðu íslensk stjórnvöld að synja þeim um vernd hér og vísa af landi brott. Í byrjun nóvember beið lögreglan eftir systrunum er þær komu heim úr skólanum. Og síðan hófst atburðarás sem fjölskyldan hefur lýst sem hræðilegri.
Fjölskyldan kom hins vegar aftur til Íslands eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur felldi ákvörðun stjórnvalda um brottvísun til Grikklands úr gildi. Þá hafði kærunefnd útlendingamála gert Útlendingastofnun að taka umsókn um vernd aftur til meðferðar.
Ríkið áfrýjaði niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar sem hefur enn ekki kveðið upp sinn dóm. Hins vegar komst kærunefndin nýverið að þeirri niðurstöðu, að fjölskyldan skuli yfirgefa landið – enn einu sinni.
Til stóð að þau færu 7. nóvember en Claudia Wilson, lögmaður fjölskyldunnar, kærði brottvísunina fyrir þeirra hönd til Mannréttindadómstóls Evrópu. Samkvæmt bráðabirgðaúrskurði dómstólsins, sem birtur var fyrr í vikunni, skulu yfirvöld fresta brottflutningi fjölskyldunnar til 21. nóvember sem nú hefur verið fallist á.
Dómstóllinn krefur jafnframt stjórnvöld um svör varðandi hvernig eigi að standa að brottflutningi Husseins og hvað verði gert til að tryggja að hann fái viðeigandi vistarverur og heilbrigðisþjónustu í Grikklandi.
Spurð um næstu skref segir Claudia í samtali við Heimildina að hún vænti þess að fá tækifæri til að bregðast við svörum íslenska ríkisins til Mannréttindadómstólsins áður en hann svo kveður upp endanlegan úrskurð um hvort framlengja skuli frest á flutningi fjölskyldunnar til Grikklands.
Athugasemdir