„Þetta eru tíðindi, að þau séu að leita til okkar og vilji fara í samningaviðræður um að koma inn í þessa þjónustu. Það er allavega mjög jákvætt,“ segir Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, um að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) vilji semja við borgina um aðkomu að fjölþættri þjónustu fyrir heimilislaust fólk.
Samkvæmt skýrslu SSH um samstarf í málefnum heimilislausra sem birt var í marsmánuði búa 76 einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu, utan Reykjavíkur, við heimilisleysi. Þar af eru 20 konur og 56 karlar.
Fjöldi kvenna vanmetinn
Rannsóknir sem unnar hafa verið á málefnasviðinu sýna að fjöldi kvenna sem glímir við heimilisleysi er oftar en ekki vanmetinn við kortlagningu á heimilisleysi þar sem um dulinn hóp er að ræða, samanborið við karla. Í skýrslunni kemur fram að það geti kallað á sértækar aðgerðir til að hafa uppi á heimilislausum konum til að átta sig á fjölda þeirra og högum.
Hingað til hefur Reykjavík borið hitann og þungann af þjónustu við heimilislaust fólk og bendir Rannveig á að hvorki nágrannasveitarfélögin né ríkið séu með stefnu eða áætlanir um slíka þjónustu. „Við höfum áhyggjur af því,“ segir hún en fagnar frumkvæði SSH.
Velferðarsvið samþykkti á fundi sínum í gær beiðni SSH um að semja um aðkomu að þjónustu Vettvangs- og ráðgjafarteymis Reykjavíkurborgar og mögulegri vetraropnun sérstaks neyðarskýlis.
Öll útfærsla óákveðin
Vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkurborgar (VoR-teymið) er þverfaglegt hreyfanlegt teymi sem veitir einstaklingum með miklar og flóknar þjónustuþarfir ráðgjöf og stuðning. VoR-teymið starfar meðal annars með fólki í neyðarskýlum, smáhúsum og í íbúðakjörnum. Teymið veitir einnig einstaklingum í sjálfstæðri búsetu stuðning og ráðgjöf í anda hugmyndafræðinnar um Húsnæði fyrst.
Málið er enn á byrjunarstigi og öll útfærsla óákveðin en fyrsti fundurinn vegna samningaviðræðnanna er í næstu viku. Meðal annars þarf að skilgreina þá þjónustu sem VoR-teymið getur veitt eða óskað er eftir.
Milljarður á þessu ári
Rannveig segir að af hálfu Reykjavíkurborgar sé gerð krafa um að kostnaðarskipting við rekstur VoR-teymisins verði jöfn á milli sveitarfélaga og í samræmi við íbúahlutfall, eins og að jafnaði er gert í samvinnuverkefnum SSH. Kostnaðurinn sem miðað er við verði að endurspegla raunkostnað við þjónustu í málaflokknum.
„Gistiskýlin eru yfirfull“
„Þetta er dýr þjónusta. Á þessu ári hefur Reykjavíkurborg varið um milljarði í þennan málaflokk. Við viljum bara leggja áherslu á eðlilega kostnaðarskiptingu,“ segir Rannveig en ýmis sveitarfélög eru með samning við borgina um að greiða svokallað gistináttagjald fyrir fólk sem er með lögheimili utan Reykjavíkur en nýti sér gistiskýlin.
Þá segir hún stöðuna í málaflokknum erfiða. „Gistiskýlin eru yfirfull. Við viljum auðvitað sjá fólk í viðunandi búsetu. Gistiskýlin eru ekki úrræði sem hentar nema í neyð,“ segir hún.
Athugasemdir