Ég er hryggur. Ég blygðast mín fyrir lágkúru stjórnvalda. Saman við þessar tilfinningar blandast reiði. Ég tel að það sé réttlát reiði.
Bræði mín gerir það að verkum að ég hef ekki eirð í mér til þess að leita uppi forsögu málsins í fréttamiðlum og skrifa þetta því eftir kviku minni.
Í fyrra (eða fyrr á þessu ári) vísaði Útlendingastofnun úr landi lömuðum flóttamanni ásamt bróður, móður og tveimur systrum sem eru hér í námi. Ákvörðunin var kærð. Fjölskyldan var samt flutt úr landi. Dómur féll, brottvísunin var ólögleg, fólkið fékk að koma aftur. Útlendingastofnun var ósátt, kærði úrskurðinn og krækti sér í heimild til þess að færa fólkið úr landi á nýjan leik. Til Grykklands þar sem hinn lamafði á að fá aðhlynningu en fékk ekki áður og óvíst að hann fái nú. Systur mannsins verða að hætta námi og fara með, móðirin líka og bróðirinn. Þetta er ekki bara sorglegt, þetta er ömurlegt. Þetta er lágkúra.
Ungur maður, flóttamaður frá Gana, var fluttur úr landi fyrir skömmu. Hann var í vinnu. Hann var vinsæll í starfi sínu fyrir íþróttafélag sem vildi fyrir alla muni hafa hann áfram svo að hann sótti um ríkisborgararétt. En. Háttvirt alþingi afgreiðir slíkar umsóknir bara í desember og Útlendingastofnun sá enga ástæðu til þess að bíða eftir því og sendi manninn úr landi í fylgd tveggja lögreglumanna. Þetta er andleg flatneskja, önnur lágkúra til í umgengni stjórnvalda við þá sem einskis mega sín.
Nú veit ég ekki hversu margir hafa séð jurt sem drýpur stilk og laufum vegna þurrka og bíður þess eins að deyja verði ekkert að gert. Þar af leiðandi veit ég ekki hversu margir hafa orðið fyrir þeirri dásemdar reynslu að sjá jurt reisa sig eftir að hafa fengið lífsvatn.
Því segi ég þetta: Ríkisvaldið er að veslast upp. Það er með uppdráttarsýki. Það lekur úr því lífið, meðal annars vegna þessara tveggja mála og það er svo langt leitt að það hefur ekki mátt í dauðateygjum til þess að hefja sig upp úr lágkúrunni.
En þremillinn hafi það: Ríkisstjórnin ætti að geta það, einstaka ráðherra, þingmenn eða þingheimur allur; þar eru völdin; það er hægt að samþykkja bráðabirgðalög eða þingsályktunartillögu og koma í veg fyrir brottflutning á lamaða manninum og fjölskyldu hans og önnur um að þingnefnd um ríkisborgararétt hittist á fundi sem fyrst og veiti starfsmanni íþróttafélagsins ríkisborgararétt. Slík gjörð yrði næring fyrir sölnaða siðferðisvitund ráðamanna og mundi bjarga lífi margra.
En
Tíminn er naumur. Lífið lekur út. Þess vegna þarf að gera þetta nú þegar. Ekki hinn daginn.
En af hverju snýrð þú þér ekki til félagsmálaráðherrans, sem hefur aðkomu að þessum málaflokki- nú eða forsætisráðherrans sem í upphafi lýsti sínu hlutverki í ríkisstjórninni eitthvað á þá leið að hún væri í hlutverki kennarans sem fylgdist með hinum ráðherrunum, liti yfir öxl þeirra??