Jólabókaflóðið er menningarfyrirbæri sem ljær útgáfu og bókalífi á Íslandi sérstöðu. Undirrituð hefur oftar en einu sinni fengið fyrirspurnir utan úr heimi og verið beðin um að lýsa jólabókaflóðinu fyrir blaðamanni í Bandaríkjunum eða Þýskalandi – eða Fjarskanistan.
Í eyrum einhvers búsettum í öðru landi hljómar jólabókaflóðið bæði exótískt og rómantískt, um leið og það er í anda jólasveinsins eða Love Actually.
Hefðin býr í gjörningnum að gefa bók í jólagjöf, samtvinnuð hefðinni að höfundar flækist á milli vinnustaða til að lesa upp sögur sínar fyrir fólk, í baðstofustemningu, og spjalli landans um bækur í jólaboðum. Bara orðið jólabókaflóð birtist manni með rauðri slaufu og logandi kertum, eins og jólakrans.
Bók fyrir sextugan herramann
Eigið þið bók sem passar fyrir sextugan herramann? – var setning sem lifði í minni starfsfólks í gömlu bókabúð Máls og menningar þegar undirrituð starfaði þar í jólabókaflóðum á yngri árum.
Sennilega hafði konan sem spurði einnig komið við í herrafataverslun og beðið um passlega peysu fyrir sama herramann. Sá eða sú sem fær ekki bók í jólagjöf fer í jólaköttinn. Í stórmörkuðum hafa viðlíka tilboð verið auglýst: Birkireykt hangikjötslæri og nýja bókin hans Arnaldar í pakka!
Síðustu vikurnar fyrir jól stafla stórmarkaðirnir söluhæstu bókunum á borð innan um Nóa og Síríus konfekt og jólaöl. Þar má oft kaupa bækur ódýrari en bæði í bókabúðum og á lagerum forlaganna en jafnframt verður að hafa í huga að bókabúðirnar standa vaktina allan ársins hring í bóksölu; þar býr sérþekkingin og að sama skapi er þar staðinn vörður um bókamenninguna.
Menningu sem er í sjálfu sér dýrmæti. Sérstaða. Hefð. Já, allt þetta og meira til, á svo margslunginn hátt. Hún býr að sama skapi í umræðunni um bókmenntir. Umræðu sem dýpkar, ögrar, bætir við og þróar hugmyndaauðgi samfélagsins – auk þess að hafa mátt til að smjúga inn á grá svæði og inn í blæbrigði blæbrigðanna, nokkuð sem er örðugt með öðru móti.
Þó hefur bókmenntaumræða, að ýmsu leyti, ekki verið eins djúp og fjölbreytt og áður var í prentuðum fjölmiðlum. En umræða um bækur er álíka mikilvæg og bókin sjálf, í umræðunni lifnar verkið við.
Samfélagsleg þátttaka nauðsynleg
Síðastliðið vor var haldið málþing undir yfirskriftinni Bókmenntir á tímamótum: Áskoranir og tækifæri á vegum Rithöfundasambands Íslands, Félags íslenskra bókaútgefenda og menningar- og viðskiptaráðuneytisins sem boðaði til þess.
Þar voru skeggræddar breytingar á bókamarkaði, bæði hér heima og erlendis, og margþætt áhrif þeirra á þá sem gefa út, selja, skrifa og lesa bækur; nú á tímum áskriftastreymis, tæknibreytinga og breyttra neysluvenja bóka- og menningarneytenda.
Á málþinginu bar á góma að bókmenntirnar þurfa á fjölmiðlum að halda, til að umræðan dafni og þær berist sem víðast. Oft má jú heyra ákall úr útgáfugeiranum eftir margþættari faglegri umfjöllun um bækur.
Þá gat undirrituð ekki stillt sig um að benda á að dýrt er að halda úti vettvangi í fjölmiðli þar sem bókmenntaumræða er bæði fagleg og frjó – en að sama skapi er slíkur vettvangur dýrmætur – og í dag langt í frá sjálfgefinn – fyrir bókaheiminn og samfélagið. Ef slíkur vettvangur á að geta þrifist almennilega og staðið undir nafni, á fleiri stöðum en hjá RÚV, þá þarfnast hann samfélagslegrar þátttöku og stuðnings, svo hann geti gegnt hlutverki sínu sem best.
Með síðasta tölublaði Heimildarinnar fylgdi fyrsta bókablaðið í ár í umsjón Ölmu Mjallar Ólafsdóttur, það fyrsta af sex blöðum, þar sem fjallað verður um bækurnar í jólabókaflóðinu. Bókablaðið er til þess hugsað að efla bókamenningu og umræðu um bækur, bæði faglega og á samfélagslegum nótum. Vonandi á það eftir að sprikla í jólabókaflóðinu.
Athugasemdir (2)