Dauðinn
Þessi bók er eins og loforð um hólmgöngu sem fer aldrei almennilega fram. Dauðinn er enn í skugganum, þótt hann sé í titlinum. En í Mývatnssveit lifnar bókin við.
Blaðamaður liggur slasaður og óvinnufær og fer að hugleiða endalokin. Fer að lesa sér til og dettur niður á hugleiðingar þýska heimspekingsins Michaels Theunissens um dauðann. Maður fer að skynja hálfgerða esseyjubók blaðamanns blandaða viðtölum og heimildavinnu, sem hljómar eins og áhugavert form – og kveikjan, þessi þýski heimspekingur, virkar áhugaverður, segir „að í hans eigin dauða upplifi hann einnig dauða annarra og í dauða annarra upplifi hann eigin dauða“.
En svo er eins og hann týni þessum þræði Theunissens og fari á öllu meinlausari slóðir. Fjöldi viðmælenda og það hve stutt viðtölin eru reynist líka vandamál, þau eru flest of stutt til að komast virkilega á dýptina og eru endurtekningasöm, dauðinn er töluvert fjölbreyttari en hann birtist okkur hér.
Aðallega fannst mér samt vanta meiri Dylan Thomas í bókina. Þið þekkið þessar línur vonandi, um að ganga ekki auðsveipur inn í nóttina löngu og „berjast, berjast gegn dauða ljóssins“ – já, eða Tolstoj, sem skrifaði um Dauða Ivan Ilyich, magnaða bók um hina löngu angistarnótt sálarinnar andspænis dauðanum, eins og hún birtist í einu ákveðnu dauðastríði.
„Dauðinn er töluvert fjölbreyttari en hann birtist okkur hér“
Nú er ég ekki bókstaflega að biðja um Tolstoj eða Thomas, en ég sakna þess að þessi lykilþemu í glímunni við dauðann séu jafn lítið áberandi og raun ber vitni, þessi angistarnótt sálarinnar gagnvart endalokunum, þessi örvæntingarfulla barátta gegn honum. Öll eftirsjáin, öll sorgin.
En í þessari bók birtist okkur fyrst og fremst endalaust æðruleysi Íslendinga gagnvart dauðanum. Hreinlega bugandi æðruleysi þegar á líður og viðtölin fara að enduróma hvert annað og mig fer að gruna að þetta sé oftar en ekki æðruleysi sem varnarviðbrögð, ný tegund af þagnarhjúp um dauðann. Ekki fara í kvikuna, tala frekar í kringum hann.
Æðruleysi getur vissulega verið einlægt, margir fara saddir lífdaga og hafa náð sátt við guð og menn – en sem almenn regla þegar fólk stendur andspænis dauðanum, nei, þá eru sorgin og dauðabeygurinn ekki síður algeng – og satt best að segja mun áhugaverðara viðfangsefni. Æðruleysi er sjaldnast sérlega áhugavert aflestrar.
Þá eru prestar alltof fyrirferðarmiklir í viðmælendahópnum – og það án þess að þeir líti nokkru sinni af alvöru inn á við þegar kemur að minnkandi vægi trúarinnar í samtímanum. Og í bókina vantar alveg þá spurningu hvort það sé ekki dálítið skakkt að prestar hafi enn þetta stórt hlutverk þegar kemur að dauðanum hjá þjóð sem verður sífellt trúlausari?
Langbestu kaflar bókarinnar fjalla hins vegar ekki beinlínis um dauðann. Kaflar um æsku höfundar í Mývatnssveit, afskaplega fornri Mývatnssveit, um eldsumbrot og háska Kröflueldanna. Þessir kaflar eiga þó á einkennilegan hátt vel heima í bók um dauðann, því í dauðanum speglast upphafið og margir velta þá fyrir sér hvar þeir hafi beygt af leið eða komist á réttu brautina – og það er heil bók þarna undirliggjandi sem væri gaman að lesa. En endalokin sem þessi kafli á að spegla nær sjaldnast raunverulegu flugi, til þess er æðruleysið og prestafjöldinn of yfirþyrmandi.
„Það var erfitt að takast á við dauðann með sorgina í felum,“ stendur í miðri bók – og það reynast forspá orð, dauðinn nær merkilega vel að fela sig á þessum síðum þótt hann sé í titlinum.
Athugasemdir