„Ég held að það væri meiri óvissa ef formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins væri ekki í ríkisstjórn,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra um nýtilkynnt sætaskipti Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra.
Þau eru tilkomin vegna afsagnar Bjarna Benediktssonar síðastliðinn þriðjudag. Hann sagði af sér eftir að Umboðsmaður Alþingis komst að niðurstöðu um að Bjarna hefði brostið hæfi við sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka en faðir Bjarna var á meðal kaupenda í lokuðu útboði.
Er Bjarni að taka fulla ábyrgð þegar hann fer bara svona úr einum stól í annan?
„Hver flokkur skipar sínu ráðherraliði auðvitað eins og það er,“ segir Sigurður Ingi sem ræddi við Heimildina eftir blaðamannafund ríkisstjórnarinnar í morgun. „Mér finnst hann axla ábyrgð á því áliti sem þarna var og eins og hann sagði þarna áðan að fría ráðuneytið frá þeirri umræðu enda er hann þar með að axla ábyrgð á því.“
„Í pólitík er aldrei neitt sjálfgefið“
Höfðuð þið ekkert um þetta að segja, var það bara Sjálfstæðisflokkurinn sem gat tekið þessa ákvörðun?
„Í pólitík er aldrei neitt sjálfgefið,“ segir Sigurður Ingi. „Þegar það verða stórar vendingar þá þarf að sjálfsögðu að ræða þær og það höfum við gert.“
Hvenær fóruð þið fyrst að heyra af þessari hugmynd, að þau myndu skipta um sæti?
„Ég man það nú ekki. Við ræðum margt. Það er hluti af pólitík að vera undirbúinn og þar af leiðandi ólíkar sviðsmyndir, en nákvæmlega hvenær, ég þori ekki að fullyrða það.“
Það var talað um stöðugleika hérna áðan en maður spyr sig samt hvort það leiði ekki af sér meiri óstöðugleika að vera áfram með mann sem er nýbúinn að segja af sér áfram í ríkisstjórn?
„Ég lít ekki svo á. Ég held að það væri meiri óvissa ef formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins væri ekki í ríkisstjórn.“
Hafi ekki hundsað vilja þjóðarinnar
Er þitt fólk í Framsóknarflokknum almennt sátt við þessa niðurstöðu?
„Já.“
Maskína birti í gær niðurstöður úr könnun sem benti til þess að 70% Íslendinga vildu að Bjarni hætti alfarið sem ráðherra. Spurður hvort ríkisstjórnin sé að hundsa vilja þjóðarinnar með því að halda Bjarna áfram í bátnum segir Sigurður Ingi:
„Skoðanakannanir eru einhverjar punktmælingar á áliti fólks. Kosningar eru hins vegar mælingin á traust stjórnmálamanna og það verður þá að koma í ljós.“
Athugasemdir (1)