Alls segjast 71 prósent aðspurðra í nýrri könnun Maskínu að þeir vilji að Bjarni Benediktsson hætti alfarið sem ráðherra í kjölfar afsagnar hans sem fjármála- og efnahagsráðherra á þriðjudag. Einungis 13 prósent telja að hann eigi að færa sig til innan stjórnarráðsins og taka við öðru ráðuneyti.
Það kemur lítil á óvart að stólaskipti Bjarna njóta mest stuðnings á meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins, en 43 prósent þeirra vilja sjá hann í öðru ráðuneytin á meðan að tæpur fjórðungur, 24 prósent, telja að hann eigi að hætta alveg í ríkisstjórninni. Einungis 12,7 prósent kjósenda flokksins sem Bjarni hefur leitt frá árinu 2009 telja að hann eigi að draga afsögn sína til baka og halda áfram sem fjármála- og efnahagsráðherra. Kjósendur annarra flokka eru að miklum meirihluta á sama máli: Bjarni á að hætta sem ráðherra.
Meirihluti flokksmanna segja rétt hjá Bjarna að segja af sér
Maskína spurði líka hvort fólk væri sammála ákvörðun Bjarna um að segja af sér embætti í kjölfar þess að umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði verið vanhæfur til að taka ákvörðun um að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka til félags í eigu föður síns, Benedikts Sveinssonar.
Niðurstaðan þar var afgerandi, 80 prósent aðspurðra eru sammála ákvörðun Bjarna um að segja af sér. Einungis sex prósent sögðust vera ósammála henni en 14 prósent höfðu ekki skoðun á ákvörðuninni.
Meirihluti kjósenda allra flokka, líka Sjálfstæðisflokksins, er á þeirri skoðun að rétt hafi verið hjá Bjarna að segja af sér. Ekki kemur mikið á óvart að andstaðan við þá ákvörðun var mest innan Sjálfstæðisflokksins, þar sem 24 prósent sögðust ósammála því að Bjarni hefði átt að segja af sér. Stuðningur við afsögn hans er afgerandi á meðal kjósenda hinna stjórnarflokkanna, en 79 prósent kjósenda Framsóknarflokks og 77 prósent kjósenda Vinstri grænna eru sammála því að Bjarni hafi átt að segja af sér.
Enginn stendur upp úr sem skýr arftaki
Mikið hefur verið skrafað um þann ráðherrakapal sem gæti farið af stað eftir afsögn Bjarna og spáð í spilin um hver taki við því ráðherraembætti sem hann hefur meira og minna gegnt í rúman áratug. Hvernig sá kapall verður lagður verður væntanlega kynnt á blaðamannafundi sem búið er að boða klukkan 11 á morgun, laugardag.
Í könnun Maskínu kemur fram að enginn núverandi þingmanna stjórnarflokkanna nýtur afgerandi stuðnings til að taka við lyklunum að fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Flestir, alls tólf prósent aðspurðra, nefndu Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins, sem þann kandídat sem þeim hugnast best. Skammt á hæla hennar komu Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem voru bæði nefnd af níu prósent svarenda. Einungis tvö prósent nefndu nafn Bjarna sem svar við þessari spurningu.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu. Hún fór fram daganna 12. til 13. október og svarendur voru alls 916 talsins.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra seldi föður sínum hlut
í ríkisbanka.
Í nágrannalöndunum væri stjórnmálaferli hans þess vegna lokið.
Þar vilja stjórnmálaflokkarnir ekki hafa slíka menn í forsvari.
"Ef þetta er fjármálaráðherrann þeirra, hvernig eru þá hinir ?"
Bjarni Ben. hagar sér eins og óuppalinn dekurkrakki í nammibúð
*************************************************************************