3.118 brotaþolar sem leituðu til Stígamóta frá árinu 2013 til 2021 höfðu verið beittir ofbeldi af 4.968 ofbeldismönnum. Í mörgum tilvikum var því um fleiri en einn ofbeldismann að ræða.
Aðeins 522 af þessum mönnum voru kærðir til lögreglu og 145 þeirra voru ákærðir. 90 þessara 145 voru dæmdir fyrir brot sín, þar af fengu 28 skilorðsbundinn dóm og 62 fangelsisdóm.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Stígamóta um ofbeldismenn á íslandi. Ráðstefna um sama efni fór af stað í morgun.
„Kynbundið og kynferðislegt ofbeldi verður ekki upprætt fyrr en gerendur hætta að beita ofbeldi,“ segir Drífa Snædal, talskona Stígamóta í skýrslunni.
Hún segir að á undanförnum árum hafi verið lögð áhersla á að aðstoða brotaþola ofbeldis.
„Við erum orðin töluvert flink í því eftir áratuga reynslu. Það er líka gott og gilt en er ekki leiðin til að koma í veg fyrir ofbeldi,“ segir Drífa.
Mikilvægt að beina kastljósinu að gerendum
Minna er vitað um gerendur en þolendur og telur Drífa tíma til kominn að beina kastljósinu að þeim til þess að skilja hvaða menn um ræðir og hvers vegna þeir beita ofbeldinu.
„Þannig og bara þannig er hægt að sveigja samfélagslegu viðmiðin í þá átt að það sé ekki ásættanlegt að beita ofbeldi; að uppræta kvenfyrirlitningu og nauðgunarmenningu,“ segir Drífa.
Skýrsla Stígamóta er byggð á svörum frá skjólstæðingum Stígamóta um þá sem hafa beitt ofbeldinu.
Þar kemur fram að meirihluti ofbeldismannanna hafi verið tengdir þolendunum fjölskyldu- eða vinaböndum. Þá séu flestir gerendurnir íslenskir karlmenn og yfir helmingur ofbeldismannanna var á aldrinum 18 til 39 ára þegar þeir beittu brotaþola kynferðisofbeldi.
Ofbeldismennirnir gerðu gjarnan eitthvað til þess að undirbúa eða viðhalda kynferðisofbeldinu sem þeir beittu.
„Um 43% ofbeldismanna unnu sér inn traust brotaþola og um 32% þeirra byggði upp tilfinningaleg tengsl,“ segir í skýrslu Stígamóta.
Væri óskandi að ekki þyrfti að halda slíkan viðburð
Guðni Th. Jóhannesson forseti talaði í upphafi ráðstefnunnar í morgun. Hann sagðist kjósa að ekki þyrfti að boða til viðburðar af þessu tagi. „En það væri óskhyggja,“ sagði Guðni. „Því til eru ofbeldismenn.“
En um þessa menn vantar gögn og Stígamót kalla eftir frekari rannsóknum.
„Skortur á traustum og áreiðanlegum upplýsingum um ofbeldi takmarkar getu okkar til að koma í veg fyrir og draga úr ofbeldi á áhrifaríkan hátt,“ segir í skýrslu Stígamóta. „Það er nauðsynlegt að setja þá sem beita ofbeldi í brennidepil í viðleitni okkar til að koma í veg fyrir og draga úr kynbundnu- og kynferðisofbeldi.“
Athugasemdir