Miðstjórn Rafiðnaðarsamband Íslands krefst þess að Pálmar Óli Magnússon, stjórnarformaður Birtu lífeyrissjóðs, víki þegar úr stjórn sjóðsins. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt er á vef Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) í dag, undir fyrirsögninni „Miðstjórn RSÍ krefst viðbragða“.
„Seta Pálmars Óla í stjórn og sem stjórnarformaður Birtu lífeyrissjóðs getur haft þær afleiðingar að skaða ímynd Birtu“
Pálmar hefur frá árinu 2018 setið í stjórn Birtu, sem fulltrúi Samtaka atvinnulífsins, sem tilnefna fulltrúa í sjóðinn ásamt fulltrúum launþegahreyfinga sjóðsfélaga. Félagar í Rafiðnaðarsambandinu er fjölmennasti einstaki hópur launþegahreyfingar sem aðild eiga að sjóðnum.
Eins og Heimildin hefur sagt frá er sú einkennilega staða nú uppi að hvorki atvinnurekendur né launþegar, telja stjórnarformanninum sætt í stjórninni. Samtök atvinnulífsins telja sig hins vegar ekki geta afturkallað umboð hans, og þannig rekið hann úr stjórninni. Telja samtökin að það sé brot á samþykktum sjóðsins.
Í staðinn vísa Samtökin málinu til fjármálaeftirlits Seðlabankans, sem þau vilja að endurmeti hæfi Pálmars, í ljósi skýrslu Samkeppniseftirlitisns og þáttar hans í samkeppnisbrotum Samskipa.
Fjármálaeftirltið bendir á móti á að nú séu fjögur ár síðan stjórnum lífeyrissjóða var bent á það að skýra þyrfti regluverk sjóðanna svo skýrar heimildir væru fyrir því að afturkalla umboð stjórnarmanna. Það hafi ekki verið gert. Á meðan situr Pálmar sem telur sig í fullum rétti og að skýrsla Samkeppniseftirlitsins hafi engu breytt.
Í dag birti svo miðstjórn RSÍ harorða ályktun þar sem skorað er á Pálmar Óla að víkja sæta úr stjórn sjóðsins sem beðið hafi skaða af stjórnarsetu hans. Þar er ákvörðun Samtaka atvinnulífsins um að halda að sér höndum í málinu, gagnrýnd harðlega og vekja enn og aftur spurningar um hvort heppilegt sé að atvinnurekendur skipi yfirleitt fulltrúa í stjórnir lífeyrissóða launafólks.
Ályktunina fer hér á eftir:
„Miðstjórn RSÍ gerir verulegar athugasemdir við setu Pálmars Óla Magnússonar í stjórn Birtu lífeyrissjóðs, á meðan hann hefur réttarstöðu sakbornings og í ljósi birtingu ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins um brot Samskipa gegn banni við ólögmætu samráði. Pálmar Óli var framkvæmdastjóri millilandasviðs Samskipa á þeim tíma sem ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nær til.
Seta Pálmars Óla í stjórn og sem stjórnarformaður Birtu lífeyrissjóðs getur haft þær afleiðingar að skaða ímynd Birtu meðal sjóðsfélaga og almennings og haft bein áhrif á trúverðugleika og orðspor sjóðsins.
„[N]auðsynlegt er að gera breytingar á aðkomu atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða“
Miðstjórn RSÍ skorar á Pálmar Óla Magnússon að stíga til hliðar á meðan rannsókn málsins stendur yfir. Ástæða þess er sú að miðstjórn sem og fulltrúaráð launafólks hjá Birtu lífeyrissjóði metur svo að Pálmar Óli uppfylli ekki lengur skilyrði greinar 5.3 samþykkta Birtu lífeyrissjóðs um gott orðspor, vegna fyrr greindra atriða.
Miðstjórn RSÍ telur aðgerðaleysi Samtaka atvinnulífsins gagnvart þessu máli verulega gagnrýnivert og vekur upp spurningar um það hvort eðlilegt sé að fulltrúar atvinnurekenda sitji í stjórnum sjóða sem hafa það eitt markmið að tryggja launafólki lífeyri á efri árum. Einsýnt er að nauðsynlegt er að gera breytingar á aðkomu atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða.“
Athugasemdir (1)