HS Orka vinnur að nokkrum stækkunarverkefnum á núverndi virkjunarsvæðum sínum sem gætu skilað yfir 100 MW inn á flutningskerfi raforku. Jafnframt er unnið að þremur nýjum verkefnum, virkjunarkostum sem allir eru í nýtingarflokki rammaáætlunar. Þar er um að ræða einn kost í vatnsafli, Hvalárvirkjun í Árneshreppi, og tvo jarðvarmakosti, annan við Eldvörp á Reykjanesi og hinn á Krýsuvíkursvæðinu.
Tvö orkufrek verkefni sem áformuð eru á Reykjanesi hafa nýverið verið kynnt til sögunnar og í báðum tilvikum hefur verið samið við HS Orku um afhendingu á raforku. Annað er metan- og vetnisframleiðsla Norður PTX Reykjanes. Í umhverfisskýrslu segir að orkan, 56 MW, muni koma frá Reykjanesvirkjun. Hin framkvæmdin sem um ræðir er landeldi Samherja sem þyrfti 16 MW. Bæði verkefnin miða að því að flytja framleiðsluvöru sína að langmestu leyti úr landi.
„Verkefnin eru ekki af þeirri stærð eða með slíkar tímasetningar að nauðsynlegt sé að virkja sérstaklega fyrir þau,“ segir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku, í skriflegum svörum við fyrirspurn Heimildarinnar. „Hins vegar hefur og er HS Orka að fjárfesta verulega í aukinni orkuöflun.“
Engin þessara fjárfestinga sé eyrnamerkt sérstökum viðskiptavinum en uppsett framleiðslugeta í þeim sé af sömu stærðargráðu og til dæmis þessir viðskiptavinir myndu þurfa.
Stækkanir tveggja virkjana
Reykjanesvirkjun var nýverið stækkuð og var viðbótin tekin í notkun í ársbyrjun 2023. Með henni jókst framleiðslugeta virkjunarinnar úr 100 MW í 130 MW.
Þá standa framkvæmdir nú yfir við stækkun og endurbætur á orkuverinu í Svartsengi. Að framkvæmdum loknum er áætlað að framleiðslugeta Svartsengis aukist um tæplega þriðjung. „Í framkvæmdinni felst að eldri framleiðslueiningar verða teknar út og ný framleiðslueining sett í staðinn, sem mun bæta nýtingu auðlindarinnar og auka framleiðslugetu versins upp í 85 MW,“ segir Birna.
„Það mun taka 5-10 ár að ná fullri orkuafhendingu til Norður PTX Reykjanes og landeldis Samherja fiskeldis á Reykjanesi,“ heldur hún áfram. „Við gerum ráð fyrir þessu magni í okkar áætlunum og sköpum ráðrúm til afhendingar eftir því sem framleiðsla okkar þróast samhliða eðlilegum hreyfingum viðskiptavina á markaði.“
Innan næstu tíu ára gætu þróunarverkefni HS Orku komist til framkvæmda og skilað yfir 100 MW inn á flutningskerfið, að sögn Birnu. Þar er um að ræða stækkunarverkerkefni á núverandi virkjunarsvæðum auk verkefna í nýtingarflokki rammaáætlunar sem HS Orka vinnur að: Eldvörp, Krýsuvík og Hvalárvirkjun.
Orkan í Eldvörpum ofmetin
Rannsóknir í Eldvörpum benda til þess að svæðið sé mjög tengt jarðhitasvæðinu í Svartsengi, segir Birna. „Því höfum við miðað vinnu okkar að undanförnu við að svæðið verði í raun nýtt frá virkjuninni í Svartsengi.“
Ekki liggi fyrir hversu mikil aukning í framleiðslugetu gæti fylgt því svæði en í rammaáætlun sé miðað við 50 MW. „Rannsóknir okkar, sem þó eru stutt á veg komnar, benda til þess að það sé ofmetið,“ segir Birna.
HS Orka er með rannsóknarleyfi á Krýsuvíkursvæðinu og undirbýr rannsóknir á grundvelli viljayfirlýsingar milli HS Orku og Hafnarfjarðarbæjar sem undirrituð var haustið 2022. „Virkjun í Krýsuvík er ekki síst ætluð til húshitunar en skortur á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu er fyrirsjáanlegur í náinni framtíð.“
Orkan úr Hvalárvirkjun á almennan markað
VesturVerk, sem HS Orka á um 80 prósent eignarhlut í, er með nokkra virkjunarkosti á sínu teikniborði og af þeim er Hvalárvirkjun í Árneshreppi lengst komin að sögn Birnu. Hún bendir á að þessi orkukostur sé í nýtingarflokki rammaáætlunar og sé hugsaður fyrir almennan markað „og til að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum“.
Virkjunarkosturinn Hvalárvirkjun var settur í orkunýtingarflokk rammaáætlunar árið 2013 og gert ráð fyrir honum í aðalskipulagi Árneshrepps ári síðar. Þegar hefur farið fram mat á umhverfisáhrifum.
Hvalárvirkjun yrði reist í eyðifirðinum Ófeigsfirði í Árneshreppi á Ströndum. Rennsli þriggja áa á Ófeigsfjarðarheiði yrði virkjað: Hvalár, Rjúkanda og Eyvindarfjarðarár. Gert hefur verið ráð fyrir að afl virkjunarinnar yrði 55 MW og orkuframleiðslan um 320 gígavattstundir (GWh) á ári.
Byggðar yrðu fimm stíflur við heiðarvötn til að mynda þrjú miðlunarlón. Sú hæsta yrði 33 metrar. Lónin yrðu tóm að vori og myndu, að því er fram kom í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismatskýrslu um framkvæmdina árið 2017, í fyrsta lagi fyllast í byrjun júlí. Rennsli allra ánna myndi minnka verulega á köflum og þar með rennsli um fossana Drynjanda og Rjúkanda.
Framkvæmt yrði á óbyggðu víðerni og telur Skipulagsstofnun að virkjunin myndi skerða víðáttumesta samfellda óbyggða víðerni á Vestfjörðum um að minnsta kosti 200 ferkílómetra eða um 13%.
Að sögn Birnu er nú áfram unnið að hönnun virkjunarinnar og árlegar rannsóknir gerðar á vatnasviði hennar. Umhverfismati lauk árið 2017 með fyrrgreindu áliti Skipulagsstofnunar og segir Birna að úrbætur hafi verið gerðar á hönnun í samræmi við ábendingar.
Virkjunin yrði langt frá meginflutningskerfi raforku og enn hefur ekki verið fastsett hvernig hún yrði tengd því. Hugmyndir hafa verið uppi um að reisa nýjan tengipunkt í Ísafjarðardjúpi og yrði þá farið með rafmagnið um 30 kílómetra leið frá virkjun yfir Ófeigsfjarðarheiðina. Þaðan færi það svo um aðra heiði inn á meginflutningskerfið í gegnum Vesturlínu.
Birna segir að undirbúningur tengilagnar standi nú yfir og að skipulagsmál og umhverfismat vegna hennar sé að mestu á könnu Landsnets.
Gert er ráð fyrir virkjuninni á aðalskipulagi Árneshrepps en gera þyrfti „lítilsháttar breytingar á skipulaginu vegna fyrirhugaðra vinnubúða og fleira samhliða skipulagsmálum Landsnets,“ segir í svörum Birnu.
Deilur sem klufu sveitina
Harðvítugar deilur stóðu um Hvalárvirkjun á sínum tíma, ekki síst í sveitinni þar sem hún er fyrirhuguð. Hugmyndin klauf lítið samfélag, íbúa Árneshrepps, fámennasta sveitarfélag landsins, og enn hefur ekki gróið um heilt.
Síðustu vendingar í þeim deilum fóru fyrir dómstóla en þær snéru að landamerkjum jarða á hinu áformaða virkjunarsvæði. Þar hafði betur ítalskur barón og eigendur Ófeigsfjarðar, sem sömdu við VesturVerk um vatnsréttindi vegna virkjunaráformanna fyrir mörgum árum.
Hvað getum við gert? Komið ríkisstjórninni frá, hún vinnur að því að rýja okkur inn að skinni, þannig að afkomendur okkar munu engin bjargráð hafa frekar en Afríkuríkin.
Mig langar svo að segja margt ljótt, en sit á mér. Get alveg skilið Palestínsku þjóðina. Þið sem ekki vitið það, þá voru það Ísraelar sem stálu af þeim landiu í skjóli Biblíunar.
Látið ekki letina stjórna ykkjur, þetta er grafalvarlegt mál.
Að fleygja auðlindunum okkar fyrir svín er rétta orðið yfir ykkur.
Landslagið þarna er ómetanlegt eins g það er.
Það þarf að hægja á þessari þróun enda er engin þörf á fyrir venjulegt fólk á Íslandi að virkja meira.