Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Fékk ekki að snerta barnið sitt

Allt var hreint á vöggu­stof­unni, einnig börn­in, „en allt ann­að vant­aði,“ seg­ir móð­ir sem vegna erfiðra að­stæðna þurfti að koma dótt­ur sinni fyr­ir á vöggu­stofu. Á átta mán­aða tíma­bili fékk hún að­eins að snerta hana einu sinni. Að­skiln­að­ur­inn hafði áhrif á sam­band mæðgn­anna alla tíð. Á sjö­unda ára­tug síð­ustu ald­ar voru áhrif dval­ar á vöggu­stof­un­um á börn vel kom­in í ljós. En áfram voru þær þó rekn­ar ár­um sam­an.

Fékk ekki að snerta barnið sitt
Án mömmu og pabba Börn dvöldu á vöggustofum borgarinnar allt frá nokkrum dögum og upp í tæp fimm ár. Ljósmyndari Morgunblaðsins heimsótti vöggustofu Thorvaldsensfélagsins árið 1965. Þá voru börnin úti í sólskininu sem á daginn hefur komið að var mjög fátítt á þessum tíma. Litlu skinnin á myndinni horfa alvarleg í linsu ljósmyndarans. Mynd: Skjáskot/Morgunblaðið

Það var sérstaklega erfitt að horfa á dótturina í gegnum rúðu og fá ekki að taka hana upp og hugga þegar hún grét, segir kona sem var í námi og vinnu og í ofanálag húsnæðislaus í lok sjötta áratugar síðustu aldar. Erfiðar aðstæður hennar urðu til þess að hún þurfti að koma dóttur sinni fyrir á Vöggustofunni Hlíðarenda enda daggæsluúrræði í borginni fágæti á þeim tíma. „Ég fékk ekki að snerta barnið mitt,“ segir hún um vöggustofudvölina.

Í einni heimsókninni varð henni svo mikið um þetta að hún hljóp grátandi út og sagðist ekki geta þetta lengur. En hún hafði engin önnur úrræði. Hún hafði ekki í nein hús að venda með dóttur sína. 

Einu sinni segist hún þó hafa fengið sérstakt leyfi forstöðukonunnar til að nálgast barnið. Það fékk hún til að hægt væri að taka mynd af þeim mæðgum saman. Þetta var í eina skiptið sem hún hélt á dóttur sinni á því átta mánaða tímabili sem hún var vistuð á vöggustofunni.

Í nýútkominni skýrslu vöggustofunefndar, sem falið var að rannsaka aðbúnað barna á vöggustofum borgarinnar á árabilinu 1949-1973, er að finna sláandi lýsingar á því sem aðstandendur upplifðu vegna dvalar barna sinna á vöggustofunum. Einnig er í skýrslunni að finna lýsingar systkina sem og fólks sem sjálft var vistað á vöggustofu og var orðið það gamalt að það man þá tíð.

Á rannsóknartímabilinu sem nefndin fjallar um í skýrslu sinni dvöldu yfir þúsund börn á vöggustofum Reykjavíkur. Líkt og fram hefur komið, m.a. í fréttum Heimildarinnar, voru þessar stofnanir fyrstu árin reknar undir forstöðu hjúkrunarkvenna og gríðarleg áhersla lögð á sóttvarnir líkt og um sjúkrahús væri að ræða. Halda átti börnunum „sterílum“ líkt og konan sem hér að framan er getið lýsti fyrir nefndinni. Allt hafi verið hreint á vöggustofunni, einnig börnin, „en allt annað vantaði“.

Einangruð frá „utanaðkomandi fólki

Ástæðunum fyrir þessu fyrirkomulagi lýsti Ólöf Sigurðardóttir forstöðukona í viðtali við Vísi árið 1954. Hún veitti Vöggustofunni Hlíðarenda forstöðu frá stofnun 1949 og allt til ársins 1960.

Móðurleg umönnunBlaðamaður Vísis heimsótti Vöggustofuna Hlíðarenda árið 1954.

Í viðtalinu er Ólöf spurð um heilsufar barnanna og sagði hún það yfirleitt afar gott. „Það er undantekning ef börnin veikjast á meðan þau dvelja hérna,“ sagði hún. „Þau eru meðhöndluð eftir fyrsta flokks reglum. Þeim er gefin sú bezta og næringarríkasta fæða sem völ er á. Á veturna fá þau öll ljósböð og þegar veður er þurrt og gott eru þau öll sett út á svalir. Einn veigamesti þáttur í heilbrigði barnanna er einangrun þeirra frá öllu utanaðkomandi fólki. Það fær aðeins að horfa á þau í gegnum gler.“

Konan sem neyddist til að koma dóttur sinni fyrir á vöggustofunni nokkrum árum eftir þetta viðtal og getið er að ofan segist mjög litlar upplýsingar hafa fengið um dótturina á meðan dvölinni stóð. Og hún segist aldrei hafa átt nein samskipti við starfsfólk. Heimsóknir hafi farið þannig fram að foreldrar gengu beint inn „og sáu börnin sín aðeins í gegnum glerið“.

Hún kveður vistina á vöggustofunni bæði hafa haft áhrif á dóttur sína og tengsl þeirra mæðgna, enda hefði hún átt erfiðara með að tengjast henni en systkinum hennar. Það hafi verið áberandi að dóttir hennar svaf og borðaði á ákveðnum tímum eftir að hún kom af vöggustofunni. Hún segist hafa tekið vist dóttur sinnar á vöggustofunni svo nærri sér að hún hafi ekki rætt málið fyrr en á sjötugsaldri. 

„Einn veigamesti þáttur í heilbrigði barnanna er einangrun þeirra frá öllu utanaðkomandi fólki. Það fær aðeins að horfa á þau í gegnum gler.“
Ólöf Sigurðardóttir,
forstöðukona Vöggustofunnar Hlíðarenda árið 1954.

Safnaði kjarki og sótti barnið

Haustið 1968 neyddist móðir til að vista barn sitt á vöggustofu samkvæmt ráði læknis. Barnið hafi verið veikt og hún sjálf algjörlega örmagna. Á þessum tíma, rúmum áratug eftir að húsnæðislausa móðirin og dóttir hennar grétu sitt hvoru megin við glerið, var sama fyrirkomulag enn viðhaft í heimsóknum aðstandenda. Hin örmagna móðir segist ekki hafa haft orku til að gera athugasemd við að fá aðeins að sjá barn sitt í gegnum glerið. Henni hafi verið sagt að barnið væri með smitandi sjúkdóm og því hafi verið tekið fyrir samneyti milli þeirra. En vikurnar liðu og loks segist hún hafa safnað kjarki og sótt barnið, sem var stúlka, á vöggustofuna.

Börn með foreldrum handan girðingar

Vöggustofunefndin tók skýrslu af konu sem sjálf var vistuð á vöggustofu í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar. Hún lýsti því að barnaverndarnefnd hefði tekið hana af heimili hennar um miðja nótt eftir að móðir hennar hefði beitt systkini hennar ofbeldi. Þetta var árið 1971 og hún nýorðin fjögurra ára. Og á vöggustofunni dvaldi hún í heilt ár.

Ánægð með tilverunaÍ grein um Vöggustofuna Hlíðarenda í Vísi árið 1954 eru birtar myndir af börnunum og í myndatextum talað um gleði og ánægju.

Konan man töluvert eftir dvölinni og segir að starfsemin á vöggustofunni hafi verið í mjög föstum skorðum. Börnin hafi borðað klukkan 17 og farið í háttinn klukkan sjö. Leikskólinn Hlíðarendi var í næsta húsi en girðing aðskildi þessa barnahópa. Hún minnist þess að hafa séð leikskólabörnin fara heim með foreldrum sínum í lok hvers dags á meðan hún og börnin á vöggustofunni fóru hvergi.

Inni var lítið við að vera, fá leikföng sem nánast var slegist um. Á þessum tíma hafði verið slakað nokkuð á fyrirkomulagi heimsókna og hefur konan það eftir fósturmóður sinni að börnin á vöggustofunni hafi sópast að fólki sem kom í heimsókn og sóst mjög eftir athygli þess.

Gyða Sigvaldadóttir, sem var fósturmenntuð, var forstöðukona stofnunarinnar á þessum tíma. „Hún var ofboðslega góð kona,“ sagði konan sem lýsti dvöl sinni fyrir vöggustofunefndinni. En hún á þó einnig minningar af ofbeldi. Í eitt sinn hafi starfsmaður gripið í hárið á henni og dregið hana inn í herbergi. Þá hafi hún líka verið slegin af starfsmanni.

Hafði áhrif á allt hennar líf

Litlu stúlkunni sem tekin var af ofbeldisheimili var síðar komið í fóstur. Á vöggustofunni hafði hún sofið í rimlarúmi í annars tómu herbergi sem var læst á nóttunni. Þetta hafði þau áhrif að á heimili því sem hún síðar fékk hafi hún í mörg ár rúllað út úr rúminu.

Dvölin á vöggustofunni hafði áhrif á allt hennar líf þótt hún hafi ekki gert sér fyllilega grein fyrir því fyrr en hún var komi á fullorðinsár. Hún hafi til dæmis forðast að fara framhjá húsi Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins. Þá hafi hún yfirhöfuð ekki knúsað fólk fyrr en eftir að hún eignaðist sjálf börn um miðjan þrítugsaldur.

Hún man ekki eftir því að hafa setið í fanginu á neinum á meðan hún var vistuð á vöggustofunni. Sennilega sé best, segir hún, að lýsa dvölinni á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins þannig að það hefðu „engar tilfinningar verið í neinum samskiptum vegna þess að það var bannað“. 

Engin snerting – engin samskipti

Kona sem átti bróður sem vistaður var um tveggja ára skeið á Vöggustofunni Hlíðarenda um miðjan sjötta áratug síðustu aldar sagði í viðtali við vöggustofunefndina að hún hefði farið þangað reglulega í heimsókn með móður sinni, þá 9-11 ára gömul. Í öll þau skipti horfði hún einungis á bróður sinn í gegnum gler. Aðstæður hafi alltaf verið eins, bróðir hennar hafi legið í rúmi og hvorki hafi átt sér stað snerting né samskipti. Hún minnist þess ekki að hafa náð augnsambandi við bróður sinn á þessum tíma.

VöggustofaVöggustofa Thorvaldsensfélagsins var opnuð árið 1963 og tók hún við af Vöggustofunni Hlíðarenda. Sama forstöðukona var fyrstu árin.

Vöggustofurnar voru úrræði á vegum barnaverndarnefndar. Ástæður fyrir vistun voru margvíslegar. Stundum tengdust þær veikindum foreldra en oftar félagslegum aðstæðum á borð við húsnæðisleysi og fátækt. Vöggustofur voru lengi eina og síðar helsta úrræði fyrir börn og foreldra þrátt fyrir að um miðja síðustu öld hafi vel verið vitað að ungum börnum væri best komið utan stofnana, á eigin heimilum og þá með stuðningi, eða á fósturheimilum.

Lítill, hræddur og vannærður drengur

Í skýrslu vöggustofunefndar er m.a. vitnað í eftirlitsskýrslu fulltrúa barnaverndarnefndar frá sjöunda áratugnum þar sem fjallað um ungan dreng sem vistaður var á vöggustofu í tvö ár. Í skýrslunni, sem gerð er eftir að drengurinn fór af vöggustofunni, kemur fram að hann hafi verið sóttur í braggahúsnæði í Reykjavík tæplega þriggja mánaða gamall eftir að móðir hans var flutt í fangageymslu. Hann hafi verið „sérlega lítið barn, vannært og illa hirt“ og segir svo í skýrslunni: „Ekki tók [drengurinn] miklum framförum á vöggustofunni. Hann var alltaf ákaflega lystarlítill, lá dögum saman í deyfð í rúminu, og að sögn læknisins taugaveiklaður og seinþroska. Hann hrökk við þegar hurð skelltist, eða komið var snögglega að honum. Mannafælinn var hann mjög.“

 Loks hafi verið gripið til þess ráðs að ákveðin starfsstúlka hugsaði um hann, sem tíðkaðist þó almennt alls ekki, og tók hann þá „dálitlum framförum“ og átti betur með að borða. Að öðru leyti varð engin breyting og hann talaði ekki.

Fulltrúi barnaverndarnefndar flutti drenginn að Skála sem var þá nýstofnað fjölskylduheimili við Kaplaskjólsveg. Hann hafi verið „mjög óttasleginn“ í bílnum og langan tíma hefði tekið að róa hann þegar inn var komið. „Fyrstu vikurnar vaknaði hann upp á nóttunni og var órólegur.“

Ekki eru örlög þessa litla hrædda barns rakin frekar í skýrslu vöggustofunefndar.

Afleiðingar dvalar augljósar

Að minnsta kosti fjórtán börn sem leitað var með til Geðverndardeildar barna sem Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur á sjöunda áratug síðustu aldar höfðu sem ungbörn dvalið á Vöggustofunni Hlíðarenda. Af sjúkraskýrslum sem vöggustofunefndin aflaði frá þessum tíma er ljóst að afleiðingar dvalar á vöggustofu voru vel þekktar og settar í samband við tengslarof barna við foreldra, sérkennilega hegðun og þroskafrávik.

Árið 1966 var komið á deildina með níu ára dreng vegna „hræðslu og taugaveiklunar“, líkt og segir í sjúkraskrá hans sem vitnað er til í vöggustofuskýrslunni. Hann hafði verið vistaður á Hlíðarenda í sautján mánuði á árunum 1953-54. Móður hans var aðeins heimilt að heimsækja hann einu sinni í viku. Allan þennan tíma fékk hún aldrei að snerta son sinn heldur einungis horfa á hann í gegnum glerrúðu. 

StarfsstúlkurStarfsmenn vöggustofanna voru oft ungar konur, sumar vel undir tvítugu. Þær sem enn eru á lífi hafa lýst því hvernig þeim var bannað að horfa í augu barnanna, hvernig mata átti þau aftanfrá til að koma í veg fyrir augnsamband og að börnin hafi dvalið langdvölum í rúmum. Myndirnar eru úr heimsóknum dagblaða á vöggustofurnar um miðja síðustu öld.

Þegar drengurinn kom af vöggustofunni var hann „lítill og pasturslaus“, talaði sama og ekkert, virtist sljór og kunni ekki að leika sér. Hann sat og réri sér fram og aftur. Viðbrögð hans voru óeðlileg og hann myndaði ekki geðtengsl, segir í sjúkraskýrslu hans frá þessum tíma.

Við heimkomuna var drengurinn með bólgu í öðru eistanu og er hann kastaði af sér þvagi hafi það verið blóðlitað. Læknisúrskurður hafi verið á þann veg að drengurinn hafi orðið fyrir sparki og bólgan orsakast af því.

„Horfði svo undarlega á mann“

Í skýrslu Geðverndardeildar barna um 7 ára dreng, sem var vistaður á Hlíðarenda mánaðar gamall á sama tímabili og sá fyrrnefndi, var eftirfarandi haft eftir móður hans: „[H]ann hafi verið mjög undarlegur, er hann kom af vöggustofu, dauflegur, ekki hjalað neitt og verið hræðslulegur, þó ekki verið óþekkur“. Þá „horfði hann svo undarlega á mann“.

Í umsögn læknis í skýrslunni segir um drenginn að „öryggiskennd hans og sjálfstæði sé sáralítið“ og sé það almenn skýring læknisins „að geðtengsl barnsins á fyrsta ári við annað fólk hafi verið léleg og neikvæð“.

Hélt ekki höfði tveggja ára

Í skýrslu frá árinu 1966 um 4 ára stúlku sem dvaldi á vöggustofu í um tvö ár, segir að móðirin hafi lítið fengið að heimsækja hana og „stundum einungis í gegnum gler.“ Þá hafi hún aldrei fengið að taka dóttur sína heim um helgar eða um jól. Þegar stúlkan kom heim af Hlíðarenda tveggja ára gömul hafi hún „skriðið meira en gengið og ekki haldið höfði“.

Hún hafi verið óvön að nota kopp og ekki kunnað að tyggja. Þá hafi hún lengi vel tekið lítið eftir umhverfinu og grátið ef hurðir voru lokaðar. Einnig er haft eftir móðurinni að hún hafi átt í erfiðleikum með hvað barnið „sótti inn í ókunn hús og upp í fangið á öllum“.

Ellefu daga gömul á vöggustofu

Í sjúkraskýrslu sex ára stúlku frá árinu 1968 kemur fram að hún hafi verið látin á vöggustofu 11 daga gömul og hún verið þar til eins og hálfs árs aldurs. Segir jafnframt að móðir hennar hafi starfað á vöggustofunni þegar hún var 4 til 8 mánaða og hún hafi „[fengið] þá alveg að hugsa um hana“.

En þegar stúlkan kom heim af vöggustofunni hafi hún verið „mjög róleg og framtakslítil“. Hún lék sér ekkert og tók ekki við hlutum sem að henni voru réttir.

TengslUm miðja síðustu öld var vitað og kennt í uppeldis- og kennslufræðum að börn þyrftu nauðsynlega á nánd að halda og að þeim væri, ef það væri mögulegt, best komið hjá foreldrum sínum.

Sjötta hvert barn fór í fóstur

Vöggustofunefndin rannsakaði sérstaklega hversu mörg börn fóru í fóstur eftir að hafa dvalið á vöggustofum Samkvæmt því sem nefndin kemst næst voru 78 börn  af þeim 475 sem dvöldu Vöggustofunni Hlíðarenda á árunum 1949-63 sett í fóstur í kjölfarið eða um 16,4 prósent þeirra. Það jafngildir því að nálægt sjötta hvert vöggustofubarn hafi farið í einhvers konar fóstur.

Vöggustofa Thorvaldsensfélagsins tók við hlutverki Hlíðarenda árið 1963 og næstu tíu árin, eftir því sem vöggustofunefndin kemst næst, var 93 börnum af 608 (15,3 prósent) sem þar dvöldu ráðstafað í fóstur. Ekki er hægt að meta út frá gögnum þeim sem nefndin skoðaði hvort að fóstur hafi verið tímabundið eða varanlegt í þessum tilvikum.

Tóku að sér þrjá bræður

Þrír bræður höfðu árið 1967 dvalið í á þriðja ár á vöggustofu. Í fundargerðum barnaverndarnefndar frá þessum tíma segir að það sé samdóma álit læknis og forstöðukonu vöggustofunnar sem og sálfræðings barnaverndarnefndar að drengirnir þyrftu meiri og nákvæmari umönnun en hægt væri að veita þeim á vöggustofunni.

Bræðurnir fóru síðar í fóstur og á öðrum stað í skýrslu vöggustofunefndarinnar er frásögn fósturforeldris sem líklega er sú manneskja sem tók drengina að sér.

Í viðtali við vöggustofunefndina lýsti fósturforeldrið undrun sinni á því hvernig staðið var að ráðstöfun barna af vöggustofunni í fóstur. Starfsmaður barnaverndarnefndar hefði haft samband við sig að fyrra bragði með fyrirspurn um hvort viðkomandi gæti hugsað sér að gerast fósturforeldri án þess að þau hjónin hefðu komið þeirri ósk á framfæri sjálf. Kvaðst fósturforeldrið einungis fyrir tilviljun hafa komist að því, eftir að barnaverndarnefnd hafði samþykkt það og maka sem fósturforeldra, að barnið sem þau ætluðu að taka í fóstur ætti systkini á vöggustofunni.

Þau hafi í kjölfarið óskað eftir að taka systkinin í fóstur sem var samþykkt. 

Kjósa
16
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Ráðherrann full bjartsýnn á framkvæmdahraða í Fossvogi
4
FréttirBorgarlína

Ráð­herr­ann full bjart­sýnn á fram­kvæmda­hraða í Foss­vogi

Eyj­ólf­ur Ár­manns­son sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra var ekki al­veg með það á hreinu hvenær Foss­vogs­brú ætti að verða til­bú­in til notk­un­ar þeg­ar hann tók fyrstu skóflu­stungu að henni í dag. Skóflu­stung­an að brúnni, sem á að verða klár ár­ið 2028, mark­ar upp­haf fyrstu verk­fram­kvæmda vegna borg­ar­línu­verk­efn­is­ins.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
1
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.
Læknamistök og handleggsbrot hafa markað ævi Ingu
4
Nærmynd

Læknamis­tök og hand­leggs­brot hafa mark­að ævi Ingu

Ingu Sæ­land fé­lags- og hús­næð­is­mála­ráð­herra var ekki hug­að líf vegna skæðr­ar heila­himnu­bólgu þeg­ar hún var smá­barn. Hún lifði en sjón henn­ar tap­að­ist að miklu leyti. Inga þekk­ir bæði fá­tækt og sár­an missi, gift­ist sama mann­in­um tvisvar með 44 ára milli­bili og komst í úr­slit í X-Factor í milli­tíð­inni. Hand­leggs­brot eig­in­manns­ins og ít­rek­uð læknamis­tök á tí­unda ára­tugn­um steyptu fjöl­skyld­unni í vand­ræði.
Sigurjón sagði hana einfalda en skemmtilega - Enginn mannanna fékk samþykki
5
Fréttir

Sig­ur­jón sagði hana ein­falda en skemmti­lega - Eng­inn mann­anna fékk sam­þykki

Eng­inn þeirra karl­manna sem komu á heim­ili þroska­skertr­ar konu til að hafa kyn­mök við hana var ákærð­ur. Þó hafði eng­inn þeirra feng­ið sam­þykki henn­ar. Sál­fræð­ing­ur seg­ir hana hafa upp­lif­að sjálfs­vígs­hugs­an­ir á þessu tíma­bili. Óút­skýrð­ar taf­ir á lög­reglu­rann­sókn leiddu til mild­un­ar refs­ing­ar yf­ir Sig­ur­jóni Ól­afs­syni, fyrr­ver­andi yf­ir­manni kon­unn­ar.

Mest lesið í mánuðinum

Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
2
RannsóknCarbfix-málið

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
3
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.
Grátbað um myndatöku fyrir barnið sem leiddi í ljós heilaæxli
6
ViðtalMóðursýkiskastið

Grát­bað um mynda­töku fyr­ir barn­ið sem leiddi í ljós heila­æxli

Mán­uð­um sam­an þurfti Hrund Ólafs­dótt­ir að grát­biðja lækni um að senda Sigrúnu, dótt­ur henn­ar, í mynda­töku vegna al­var­legra veik­inda sem voru skil­greind sem mígreni. „Barn­ið bara kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist.“ Þeg­ar hún loks fékk ósk sína upp­fyllta kom í ljós fimm sentí­metra stórt æxli í litla heila Sigrún­ar.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár