„Ég heiti Aramtza, ég er frá Venesúela, ég er sex ára gömul,“ segir Aramtza Valderrama á óaðfinnanlegri íslensku. Hún hefur verið hér í átta mánuði með fjölskyldu sinni, alveg síðan þau ákváðu að flýja Venesúela. Móðir hennar, Selena Reyes, var þá ófrísk og var hrædd við að eignast barnið sitt í brotnu heilbrigðiskerfi heimalandsins.
Þau komu til Íslands og Selena fékk að eignast drenginn sinn á Landspítala. Fjölskyldan ber íslenska heilbrigðiskerfinu vel söguna og Selena segist ofboðslega þakklát fyrir þá aðstoð sem hún fékk þar við að koma syni sínum í heiminn.
En í síðustu viku fengu þau svar frá Útlendingastofnun. Hælisbeiðni þeirra var hafnað. Fjölskyldan áfrýjaði úrskurðinum og bíður niðurstöðu.
Selena, eiginmaður hennar Juan Valdemarra og börnin þeirra tvö voru stödd fyrir framan Hallgrímskirkju í morgun ásamt á fimmta tug annarra til þess að mótmæla fyrirhuguðum brottvísunum Venesúelabúa frá landinu. Mótmæli af sama meiði fóru einnig fram í Njarðvík og á Laugarvatni.
Sögurnar sem fólkið í þessum hóp sögðu voru sögur af því að fá ekki viðeigandi krabbameinsmeðferð, sögur af því að fá að borða mest tvisvar á dag, sögur af ofbeldisfullum ránum og þöggun á vegum stjórnvalda. Og svörin sem fólkið hafði þegar það var spurt um það hvað það vildi var svarið einfalt: „Ég vil vinna hér og geta lifað lífinu mínu.“
Kominn með atvinnutilboð en á að fara
Hinn 25 ára gamli Miguel Valderrama, föðurbróðir Arömtzu litlu, var einnig staddur á mótmælunum. Útlendingastofnun hafnaði beiðni hans um hæli nýverið og hann kærði þann úrskurð til kærunefndar Útlendingamála.
„Mér finnst þetta svo ósanngjarnt því ég hef fundið vinnu hér,“ sagði Miguel sem er hræddur við það sem bíður hans ef hann verður sendur aftur til Venesúela.
„[Í Venesúela] borðuðum við einu sinni eða tvisvar á dag. Það er mikið af glæpamönnum. Maður getur varla farið út vegna þess að glæpir eru svo algengir,“ sagði Miguel.
Kærunefndin segir ástandið skána, Venesúelabúar segja það versna
Frá árinu 2018 til ársins 2020 veitti Útlendingastofnun þeim venesúelsku ríkisborgurum sem sóttu um vernd hér svokallaða viðbótarvernd vegna ástandsins í landinu. Árið 2021 fór Útlendingastofnun svo að synja fólki frá landinu en kærunefnd útlendingamála komst að þeirri niðurstöðu að áfram skyldi hún veita fólkinu viðbótarvernd, sem það fékk. Aftur reyndi Útlendingastofnun að synja umsóknum fólks frá landinu í fyrra en kærunefndin stóð við sitt. Fólki frá Venesúela skyldi veitt viðbótarvernd, ástandið í landinu væri einfaldlega það slæmt.
Í lok síðasta árs ákvað Útlendingastofnun að bíða með umsóknir frá Venesúela. Þegar hún fór aftur að taka fyrir umsóknir fólks þaðan fyrr á þessu ári var þó nokkrum hafnað.
Stór hópur venesúelskra ríkisborgara, á fjórða hundrað manns, sem höfðu fengið neitun frá Útlendingastofnun kærðu ákvörðun hennar til kærunefndar útlendingamála í sumar. Kærunefnd útlendingamála staðfesti í síðustu viku þrjá neikvæða úrskurði Útlendingastofnunar í málum Venesúelabúa og sagði ástæðuna þá að ástandið í landinu hafi batnað á síðustu mánuðum.
Það segir Miguel ekki standast.
„Ástandið í Venesúela er að verða verra og verra með hverjum deginum. Foreldrar mínir eru þar og þeir segja mér það.“
Vilja íslenska framtíð fyrir börnin sín
Aramtza er byrjuð í íslenskum skóla og hefur það gott. Hún hljóp í rólur í nágrenninu með bros á vör á meðan foreldrar hennar, Selena og Juan, ræddu við blaðamann.
Þau vilja ekkert frekar en örugga og rólega framtíð fyrir hana og nýfæddan soninn sem hefur aldrei andað að sér öðru lofti en því íslenska. Þau vilja sjá börnin sín leika sér í grænu íslensku grasi eða hvítum íslenskum snjó án þess að þau þurfi að óttast um velferð þeirra. Þau leyfa sér að vona áfram á meðan kærunefnd útlendingamála tekur mál þeirra fyrir.
Athugasemdir (3)