Laxeldisfyrirtækið Arctic Fish á að greiða allan kostnað vegna veiða norskra rekkafara á eldislöxum sem sluppu úr kví fyrirtækisins í Patreksfirði í ágúst. Þetta kemur fram í lögum um fiskeldi og er alveg skýrt, segir Guðni Magnús Eiríksson, starfsmaður Fiskistofu. Í umfjöllun fjölmiðla um greiðslu kostnaðarins við rekköfunina hefur verið nokkuð á reiki hver það er sem á að greiða fyrir hreinsunina á eldislöxunum, Fiskistofa og þar með íslenska ríkið og skattgreiðendur eða Arctic Fish.
„Það myndi koma mér og mörgum öðrum mjög mikið á óvart.“
Guðni Magnús segir að Fiskistofa greiði kostnaðinn og innheimti hann svo frá Arctic Fish. „Þessi aðgerð er gerð á forsendum Fiskistofu og stjórnað af Fiskistofu og við greiðum fyrir þessa þjónustu. En við munum innheimta þennan kostnað af eldisfyrirtækjum samkvæmt lögum.“ Hann segir að það væri mjög skrítið ef Arctic Fish myndi skorast undan að greiða þennan kostnað þar sem fyrirtækið hafi sjálft stungið upp á þessara leið, að nota rekkafara, til að hreinsa upp eldislaxa í íslenskum ám. „Það myndi koma mér og mörgum öðrum mjög mikið á óvart.“
Aðspurður um hvort Arctic Fish muni ekki sannarlega greiða þennan kostnað við rekköfunina segir Stein Ove Tveiten. „Við munum eigum í beinum samskiptum við Fiskistofu um þetta.“ Hann svarar spurningunni því ekki með beinum hætti þegar leitað er eftir svari. Stein Ove fæst ekki til að útskýra nánar hvað hann á við þegar eftir því er leitað.
Skýr ákvæði í lögum og starfsleyfi
Í lögum um fiskeldi segir meðal annars orðrétt um skyldu laxeldisfyrirtækja til að greiða kostnað við að veiða eldislaxa sem sleppa: „Allan kostnað Fiskistofu og annarra stjórnvalda vegna nauðsynlegra aðgerða samkvæmt þessari grein skal rekstrarleyfishafi [eða skráningarskyldur aðili skv. 5. gr.] 2) greiða.“
Í starfsleyfi Arctic Fish í Patreksfirði segir svo meðal annars orðrétt: „Verði óhapp eða annað atvik sem getur haft í för með sér losun mengandi efna út í umhverfið skal þegar í stað grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir útbreiðslu mengunarefna og til að fyrirbyggja að mengun valdi skaða á umhverfinu. Rekstraraðila ber að hreinsa þá mengun sem kann að verða við óhöpp eða önnur atvik, á sinn kostnað.“
Nýtt teymi rekkafara við veiðar á norðvesturhorninu
Nýtt teymi af norskum rekköfurum er komið til landsins, segir Guðni. Þeir hafa verið við veiðar í Víðidalsá í Húnavatnssýslu í dag og verða áfram á Norðvesturlandi næstu daga, þar sem talsvert hefur veiðst af eldislöxum. Þeir munu meðal annars fara í Miðfjarðará, Hrútafjarðará og Vatnsdalsá.
Fyrsta teymi rekkafara sem hingað kom var við veiðar í síðustu viku og veiddu þeir 31 eldislax á þremur dögum.
Mögulegt að fleiri rekkafarar komi
Kostnaðurinn við þessi fyrstu tvö teymi rekkafara sem komið hafa hingað til landsins er á annan tug milljóna króna, segir Guðni. Nakvæm kostnaðartala liggur ekki fyrir.
Hann segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort fleiri teymi kafara muni koma hingað til landsins eftir að þetta annað teymi lýkur störfum. „Það liggur ekkert fyrir um það en það kann að vera. Þetta fer eftir árangri við veiðarnar og fréttum um hvort eldislaxinn er að ganga. Það er ekki hægt að slá neinu föstu um það. En við erum að horfa á það að það getur komið að gagni að gríða til aðgerða áður en hrygningartíminn kemur. Hann er upp úr miðjum október og fram í nóvember. Þannig að það er sá tími sem við erum að horfa á. Þetta verður bara metið eftir árangri úr þessari aðgerð sem núna stendur yfir.“
Athugasemdir