Leggið ykkur og sofið í 250 milljón ár. Það er langur svefn en segjum að það sé hægt. Og hvað blasir þá við þegar þið vaknið aftur? Í sem skemmstu máli: Heimurinn væri gjörbreyttur. Ekki eitt einasta gamalt kort eða hnattlíkan gæti komið að gagni við að rata um þennan heim, því öll meginlönd hefðu þá færst hingað og þangað um heimskringluna og væru svo reyndar öll búin að raða sér upp í nýja risaheimsálfu.
Flest vitum við núorðið að fyrir tæplega 300 milljón árum voru öll meginlönd heimsins samankomin í einni gríðarstórri heimsálfu sem vísindamenn hafa kallað Pangeu.
Það var alls ekki í fyrsta sinn í jarðsögunni sem það gerðist. Aftar í tímanum má finna spor eftir aðrar og eldri risaheimsálfur: Rodiníu, Columbíu, Kenorland og Úr hafa menn nefnt sumar hina fyrri.
En eins og alltaf gerist öðruhvoru, þá verða heljaröflin í iðrum Jarðar til þess að stóru heimsálfurnar sundrast í smærri meginlönd sem fljóta svo um skeið á möttlinum eins og hvert annað kork í baðkari.
Núna erum við einmitt stödd á einskonar milliskeiði þar sem helstu landreksflekar Pangeu gömlu hafa dreifst nokkuð jafnt um annan helming jarðkúlunnar.
En bíðum bara — sú þróun er þegar hafin sem mun enda með nýrri risaheimsálfu eftir 250 milljón ár.
Afríka mun þrengja sér svo nærri Evrópu að Miðjarðarhafið hverfur. Ástralía mun renna saman við suðausturhluta Asíu. Suðurskautslandið tekur á rás norður Indlandshaf. Norður- og Suður-Ameríka munu stíga flókinn dans sem endar með að báðar taka að spana í austurátt og loka Atlantshafinu. Norður-Ameríka leggst að Norður-Afríku. Suður-Ameríka lokar Indhafshafinu að lokum. Það endar kannski sem risastórt stöðuvatn eða lokað innhaf.
Sjáið bara, þetta mun gerast svona:
En segjum nú að þið gætuð í rauninni með einhverjum hætti sofið í 250 milljón ár og vöknuðuð aftur þegar nýja risaheimsálfan er tilbúin — Pangea Ultima eins og vísindamenn eru þegar farnir að kalla hana.
Segjum nú svo. Hvernig litist ykkur á?
Munuði þá ýta skútu úr vör og sigla um blíðar öldur innhafsins mikla? Munuði ráfa um blómlega hitabeltisfrumskóga Síberíu við miðbaug? Munuði svamla á hlýlegri baðströnd Svalbarða eða skoða ríkulegt dýralífið í mollulegum mýrarflákum Antartíku?
Nei.
Nei, það munuði ekki gera.
Í fyrsta lagi verður mannkynið löngu útdautt þá. Það segir sig bara sjálft. Engin margbrotin og margbreytileg dýrategund hjarir í 250 milljón ár.
En í öðru lagi verða aðstæður á Pangeu Ultima ekki hagstæðar hvorki okkur né spendýrum yfirleitt.
Vísindamenn birtu á mánudaginn var niðurstöður sínar um ástand og horfur á Pangeu Ultima eftir 250 milljón ár.
Þið getið lesið niðurstöðurnar hér.
En ég skal rekja fyrir ykkur nokkrar þær helstu.
Ekki aðeins maðurinn verður útdauður, heldur sennilega öll spendýr yfirleitt.
Nema hugsanlega einhverjar tegundir í sjónum.
Því það verður svo djöfullega heitt á Pangea Ultima.
Þegar risaheimsálfan tekur að skella saman fyrir alvöru og landreksflekar rifna og kuðlast saman af æ meiri krafti, þá mun eldvirkni aukast. Öll þau eldgos sem við þekkjum verða ekki einu sinni barnaleikur í samanburði við þau ósköp.
Sums staðar mun gjósa nær samfellt jafnvel í milljónir ára.
Koltvísýringur mun fylla loftið.
Hamfarahlýnun nýtímans verður sem smámunir einir.
Strandlengja hinnar nýju ofurheimsálfu verður mun styttri en strandlengja hinna ólíku heimsálfa nú. Það þýðir að þau efnahvörf milli sjávar og fjörukletta sem nú binda heilmikinn koltvísýring minnka að mun.
Gróðurhúsaáhrifin aukast enn.
Og svo verður sólarbirtan sterkari þá. Eftir 250 milljón ár mun sólin skína með sem nemur 2,5 prósent meira afli en nú. Það eykur hitann og geislunina og hellist yfir Jörðina.
Inni á miðju hinu mikla flæmi Pangeu Ultima gæti hitinn náð 60 gráðum svona yfirleitt. Það þýðir auðvitað að nærri öll risaheimsálfan verður nær aldauða eyðimörk. Stóra innhafið, leifarnar af Indlandshafi, gæti orðið allt að því sjóðandi á stundum.
Meðalhiti á allri Jörðinni gæti náð 25 gráðum, nærri 10 gráðum hærri en nú. Og hita- og rakasveiflur yrðu slíkar að engin blóðheit spendýr gætu lifað það af.
Hugsanlega fáeinar tegundir út við strendurnar en líklegast samt að einhverjir nýir kynstofnar dýra yrðu til sem hreinlega ryddu spendýrunum úr vegi.
Kannski endurvaktar risaeðlur, kannski eitthvað allt annað sem við getum ekki enn látið okkur detta í hug.
Einhverjar nýjar tegundir og ættkvíslir dýra sem gætu þolað hitavítið sem Pangea Ultima myndi vera í okkar augum, ef við fengjum einhvern tíma að sjá hana.
Sem við munum þó sem sagt ekki gera.
Það skemmtilega er að þó veðurfræðingar eigi stundum erfitt með að ráða í veðrið á morgun eða hinn daginn, þá er lítill vafi á því að spá þeirra um veðrið á Pangeu Ultima mun rætast — í stórum dráttum.
Brennandi, brennandi sólin.
Við getum ekkert og munum ekkert geta til að sporna við því heitasta helvíti sem Pangea Ultima verður.
Eina huggunin er sú að það er langt þangað til.
Athugasemdir