Lögreglan á Vestfjörðum hefur hafið rannsókn á slysasleppingum sjókvíaeldisfyrirtækisins Arctic Fish í Patreksfirði. Þetta er gert að beiðni Matvælastofnunar. Greint er frá rannsókninni í tilkynningu frá stofnuninni. Um er að ræða fyrstu slíku rannsóknina sem farið er í á eldisfyrirtæki hér á landi.
Í henni segir orðrétt: „Matvælastofnun hefur farið fram á opinbera rannsókn vegna meintra brota Arctic Sea Farm ehf. á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi en í ágúst sl. tilkynnti fyrirtækið um tvö göt á kví við Kvígindisdal í Patreksfirði. Samkvæmt 22. gr laganna varðar það stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra rekstrarleyfishafa sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, ef sakir eru miklar, ef eldisfiskur sleppur úr fiskeldisstöð þar sem umbúnaði við fiskeldið hefur verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis þeirra sem framið hefur verið af ásetningi eða gáleysi. Lögreglan á Vestfjörðum hefur málið til meðferðar og veitir Matvælastofnun ekki frekari upplýsingar um málið að sinni.“
Greint var frá því í ágúst í sumar að göt hefðu komið á kví hjá Arctic Fish í Patreksfirði. Um 73 þúsund laxar, sem voru um 6 til 7 kíló, voru í kvínni sem götin fundust á. Síðan þá hafa veiðst fjölmargir stórir eldislaxar víða um landið, aðallega á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Matvælastofnun hefur greint nokkra af eldislöxunum sem veiðst hafa og hefur niðurstaðan verið sú að í flestum tilfellum sé um að ræða laxa frá Arctic Sea Farm í Patreksfirði.
Athugasemdir (1)