Á samfélagsmiðlum hefur verið í dreifingu skjáskot af frétt af dv.is með mynd af Uglu Stefaníu Kristjönu Jónsdóttir, trans konu og aktívista. Þar segir í fyrirsögn að umræðan sé á suðupunkti vegna hinsegin fræðslu og í greininni segir Ugla Stefanía að baráttu hinsegin fólks sé hvergi nærri lokið. Á skjáskotinu sést að Eldur Deville, formaður Samtakanna 22, hefur skrifað við greinina „Harakiri. Flott, Ugla. Ég þarf þá ekki að rétta þér reipi líka. Þú ert í sjálfsafgreiðslu.“
Margir, þar á meðal Ugla sjálf, túlkaði þetta sem hvatningu til sjálfsvígs.
„Já, ég var sakaður um að hvetja til sjálfsvígs. Eins og flest fólk veit þá er oft talað um það í rökræðum að rétta fólki reipið til að hjálpa því, eða leggja kapalinn upp þannig að fólk geti hengt sig sjálft. Það er frjálslega farið með ásetning minn með þessum kommentum,“ segir Eldur.
Þannig að þú neitar því að hafa verið að hvetja Uglu til að drepa sig?
„Auðvitað geri ég það,“ segir hann.
Eldur segist meðvitaður um að margir hafi túlkað þetta sem hvatningu til sjálfsvígs. „Það er alveg greinilegt að fólki finnst voðalega gaman að taka allt hundrað prósent bókstaflega frá þeim sem því líkar ekki við. Ef ég myndi segja: „Ég þarf að koma einhverjum fyrir kattarnef“, er ég þá að hóta að drepa hann eða er ég að segja að ég vilji setja hann fyrir framan köttinn? Ég get ekki tekið ábyrgð á því hvernig fólk túlkar mín orð. Þeim er frjálst að túlka þau eins og þeim sýnist. Ég hef ekkert vald yfir þeirra túlkunum. Það er ekki hægt að fara fram á það að neinn hafi ákvörðunarvald yfir túlkunum annarra,“ segir hann.
Ugla Stefanía greinir frá því í Heimildinni í dag að henni finnst mikilvægt að fjallað sé um hvers konar hatursáróður Samtökin 22 láta frá sér, samtök sem gefa sig út fyrir að berjast fyrir réttindum samkynhneigðs fólks en dreifa miklu efni sem lýsir andúð í garð trans fólks. „Ég deildi á síðunni minni skjáskoti þar sem formaður þessara samtaka er að segja mér að fremja sjálfsvíg. Þetta er fólkið sem er í forsvari fyrir þennan hóp. Það þarf að koma fram hvernig þetta fólk hagar sér og hvaða orðræðu þau viðhafa á samfélagsmiðlum,“ segir Ugla.
Í Heimildinni í dag segir Arna Magnea Danks frá því að Eldur hafi í félagi við konu í Samtökunum 22 mætt á fyrirlestur sem hún hélt fyrr í mánuðinum á vegum Íslandsdeildar Amnesty International um stöðu trans fólks og það bakslag sem hefur orðið í baráttunni.
Eftir fyrirlesturinn hafi hann sagst ekki kannast við þetta bakslag, neitaði að viðurkenna að Arna væri kona og því næst hafi hann reynt að miðla hatursboðskap sínum í garð trans fólks til hinna fundargestanna, við litlar undirtektir.
Mætti óboðinn í Langholtsskóla
Eldur komst í fréttirnar fyrir viku eftir Heimildin greindi frá því að Langholtsskóli hafi gert skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar viðvart að þrír einstaklingar frá Samtökunum 22, þar á meðal Eldur, hefðu komið óboðnir í skólann. Fólkið tók myndbönd af starfsfólki skólans án þeirra samþykkis og hafði upptökuna í gangi þegar því var vísað frá skólanum. Málið var tilkynnt til lögreglu. Þá sendi skóla- og frístundasvið einnig viðvörun til annarra skóla vegna fólksins.
Samtökin 22, með Eld fremstan í flokki, hafa að undanförnu farið mikinn í gagnrýni á hinsegin fræðslu í grunnskólum, þá aðallega fræðslu um trans málefni.
Íslenska ríkið, sveitarfélög, stofnanir og félagasamtök – þar á meðal Samtökin 78 – tóku í gær höndum saman í gær og sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau leiðréttu rangfærslur og villandi upplýsingar sem dreift hefur verið að undanförnu vegna hinseginfræðslu og kynfræðslu í skólum, meðal annars af hálfu Elds.
Samtökin 22 eru ekki í okkar nafni“
Í grein sem Eldur skrifaði og var birt á Mbl um miðjan apríl síðastliðinn segir hann að sér hefði aldrei dottið í hug að ,,umdeildar hugmyndir kynjafræðinga myndu ryðja sér braut inn í skólana okkar og þær kenndar sem vísindalegar staðreyndir. Að börnum yrði kennt að líffræðilegt kyn ákvarði ekki kyn þitt, heldur einhver „tilfinning“ innra með þér. Sú tilfinning kallast á trúmáli kynjafræðinga „kynvitund“.“
Nokkrum dögum síðar birtist grein á Vísi með fyrirsögninni ,,Samtökin 22 eru ekki í okkar nafni“ en rétt tæplega 300 einstaklingar skrifuðu undir greinina. Fólkið fordæmir þar að vísað sé til Samtakanna 22 sem hagsmunasamtaka samkynhneigðra og segir að hvorki þau né talsmaður þeirra tali í nafni þeirra.
Athugasemdir (5)