„Síðustu þrír mánuðir voru þeir heitustu á jörðinni frá upphafi mælinga, með fordæmalausu hitastigi yfirborðs sjávar og mun öfgafyllri veðrum.” Svo segir í nýlegri frétt á vefsíðu alþjóða veðurfræðistofnunarinnar (WMO). Í sjöttu matsskýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, frá fyrr á þessu ári, er dregið skýrt fram að loftslagsbreytingar eru raunveruleg ógn við heilbrigði jarðar og þar með við velsæld mannkyns. Helminga þarf heimslosun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 til að ná markmiði Parísarsáttmálans um að takmarka röskun loftslags við 1,5 °C hækkun á hitastigi. Ef það tekst ekki munu stigmagnandi áhrif loftslagsbreytinga meðal annars birtast í enn meiri öfgum í veðurfari og enn frekari hnignun vistkerfa með grafalvarlegum áhrifum á lífríki jarðar.
Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart því síðustu 35 árin hefur vísindasamfélagið síendurtekið varað okkur við hvað væri í vændum. Nú, þegar afleiðingar af röskun loftslags skella orðið reglubundið og með vaxandi þunga á heimsbyggðinni er ekki pláss fyrir efasemdir.
Engin er eyland, allra síst Ísland
Loftslagsbreytingar eru umhverfisógn sem fléttast inn í alla þræði samfélaga heimsins og tengja þau órjúfanlega saman. Afleiðingar loftslagsbreytinga, hvar sem þær raungerast, varða þannig alla jarðarbúa, ekki eingöngu þá sem verða fyrir beinum staðbundnum skaða. Þær varða íbúa lítillar eyju í Norður-Atlantshafi sem byggja lífsviðurværi sitt að miklu leyti á vöruinnflutningi annarsstaðar frá. Svo sem hvað varðar matvæli, hrávöru, farartæki, vélar, fatnað, lyf og lúxusvörur af ýmsum toga. Þurrkar, ofsaveður, flóð, hitabylgjur eða aðrar loftslagshamfarir sem við heyrum reglulega af utan úr heimi munu þannig hafa bein og óbein áhrif á lífsafkomu okkar hér á Íslandi, ekki síður en annarra íbúa jarðar.
Í nýrri samantektarskýrslu Sameinuðu þjóðanna um hnattrænt stöðumat á loftslagsmarkmiðum ríkja heimsins kemur skýrt fram að stjórnvöldum hefur ekki tekist að draga úr losun eins hratt og þarf til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins fyrir 2030 og „glugginn" sem við höfum til að ná árangri fer stöðugt minnkandi. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda falla þarna undir því heildarlosun frá Íslandi hefur aukist frá 1990 í stað þess að dragast saman, í takt við skuldbindingar okkar.
Í fyrrnefndri skýrslu S.þ. er lögð áhersla á að stjórnvöld styðji af krafti við allar kerfislægar umbreytingar sem a) fasa notkun jarðefnaeldsneytis út í áföngum, b) efla náttúruleg vistkerfi og c) bæta landbúnaðaraðferðir til að draga úr losun og vernda og auka kolefnisforða í kolefnigeymum jarðar (eins og hafinu, jarðvegi og gróðri). Stóra myndin er skýr – við þurfum hringlaga samþætt og -tengd kerfi sem stuðla að nýtni og jafnvægi manns og náttúru – græna orku, heil og öflug náttúruleg vistkerfi og loftslagsvænt mataræði. Við þurfum loftslagsmiðuð fjármálakerfi og tryggja þarf að umskiptin séu ávallt réttlát, samfélaginu öllu til góða.
Umhverfis-, samfélags- og efnahagsleg áskorun
Verkefnið er gríðarlega umfangsmikið þar sem loftslagsmálin teygja sig inn í alla geira samfélaga og árangur í samdrætti og aukinni bindingu byggir á félags- og hagfræðilegum forsendum, ekki síður en umhverfislegum. Loftslagsmarkmið stjórnvalda þurfa því að byggja á bestu fáanlegu sérfræðiþekkingu hverju sinni, studd með markvissri loftslagsstefnu og öflugum loftslagslögum sem móta ramma áætlana og aðgerða. Að sama skapi þarf að tryggja að loftslagsaðgerðir stuðli samhliða að vernd loftslags og lífríks og hagstjórn taki fullt mið af þeim. Síðustu árin hafa því æ fleiri ríki ákveðið að starfrækja óháð og sjálfstæð loftslagsráð sem hafa það hlutverk að veita stjórnvöldum sérfræðiráðgjöf og aðhald hvað varðar opinberar stefnur, markmið og áætlanir tengdar loftslagsmálum. Segja má að breska loftslagsráðið (UKCCC), sem stofnað var á grunni loftslagslaga Bretlands frá 2008, sé að einhverju eða öllu leyti fyrirmynd flestra þeirra loftslagsráða sem stofnuð hafa verið síðasta áratuginn.
Loftslagslög og loftslagsráð
Loftslagslög Danmerkur, uppfærð árið 2020 eru til að mynda gott dæmi um hversu markvisst nágrannaþjóðir okkar flétta loftslagsstefnur og -markmið, sem og hlutverk loftslagsráða inn í löggjöf sína. Einnig má benda á loftslagslög Írlands frá árinu 2021; Finnlands frá árinu 2022 og Svíþjóðar frá árinu 2017. Árið 2019 tóku íslensk lög um loftslagsmál nr. 70/2012 nokkrum breytingum og meðal annars var sett inn ákvæði um að starfrækja skuli loftslagsráð sem veita skuli „stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum og er sjálfstætt og óháð í störfum sínum“. Markmið um að Ísland skuli ná kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040 bættist við lögin árið 2021. Í lagaramma áðurnefndu erlendu ríkjanna kemur skýrt fram að loftslagsráð þeirra skulu vinna tillögur sem stjórnvöld skulu hafa til grundvallar í sinni stefnumörkun og áætlanagerð, sem og rýna væntan og raunárangur aðgerða stjórnvalda. Það á hinsvegar ekki við um íslensku loftslagslöggjöfina.
Skýrari rammi, aukin samábyrgð og öflugri stjórnsýsla
Íslensk lög um loftslagsmál eru ekki jafn skýr og afdráttarlaus og nágrannaþjóðanna, hvorki hvað varðar loftslagsstefnu, né -markmið eða samábyrgð ríkisstjórnar og Alþingis. Frá því að Loftslagsráð tók til starfa árið 2018 hefur það ítrekað bent á nauðsyn öflugar stjórnsýslu í loftslagsmálum sem undirstöðu árangurs, nú síðast í nýlegu uppgjöri ráðsins frá júní sl. Í uppgjörinu segir meðal annars að þar sem markviss loftslagsstefna liggi ekki enn fyrir sé óskýrt hvernig Ísland hyggist ætla að ná alþjóðlegum og innlendum skuldbindingum um samdrátt í losun til 2030. Markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 hefur ekki heldur verið útfært og langtímaáætlanir og skammtímamarkmið ekki samræmd. Skortur á langtímasýn og fyrirsjáanleika hái því öllum aðgerðum stjórnvalda, fyrirtækja og heimila.
Í uppgjöri sínu lagði ráðið áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld tryggi að loftslagsmálin fái það vægi sem samræmist því að vera eitt helsta forgangsverkefni samfélagsins til næstu áratuga og brýndi stjórnvöld til að móta loftslagsstefnu í þverpólitísku samstarfi hið fyrsta, í opnu samráði og leggja stefnudrögin fram til umræðu og staðfestingar á Alþingi. Einnig lagði það áherslu á mikilvægi þess að Alþingi verði upplýst reglulega með formlegum hætti um árangur loftslagsaðgerða og það hafi beina aðkomu að eftirfylgni með markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Ráðið minnti líka á nauðsyn þess að styrkja pólitíska forystu í loftslagsmálum með skýrri og gagnsærri verkaskiptingu ráðuneyta og skýrri ábyrgð ráðherra og ítrekaði fyrri ábendingar sínar um mikilvægi samhæfingar innan stjórnarráðsins.
Viðvörunarbjöllur heimsins klingja orðið nær látlaust. Ég vona að Alþingi heyri í þeim.
Athugasemdir