Kjarni þeirra kerfa sem íslenskur almenningur er látinn búa við hefur opinberast nokkuð skýrt í ýmsum málum sem skotið hafa upp kollinum á síðustu dögum.
Fyrst ber að nefna skýrslu sem birt var um gjaldtöku og arðsemi íslensku viðskiptabankanna. Niðurstöður hennar sýndu svart á hvítu að arðsemi íslensku viðskiptabankanna þriggja, Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka, af undirliggjandi rekstri sínum hefur aldrei verið meiri en hún var í fyrra.
Þar kom fram að afkoma bankanna þriggja hefði batnað til muna á síðustu árum og að hlutfallsleg arðsemi eigin fjár þeirra – 10,7 prósent í fyrra – væri meiri en hjá sambærilegum bönkum á hinum Norðurlöndunum, þar sem hún var 9,6 prósent. Þetta er staðan þrátt fyrir að íslensku bönkunum sé gert að halda á miklu meira eigin fé en bönkum í nágrannaríkjunum. Ástæða þess er sú að stjórnvöld hérlendis treysta ekki innlendri bankastarfsemi til að fara sér ekki að voða. Henni er gert að vera með belti og axlabönd á samfesting svo bankarnir séu í stakk búnir til að takast á við möguleg áföll og virðisrýrnun lána. Það sér hver heilvita maður að það að ná 10,7 prósent arðsemi á mikið eigið fé skilar miklu fleiri milljörðum króna í hagnað en að ná 9,6 prósent arðsemi á minna eigið féð.
Gullflögum dreift yfir flórinn
Þessum árangri hafa íslensku bankarnir meðal annars náð með því að hagræða. Þeir hafa meðal annars rekið fólk, lokað útibúum og gert alls kyns þjónustu stafræna. Með því náðu þeir rekstrarkostnaði niður úr 59 prósent af tekjum árið 2018 í 47 prósent í fyrra. Þótt þessar tölur líti vel út þá verður að taka tillit til þess að tekjur bankanna þriggja stórjukust líka á tímabilinu. Það er enn almenn skoðun flestra sem skoða íslenskt bankakerfi með sanngjörnum augum að þar vinni allt of margir og í þann hóp fari allt of mikill kostnaður, sem annars væri hægt að spara og nýta til að lækka álögur á viðskiptavini. Kerfið er til fyrir þá sem vinna í því mun frekar en þá sem þurfa að eiga viðskipti við það.
Ofan á þetta allt var bankaskattur lækkaður mun hraðar en áður var stefnt að. Það skilaði Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion banka samtals tólf milljarða króna í aukinn hagnað sem annars hefði farið í ríkissjóð. Hagsmunagæsluaðilar fjármálageirans höfðu lengi haldið því fram að vaxtamunur myndi dragast saman ef bankaskatturinn yrði lækkaður. Það gerðist ekki. Þvert á móti var vaxtamunurinn á fyrri hluta þessa árs hærri, eða 2,9 til 3,2 prósent, en hann var árið 2018, þegar hann var 2,8 prósent.
Til viðbótar komst starfshópurinn sem vann skýrsluna að því að lítill munur væri á verði milli bankanna og að þeir hækkuðu oft verð í takti við hver annan. Sum þjónustugjöld sem lögð væru á væru „ógagnsæ að því leyti að ekki er ljóst hver kostnaður bankans er við að veita þjónustuna, sem oft er rafræn og/eða sjálfvirk“. Þá kom fram að gjaldtaka íslensku bankanna af kortaviðskiptum í erlendri mynt hafi verið 6,6 milljarðar króna í fyrra. Meltið þá tölu aðeins.
Bankarnir kusu allir að líta framhjá öllu ofangreindu. Þeir, og viðhengi þeirra í fjölmiðlum, afskrifuðu áfellisdóminn sem eðlilega afleiðingu séríslenskra aðstæðna. Þeir fögnuðu þvert á móti skýrslunni, væntanlega í krafti þeirra væntinga að flest fólk myndi ekki lesa hana, og héldu því fram að hún hefði dregið fram „að þróunin á íslenskum fjármálamörkuðum síðustu ár hafi verið jákvæð og skilað sér í hagstæðari og aðgengilegri þjónustu, neytendum og samfélaginu til heilla“.
Þetta kallast á sterkri íslensku að dreifa gullflögum yfir flórinn.
„Cash cow“ fyrir Ólaf Ólafsson
Skömmu síðar birtist niðurstaða Samkeppniseftirlitsins vegna rannsóknar þess á samráði skipafélaganna tveggja, Eimskips og Samskipa, sem sjá um þorra vöruflutninga til og frá landinu og hafa þannig gríðarleg áhrif á alla verðlagningu með þeim kjörum sem þau bjóða og því viðskiptahátterni sem þau sýna af sér.
Rúm tvö ár eru síðan Eimskip gerði sátt við Samkeppniseftirlitið um greiðslu 1,5 milljarða króna stjórnvaldssektar vegna alvarlegra brota gegn samkeppnislögum og EES-samningum sem framin voru í samráði við Samskip. Brotin voru aðallega framin á árunum 2008 til 2013. Þau hættu ekki fyrr en Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á samráðinu og réðst í húsleitir vegna þess. Ef það hefði ekki gerst þá má vel ætla að samráðið stæði enn yfir.
Forsvarsmenn Samskipa voru, og eru, hins vegar á þeirri meiningu að um falska játningu hafi verið að ræða hjá Eimskip. Skipafélagið hafi bara ekki nennt að standa í þessu lengur og ákveðið að borga 1,5 milljarða króna, nálægt helmingi hagnaðar félagsins á árinu 2022, í sekt ásamt því að játa á sig stórfelld lögbrot sem það hefði ekki framið og tekið á sig þá orðsporshnekki sem slíku fylgja. Fólk getur metið það sjálft hversu gáfuleg þessi framsetning er.
Að endingu sat Samskip uppi með hæstu sekt sem eftirlitsaðili hefur nokkru sinni lagt á íslenskt fyrirtæki, alls 4,2 milljarða króna. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um samráðið kemur fram að stjórnendur fyrirtækjanna og undirmenn þeirra hafi náð saman um að svína á viðskiptavinum sínum og þar með neytendum almennt. Þessi áætlun var meðal annars sett upp í glærusýningu, sem fékk hið ósmekklega heiti „Nýtt upphaf“ og er lykilgagn í rannsókn Samkeppniseftirlitsins.
Allt var þetta gert annars vegar til að rétta af stöðu Eimskips eftir að félagið fór á skuldsett eyðslu- og útþenslufyllerí á fyrirhrunsárunum með kaupum á alls kyns glórulausum eignum, sem skilaði því á endanum að Eimskip tapaði rúmlega 180 milljörðum króna á núvirði á einu ári. Hins vegar var þetta gert til að fóðra „cash cow“ sem Ólafur Ólafsson, eigandi Samskipa, þurfti á að halda vegna eigin óráðsíu og yfirskuldsetningar.
Ódýra matarkarfan
Í miðri liðinni viku birtist viðtal við Finn Oddsson, forstjóra smásölurisans Haga, sem rekur meðal annars Bónus og Hagkaup, þar sem hann sagði að færa mætti rök fyrir því að það væri ódýrara að versla í matinn á Íslandi en annars staðar í Evrópu. Máli sínu til stuðnings sagði Finnur að matarkarfa heimila teldi um 13 prósent útgjalda, sem væri lægra hlutfall en meðaltal um 30 Evrópulanda sem væri tæplega 16 prósent.
Þetta er rétt svo langt sem það nær. En Finnur velur líka samhengið eftir hentugleika. Þegar tölur Eurostat eru rýndar kemur nefnilega í ljós að hlutfallið er afar mismunandi milli landa. Þannig vigtar matarkarfan hlutfallslega minna í útgjöldum Svía, Hollendinga, Norðmanna, Finna, Dana, Þjóðverja, Austurríkisbúa, íbúa Lúxemborgar og Íra en Íslendinga. Á svipuðu róli og Íslendingar eru svo Belgar, Frakkar og Maltverjar. Þau lönd sem draga upp meðaltalið sem Finnur miðar við eru fátækari lönd álfunnar, sem flest tilheyra gömlu Austur-Evrópu. Þannig er matarkarfan til að mynda 25 prósent útgjalda í Rúmeníu.
Þegar horft er á verga landsframleiðslu á mann kemur í ljós að í öllum löndunum sem eru ríkari en Ísland þá er matarkarfan mun lægra hlutfall af heildarkostnaði heimila en hér. Það á raunar líka við nokkur lönd þar sem landsframleiðslan á mann er minni en á Íslandi. Ef horft er á matvöruverð hérlendis í krónum talið, en ekki sem hlutfall útgjalda, þá er það hið þriðja hæsta í heiminum.
Matvöruverslanir hafa verið harðlega gagnrýndar fyrir að ganga á lagið í verðbólgufárinu og nýta það til að auka hagnað sinn. Með því ýta þær undir þráláta verðbólgu frekar en að leggjast á árarnar með öðrum öngum samfélagsins um að vinna bug á henni. Nýlegar tölur benda til þess að þessi gagnrýni sé ekki úr lausu lofti gripin. Ársverðbólga mælist nú 7,8 prósent. Sá undirliður hennar sem hækkað hefur mest er matarkarfan, um 12,2 prósent á einu ári. Dæmi eru um að nauðsynjavörur hafi tvöfaldast í verði á tveimur árum. Sterkara gengi krónu það sem af er ári hefur ekki skilað neinni lækkun sem neinu nemur.
Fullyrðingar um að það sé ódýrt að versla í matinn á Íslandi, barnaðar með því að velja fjarstæðukenndan samanburð, halda með öðrum orðum ekki. Það vita allir sem standa reglulega í áfalli yfir tölunum sem birtast á posanum við hlið sjálfsafgreiðslukassanna, sem skiluðu heldur engri verðlækkun þrátt fyrir að þeir hafi sparað matvöruverslunum umtalsverðum launakostnaði.
Fúsk með gjaldeyri
Talandi um krónur. Morgunblaðið birti afar áhugaverða forsíðufrétt á mánudag. Þar var haft eftir Magnúsi Harðarsyni, forstjóra Kauphallar Íslands, að erlendir fjárfestar vilji ekki fjárfesta á Íslandi vegna þess að til staðar sé upplýsingaleki á gjaldeyrismarkaði sem verið sé að nýta sér. Í fréttinni segir Magnús að þetta gerist þannig að gengið hreyfist í aðdraganda þess að erlendir aðilar eigi stærri viðskipti þar sem þeir skipti erlendum gjaldeyri í íslenskar krónur. Það leiðir til þess að gengið sem erlendu fjárfestarnir fá í gjaldeyrisviðskiptunum verður óhagstæðara, vegna þess að einhverjir sem fengu upplýsingar um að viðskipti þeirra væru yfirvofandi ákváðu að nýta tækifærið, og sennilega ólöglega upplýsingagjöf, til að græða á þeim upplýsingum með braski.
Þetta eru sláandi upplýsingar og fyrir liggur að þetta þarf að rannsaka ítarlega. Í ljósi þess að um 80 prósent viðskipta á gjaldeyrismarkaðnum eiga sér stað innan íslenska bankanna, án gagnsæis og að mestu án eftirlits, þá er erfitt að álykta annað en að upplýsingarnar séu að leka þaðan út. Einhver er að hringja í einhvern og láta hann vita, svo þessi einhver geti nýtt sér upplýsingarnar til að græða.
Þeir sem tapa á þessu gjaldeyrisbraski er að venju almenningur á Íslandi. Fúskið kemur í veg fyrir að erlend fjárfesting komi inn í landið, sem myndi styrkja gengi íslensku krónunnar. Fjárfesting sem myndi auka samkeppni og sennilega stuðla að meiri faglegheitum í íslensku viðskiptalífi.
Varðstaða um meðalmennsku
Ofangreint staðfestir, enn og aftur, að á Íslandi eru við lýði kerfi sem þjóna helst fámennri stétt sérhagsmuna en bitna á almenningi öllum. Umhverfið er sniðið að fákeppni, bágbornu eftirliti, sérhagsmunagæslu og fúski. Ekki er ofsagt að líkja þessu ástandi við einhvers konar stríð.
Hér hefur því verið komið þannig fyrir að engin virk samkeppni er á stærstu neytendamörkuðum. Hér hefur því verið komið þannig fyrir að sparnaður landsmanna, geymdur í lífeyrissjóðum, er að stórum hluta fastur með lögum inni í þessum sömu fyrirtækjum, sem eru svo í skipulegri aðför gegn almenningi í landinu svo einkafjárfestar geti grætt aðeins meira. Hér er enn allt á þeim stað að aðgengi að upplýsingum vegna vensla er mikilvægara vopn til að ná árangri en hæfileikar og duglegheit.
Allt er þetta svo rammað inn í krónuhagkerfið sem fjármagnseigendur fara reglulega inn og út úr til að hirða gengishagnað.
Varðstaða um meðalmennsku, sem almenningur fær svo að borga fyrir.
Athugasemdir (2)