Samkeppniseftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að Samskip hafi brotið með alvarlegum hætti gegn samkeppnislögum og EES-samningsins með ólögmætu samráði við Eimskip og sömuleiðis brotið gegn samkeppnislögum við rannsókn málsins með rangri, villandi og ófullnægjandi upplýsingagjöf og gagnaafhendingu.
Alls hefur Samkeppniseftirlitið ákveðið að leggja 4,2 milljarða króna stjórnvaldssekt á Samskip vegna þessara brota og auk þess lagt fyrir fyrirtækið að grípa til aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir frekari brot og efla samkeppni. Frá þessu er sagt í tilkynningu sem birtist á vef eftirlitsins í dag.
Fyrirtækin hafi hagnast á samráði á kostnað samfélagsins alls
Eimskip var einnig til rannsóknar í þessu sama máli, en þeirri rannsókn lauk með sátt sumarið 2021. Með sáttinni viðurkenndi Eimskip brot, greiddi stjórnvaldssekt að fjárhæð 1,5 milljarðar króna og skuldbatt sig til tiltekinna aðgerða.
Samkeppniseftirlitið tilkynnti um ákvörðun sína í dag og segir í ákvörðun þess að samráð Samskipa og Eimskip hafi í heild sinni verið „til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna, t.d. með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv.“
„Sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna sköpuðu kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls,“ segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.
Samskip ætla ekki að una ákvörðuninni
Í yfirlýsingu sem Samskip sendu frá sér síðdegis í dag segir að niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins sé hafnað. „Ályktanir um víðtækt og þaulskipulagt samráð eru með öllu tilhæfulausar og úr tengslum við gögn og staðreyndir. Samskip fordæma vinnubrögð Samkeppniseftirlitsins við rannsóknina og hyggjast fá niðurstöðunni hnekkt,“ segir í yfirlýsingu fyrirtækisins.
Ennfremur segir að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins „einkennist af hálfsannleika, villandi framsetningu og rangfærslum“.
„Vinnubrögð Samkeppniseftirlitsins í málinu eru Samskipum mikil vonbrigði. Málsmeðferðin hefur verið einstaklega þung og haft lamandi áhrif á starfsemi og starfsfólk Samskipa. Stofnunin hefur farið offari við rannsókn málsins og gagnaöflun og hefur nú komist að niðurstöðu sem ekki er í nokkrum tengslum við raunveruleikann. Settar eru fram kenningar og ályktanir um brot án þess að beinum sönnunargögnum sé til að dreifa. Kenningum hefur verið fundin stoð með því að fara beinlínis rangt með efni gagna eða staðreyndir máls eða með augljósum rangtúlkunum,“ segir í yfirlýsingu frá Samskipum.
Umhugsunarefni að Eimskip hafi keypt sig frá frekari málsmeðferð
Þar er einnig fjallað um sátt Eimskips við Samkeppniseftirlitið og segir Samskip ljóst að „ákvörðun Eimskips hafi ekki byggt á efni málsins heldur mati nýrra stjórnenda félagsins á því hvað væri farsælast fyrir rekstur þess næstu árin.“
Fyrirtækið segir það „umhugsunarefni“ ef „ráðandi fyrirtæki á markaði getur með þessum hætti notað digra sjóði til að kaupa það frá frekari málsmeðferð“. „Þá er alvarlegur hlutur ef löng og þung málsmeðferð og miklar valdheimildir eftirlitsstjórnvalda geta orðið til þess að fyrirtæki kjósi heldur að játa sök og greiða sekt, án þess að efni séu til, en að leiða hið rétta og sanna í ljós fyrir æðra stjórnvaldi eða dómstólum,“ segir í yfirlýsingu Samskipa.
Athugasemdir