Ég fæddist undir heillastjörnu í haustlægð í október 1980. Vitanlega tek ég bara svona til orða því í raun þekki ég ekki gang himintunglanna á þeirri stundu sem ég fæddist og þar sem fæðingin var sett af stað fæddist ég á hefðbundnum vinnutíma, slíkt getur vart talist til örlaga, eða hvað? Gæfu mína tel ég helst rekja til þess hvað ég hef verið lánsöm með fólk sem ég hef fengið að kynnast í lífinu og hvað mér þykir lífið almennt mikið ævintýri. Þá er ég ekki að halda því fram að mér þyki allt fólk sem hefur orðið á vegi mínum fallegt og gott eða að einhver drungi geri aldrei vart við sig í daglegu lífi. En eins og allir sem þekkja ævintýri vita þá verða þau bara leiðinleg ef þau hafa ekki hæfilega blöndu vandræðagangs, fegurðar, ljótleika, vitleysu, gáfna, ástar, þjáningar og háska.
Að sjá ævintýrin allt í kring
Einhver magnaðasta upplifun mín á listaverki var þegar ég gluggaði sem barn í múmínálfabókina Halastjörnuna eftir Tove Jansson, hjá ömmu minni á Selfossi. Áhrifin voru slík að ég var bókstaflega hrifin inn í sögusviðið. Skógurinn, fjöllin, hlýjan, háskinn og gáskinn urðu svo raunveruleg að ég man eftir því að hafa þurft að skella bókinni aftur til að komast aftur til baka og jafna mig.
Upplifunin gagntók mig svo að aðdáun mín á höfundinum hefur aldrei dvínað. Ég lít reglulega í bækur hennar og velti því fyrir mér hvort ég hafi heillast svona sterkt af skrifum hennar því við deildum svipuðu hugarfari frá upphafi eða hvort hún hafi haft svona mótandi áhrif á mig.
„Galdurinn felst í því að hversdagslegir hlutir verða að ævintýrum“
Bækur hennar boða hvorki sannleika né segja þær litlum börnum að vera góð með fallegum og heilbrigðum sögupersónum. Galdurinn felst í því að hversdagslegir hlutir verða að ævintýrum. Þvert á það sem sést í teiknimyndaútgáfum bóka hennar þá eru persónurnar hver annarri gallaðri. Enginn er algjörlega góður og með hlutina í lagi í Múmíndal. Múmínpabbi glímir augljóslega við mikinn óuppgerðan sársauka úr barnæsku sem byrgir honum oft sýn á lífið í kringum hann, Morrinn, sem ekkert þráir annað en vináttu, frystir allt í kringum hann og hrekur þannig fólk frá sér, vísindamennirnir í Einmanafjöllum horfa til himins í gegnum risavaxna sjónauka til að horfa á halastjörnu sem kemur til með að tortíma jörðinni en sjá ekkert nema staðreyndir sem þarf að skrásetja. Múmínmamma sér ævintýri í hverjum atburði, gerir gott úr öllu en reynir aldrei að hafa stjórn á atburðarásinni, er það ekki bara meðvirkni?
Viðhorf Múmínmömmu er þó það sem kristallar töfrahugarheim hinnar finnsku Tove. Bækurnar skrifaði hún í skugga hörmunga finnsku borgarastyrjaldarinnar, vetrarstríðsins, heimsstyrjalda og í yfirvofandi kjarnorkuvá og allri þeirri upplausn og ringulreið sem fylgdi. Atburði sem einstaklingar gátu lítil áhrif haft á en þurftu samt að komast í gegnum. Einstaklinga sem héldu áfram að verða ástfangnir, þráðu vináttu, fundu fyrir eigingirni, sáu fegurð í hinu smáa og léttvæga þótt þeir stæðu andspænis ólýsanlega stórum vandamálum, svona rétt eins og verurnar í Múmíndal.
Það sem við geymum í brjóstum okkar
Nú verður það að segjast að mér finnst lífið hafa farið um mig mjúkum höndum. Fyrir það fyrsta fæddist ég í friðsömu landi, eignaðist góða fjölskyldu og finnst ég hafa verið umvafin dásamlegu fólki hvenær sem eitthvað hefur bjátað á og að líf mitt sé í raun líkast ævintýri. Ég veit samt líka að þessi tilfinning er sprottin hjá sjálfri mér.
Ég hef lært að tileinka mér jákvæðni og áhuga á lífinu. Ég hef lært að geyma minningar um það sem mér finnst fallegt og töfrandi, sigta út það neikvæðasta en geyma þá reynslu sem skiptir máli. Þegar ég hlustaði eitt sinn á konu, mér nokkuð nákomna, kvarta yfir hverri þeirri manneskju sem hún virtist hafa kynnst á lífsleiðinni og ræða ævi sína eins og hún hefði verið einn táradalur, áttaði ég mig á því að hún hafði kosið að hafa þveröfugan háttinn á en ég hafði tamið mér. Í stað þess að njóta kakófóníu fáránleika, fegurðar, bresta og gæða síaði hún aðeins út það neikvæða og geymdi vandlega í brjósti sér.
Albert Camus og Múmínmamma
Þá er nú betra að geta gert halastjörnu að heillastjörnu heldur en að lifa stöðugt í ógn hennar. Og svo ég vitni í fleiri andans menn en Tove Jansson þá er ef til vill hægt að draga það fram sem ég vildi sagt hafa með því að vitna í absúrdistann og trúleysingjann Albert Camus sem sagði: „Ég vil frekar lifa lífi mínu eins og það sé til guð og deyja til að komast að því að svo er ekki, heldur en að lifa eins og guð sé ekki til og deyja til að komast að því að svo sé.“
Nú eða bara að haga lífi sínu eins og Múmínmamma og taka hverju því sem að höndum ber fagnandi. Fyrir mér er það ekki meðvirkni heldur einmitt skýr vilji til að gera lífið að ævintýri.
Athugasemdir (2)