Ástæðan fyrir því að tvær milljónir lítra af olíu voru brenndar í varaaflsstöðvum á Vestfjörðum í fyrra, tíu sinnum meira en árið áður, er sú að Orkubú Vestfjarða er með raforkusamninga við Landsvirkjun um það sem kallast skerðanleg orka. Ef illa árar í vatnsbúskapnum, og ekki er næg orka í kerfinu, hefur Landsvirkjun heimild til að skerða afhendingu til kaupenda skerðanlegrar orku. Það varð og raunin í fyrra með fyrrgreindum afleiðingum. Þessi mikla olíunotkun var því að langmestu leyti ekki vegna bilana eða viðhalds í raforkukerfinu og var hún nýtt til kyndingar á hitaveitum.
En hvers vegna hefur Orkubúið ekki samið við Landsvirkjun um kaup á forgangsorku?
„Af því að það er mun dýrara,“ svarar Elías Jónatansson Orkubússtjóri. Grundvöllur fyrir rekstri rafkyntra fjarvarmaveitna sé lágt raforkuverð. Hækki raforkukostnaður veitunnar, til dæmis ef keypt er forgangsorka, hækki kyndikostnaður heimilanna. „Ef Orkubúið þyrfti að greiða forgangsorkuverð fyrir orkuna á fjarvarmaveiturnar yrði rekstrinum sjálfhætt,“ fullyrðir hann.
Hversu mikið dýrara vill Landsvirkjun, sem Heimildin leitaði svara hjá, ekki upplýsa, að öðru leyti en því að skerðanlega orkan sé „mun ódýrari“ en forgangsorkan. Lengi vel hafi sárasjaldan þurft að grípa til skerðinga á afhendingu. Því hafi slíkir samningar verið hagstæðir. „Sjálfsagt hefði Orkubú Vestfjarða getað samið um forgangsorku áður fyrr,“ segir Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. „Á síðasta ári var orkuskortur farinn að bíta svo hressilega að við gátum ekki selt meiri forgangsorku. Sú staða er óbreytt. Eins og margoft hefur komið fram er mikil eftirspurn eftir raforku og svigrúm til sölu á skerðanlegri raforku enn takmarkaðra en áður.“
Fjarvarmaveitur virka á nokkuð svipaðan hátt og tvinnbíll, þær geta bæði nýtt raforku og eldsneyti. „Með rafvæðingunni var tekið stórt skref í átt að umhverfisvænni húshitun,“ rifjar Ragnhildur upp. Allar veitur vinni nú af krafti að því að stíga skrefið til fulls og nýta einungis endurnýjanlega orkugjafa. „Við erum vongóð að með þeirri miklu þekkingu sem veiturnar búa yfir og framþróun í bortækni og varmadælum muni mikill árangur nást á næstu árum.“
Ein þeirra leiða sem þegar er unnið að til að draga úr hættunni á því að grípa þurfi til olíubrennslu til húshitunar á Vestfjörðum er að bora eftir heitu vatni. Sem dæmi standa vonir til að íbúar bæði Patreksfjarðar og Ísafjarðar muni senn njóta góðs af. Með þessum aðgerðum, sem áætlað er að taki 2 til 4 ár, yrði dregið úr rafkyndingu hitaveitna á Vestfjörðum um ¾. Samtímis yrðu spöruð um 10 MW af orku.
Ekki næg orka til „allra góðra verkefna“
Landsvirkjun hefur ítrekað bent á að mikil eftirspurn sé eftir raforku hjá fyrirtækinu og að ekki sé næg orka til „allra góðra verkefna“. Að eftirspurnin geti farið yfir aflgetu kerfisins og að grípa þurfi til skerðinga á sveigjanlegum raforkusamningum. „Það er ekki ólíklegt að það gerist einnig á komandi vetri,“ stóð í tilkynningu á vef fyrirtækisins í byrjun júlí þar sem góð staða í uppistöðulónum virkjana var tíunduð.
Nokkrum dögum fyrr hafði Landsvirkjun birt á vef sínum tilkynningu um gerð raforkusamnings við gagnaverið atNorth á Akureyri. Með honum er gagnaverinu tryggð 5 MW af raforku auk 10 MW af skerðanlegri orku. Landsvirkjun hafði áður samið við fyrirtækið um raforku til tveggja annarra gagnavera þess. Á Linkedin síðu atNorth segir að fyrirtækið sérhæfi sig í gagnaþjónustu og ráðgjöf á ýmsum sviðum, meðal annars í rafmynt. Forstjóri Landsvirkjunar staðfesti í sumarbyrjun að gagnaver á Íslandi nýti í kringum 120 MW til þess eins að grafa eftir rafmynt. Það jafnast á við uppsett afl Sultartangavirkjunar og er töluvert meira en afl áformaðrar Hvammsvirkjunar (95 MW).
Uppsett afl rafkyntra hitaveitna Orkubús Vestfjarða er 21 MW en hæsti afltoppur er um 16 MW.
Segir gagnaver atNorth bæta nýtingu
Ragnhildur segir að miðlunarlónum Landsvirkjunar sé stýrt með þeim hætti að ekki þurfi að skerða forgangsorku þrátt fyrir að vatnafar sé með versta móti. Aldrei hafi þurft að skerða forgangsorku vegna vatnsstöðu.
„Þeir notendur sem kaupa forgangsorku fá hana afhenta,“ segir hún. Hins vegar kveði orkusamningar við stórnotendur og aðra á um að hluti þeirrar orku sem keypt er sé skerðanlegur. „Í skerðingum síðustu ára hafa stórnotendur þurft að sæta því að afhending orku til þeirra sé skert, í samræmi við þau samningsákvæði, þótt ávallt hafi tekist að afhenda umsamda forgangsorku.“
Um samning Landvirkjunar við atNorth á Akureyri segir Ragnhildur að gagnaverið sé mjög vel staðsett með tilliti til afhendingar á raforku. Um nokkurra ára skeið hafi sú staða verið uppi í flutningskerfinu að ekki hafi tekist að flytja alla þá orku sem þörf er á frá Norður- og Austurlandi til Suður- og Vesturlands. „Með samningum eykst álag á Norðurlandi sem dregur úr þörf fyrir orkuflutninga suður sem stuðlar svo aftur að betri nýtingu Þeistareykja, Kröflu og Fljótsdalsstöðvar.“
Lónin að fyllast en samt hætta á aflskerðingu
Tíðarfar í vor og fyrri hluta sumars hefur verið mjög hagfellt á vatnasviðum Landsvirkjunar. Leysingar hófust snemma, strax í byrjun apríl, og innrennsli í miðlunarlón hefur verið vel yfir meðallagi. „Ef öll lón fyllast í haust þá er ólíklegt að grípa þurfi til orkuskerðinga næsta vetur vegna slæmrar stöðu miðlunarlóna.“
Hins vegar, bendir Ragnhildur á, sé mikil eftirspurn eftir raforku frá Landsvirkjun og reynslan frá síðasta vetri sýni að suma daga geti eftirspurn farið yfir aflgetu kerfisins. „Við slíkar aðstæður þarf að grípa til aflskerðinga á sveigjanlegum raforkusamningum til að vernda afhendingu á raforku til almennings. Það er ekki ólíklegt að það gerist einnig á komandi vetri.“
Athugasemdir