Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Var Prígozhin gluggaður? Hvaðan kemur þetta orðalag yfir pólitísk morð?

Var Prígozhin gluggaður? Hvaðan kemur þetta orðalag yfir pólitísk morð?
Sendimenn Ferdínands 2. keisara gluggaðir í Prag.

Í gær spurðist dauði Prígozhins olígarka og málaliðaforingja í Rússlandi. Án þess að farið sé nánar út í það hafa margir sjálfsagt veitt athygli hótfyndnum getgátum um að Rússinn hafi slysast til að „detta út um glugga“ þótt allir viti náttúrlega að hann dó (ef hann er þá dáinn!) í flugvél sem hrapaði af himnum ofan. En hvað á þessi hótfyndni að þýða? Af hverju talar fólk um að „detta út um glugga“?

Raunin er sú að sérstaklega í Mið- og Austur-Evrópu hefur orðalagið „að detta út glugga“ mjög sértæka merkingu. Það merkir þegar valdhafar af einhverju tagi losa sig við andstæðinga með því að kasta þeim út um glugga — og er svo oft notað í yfirfærðri merkingu um hvers konar morð á til dæmis pólitískum andstæðingum.

Þá yfirleitt morð sem látið er líta út fyrir að vera slys.

Í mörgum tungumálum er til sérstakt sagnorð yfir þetta sem dregið er af síð-latnesku orðunum „de“ (sem merkir „niður“ eða „niður úr“) og fenestra (sem merkir „gluggi“). Í ensku er talað um „to defenestrate“ og á íslensku mætti kannski með hæfilegri léttúð tala um „að glugga (einhvern)“ þegar átt er við að myrða viðkomandi með þessum hætti.

En af hvaða tilefni er þetta orðalag notað? Hver eða hverjir voru fyrst „gluggaðir“?

Svo vill til að þetta orðalag tengist alveg sérstaklega Prag höfuðborg Tékklands (og áður Bæheims) þótt nú seinni árin detti menn oftar út um glugga í Rússlandi.

Allra elsta dæmið er samt úr Biblíunni, 2. konunungabók. Þar segir frá því þegar hin illa Jezebel fylgist með úr gluggum konungshallarinnar í borginni Jesreel er Jehú konungur og andstæðingur hennar heldur innreið sína í borgina:

Geldingarnir glugga Jezebel.Myndina gerði Gustave Doré.

„Hún hrópaði þegar Jehú var kominn gegnum borgarhliðið: „Hvernig líður [Jehú], morðingja húsbónda síns?“ [Jehú] leit upp í gluggann og spurði: „Hver styður mig, hver?“ Tveir eða þrír hirðmenn [geldingar] litu þá út um gluggann og hann hrópaði til þeirra: „Fleygið henni niður.“ Þeir fleygðu henni þá niður og blóðið úr henni slettist á múrvegginn og hestana þegar þeir tröðkuðu á henni.“

En þá víkur sögunni til Prag. Í elsta dæminu um „glugganir“ þar voru yfirvöldin reyndar ekki að verki, heldur þvert á móti.

Árið 1419 var allt á suðupunkti í borginni vegna trúarbragðadeilna. Einn af leiðtogum svonefndra Hússíta var presturinn Jan Želivský og eitt sinn leiddi hann kröfugöngu skoðanasystkina sinna að ráðhúsi borgarinnar. Einhver í ráðhúsinu kastaði þá steini að Želivský sem meiddist nokkuð. Ofsareiðir stuðningsmenn prestsins ruddust þá inn í ráðhúsið og hentu borgarstjóranum og nokkrum borgarráðsmönnum út um glugga og létu þeir allt líf sitt.

Rúmum 60 árum síðar átti sér stað mjög svipaður atburður í Prag og nokkrum nágrannaþorpum. Aftur geisuðu trúardeilur og einn trúflokkurinn stefndi sínu fólki í ráðhúsin þar sem borgarstjóri og sjö borgarráðsmenn hlutu skjótan dauða þegar þeir duttu skyndilega út um glugga.

Frægasta dæmið um „gluggun“ í Prag átti sér svo stað 1618 og enn voru það trúardeilur sem allt snerist um.

Bæheimur var þá orðinn hluti Habsborgararíkisins. Valdaætt Habsborgaranna var kaþólsk en mótmælendur höfðu lengi haft tögl og hagldir í Prag. Keisararnir Rudolf 2. og síðan Mattías höfðu veitt þeim formlegt leyfi til þess en nú var nýr keisari að taka við, Ferdinand 2., og hann gaf strax til kynna að hann yrði ekki jafn umburðarlyndur.

Sendimönnum keisara var varpað út um efsta gluggann.

Í maí 1618 birtust fjórir sendimenn Ferdinands í ráðhúsinu í Prag og lögðu þar fram bréf frá keisaranum þar sem skýrt kom fram að nú yrði aldeilis þjarmað að mótmælendum, þeir sviptir eigum sínum, þeim bannað að reisa kirkjur og kapellur og svo framvegis.

Borgararnir í Prag fyrtust illa við og heimtuðu að fá að vita hvort sendimennirnir sjálfir hefðu átt þátt í að semja þetta dónalega bréf keisarans. Tveir þeirra viðurkenndu það um síðir og þá var þeim umsvifalaust hent út um glugga úr 21s metra hæð og ritari þeirra fylgdi með til frekari áréttingar.

Þótt ótrúlegt kunni að virðast lifðu þremenningarnir allir fallið af. Ritarinn var síðar aðlaður og kallaðist eftir það Baron von Hohenfall eða Barón von Háfalls.

Kaþólikkar héldu því að sjálfsögðu fram að guð hefði haldið verndarhendi sinni yfir þremenningunum en mótmælendur svöruðu því að skýringin væri öllu jarðbundnari — þeir hefðu sem sé lent í skítahaug sem hefði tekið af þeim fallið.

Sendimenn keisara gluggaðir!

En hvað sem því leið, þá reiddist Ferdínand keisari ofsalega þegar hann spurði þessa meðferð á sendiboðum sínum og stefndi þegar her sínum til Bæheims til að refsa yfirvöldum í Prag.

Og þar hófst hið hryllilega blóðbað sem kallað hefur verið 30 ára stríðið.

Fjórða dæmið um „gluggun“ í Prag er líka oft nefnt til sögu. Sá atburður átti sér stað árið 1948. Við lok síðari heimsstyrjaldar réði Rauði herinn Tékkóslóvakíu og þrátt fyrir loforð um frjálsar kosningar, þar sem Tékkar og Slóvakar fengju að ráða framtíð sinni sjálfir, þá varð snemma ljóst að Stalín leiðtogi Sovétríkjanna ætlaði alls ekki að sleppa neinum tökum af landinu.

Ríkisstjórn undir forystu kommúnista var tekin við völdum en utanríkisráðherra var Jan Masaryk sem hafði verið einn helsti leiðtogi útlagastjórnar Tékka í London á stríðsárunum.

Í mars 1948 mátti heita ljóst að Masaryk yrði brátt ýtt til hliðar af kommúnistum og þeir tækju öll völd í landinu.

Jan Masaryk.

Þá var það, að því er flestir töldu, að Masaryk var ekki bara ýtt til hliðar heldur beinlínis ýtt út um gluggann. 

Lík hans fannst að morgni dags fyrir neðan baðherbergisglugga á húsi utanríkisráðuneytisins í Prag en þar hafði Masaryk haldið til. Líkið var aðeins í náttfötunum. Hin opinbera skýring yfirvalda kommúnista var sú að Masaryk hefði framið sjálfsmorð en því trúðu ekki margir. Auðvitað hefði Masaryk verið gluggaður af tékkneskum kommúnistum og/eða útsendurum Stalíns.

Eftir að Tékkland varð sjálfstætt við lok kalda stríðsins hefur málið verið rannsakað í þaula og niðurstaða yfirvalda er raunar sú að ekki verði úr því skorið hvort Masaryk hafi verið hjálpað út um gluggann eður ei. Vísbendingar eru til um hvora skýringu sem er — morð eða sjálfsmorð vegna örvæntingar yfir því hvernig komið væri fyrir Tékkum.

En hafi Masaryk verið kastað út um gluggann var að minnsta kosti ekki langt að sækja fyrirmyndir að aðferð morðingjanna.

Og síðan hafa svo ótal margir, ekki síst í Rússlandi, látið lífið einmitt á sama hátt, með því að detta svona slysalega út um glugga.

Kjósa
26
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

„Ég var bara glæpamaður“
1
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Sparnaðarráð frá borgarfulltrúa og tilboð frá gámafélagi
3
Stjórnmál

Sparn­að­ar­ráð frá borg­ar­full­trúa og til­boð frá gáma­fé­lagi

Þór­dís Lóa Þór­halls­dótt­ir borg­ar­full­trúi hef­ur nýtt sér hug­mynda­söfn­un borg­ar­inn­ar um hvernig nýta megi fjár­muni Reykja­vík­ur bet­ur. Hún hef­ur sent ell­efu til­lög­ur inn í sam­ráðs­gátt­ina. Þar er líka kom­ið til­boð í út­flutn­ing á sorpi til brennslu – eða ork­u­nýt­ing­ar – frá Ís­lenska gáma­fé­lag­inu.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég var bara glæpamaður“
2
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Þakklátur fyrir að vera á lífi
3
Viðtal

Þakk­lát­ur fyr­ir að vera á lífi

Þor­lák­ur Mort­hens, Tolli, hef­ur marga fjör­una sop­ið í lífs­ins ólgu­sjó. Æsku­ár­in höfðu sín áhrif en þá byrj­aði hann að teikna og var ljóst að dreng­ur­inn væri gædd­ur hæfi­leik­um. Óregla og veik­indi lit­uðu fjöl­skyldu­líf­ið og á unglings­ár­un­um sá hann um sig sjálf­ur. Um ára­bil var hann sjómað­ur, verka­mað­ur og skóg­ar­höggs­mað­ur. Eft­ir mynd­list­ar­nám hef­ur hann lif­að af mynd­list­inni. Nú er Tolli far­inn að mála í ljós­ari tón­um. Hann gaf nýra, greind­ist síð­an með krabba­mein og sigr­aði.
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
4
Það sem ég hef lært

Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir

Mér renn­ur blóð­ið til skyld­unn­ar

Guð­laug Svala Stein­unn­ar Kristjáns­dótt­ir seg­ir að stærsta lexía lífs síns sé lík­lega að upp­götva um miðj­an ald­ur að hún er ein­hverf. Hún hafi átt­að sig á sjálfri sér með hjálp ann­ars ein­hverfs fólks sem þá hafði þeg­ar oln­bog­að sig áfram í heimi ráð­andi tauga­gerð­ar, misst lík­am­lega, and­lega, fé­lags­lega og starfstengda heilsu áð­ur en það átt­aði sig á sjálfu sér.
Icelandair sýknað af kröfu Margrétar – Stærsti hluti bótakröfu vegna Netflix
5
Fréttir

Icelanda­ir sýkn­að af kröfu Mar­grét­ar – Stærsti hluti bóta­kröfu vegna Net­flix

Mar­grét Frið­riks­dótt­ir krafð­ist yf­ir 24 millj­óna króna í bæt­ur eft­ir að henni var vís­að brott úr vél Icelanda­ir ár­ið 2022. Hún hafði þá neit­að að taska sem hún hafði með­ferð­is yrði færð í far­þega­rými og neit­að að setja upp grímu vegna sótt­varna. Stærsti hluti af bóta­kröf­unn­ar var vegna heim­ilda­mynd­ar sem Mar­grét hugð­ist gera og selja Net­flix.
Sendu skip til Grænlands
6
Erlent

Sendu skip til Græn­lands

Hinn 10. apríl 1940, dag­inn eft­ir að Þjóð­verj­ar her­námu Dan­mörku, sendi banda­ríska strand­gæsl­an skip til Græn­lands. Um borð voru James K. Pen­field, ný­út­nefnd­ur ræð­is­mað­ur, og full­trúi Rauða kross­ins. Síð­ar það sama ár hreyfði var­aut­an­rík­is­ráð­herra Banda­ríkj­anna hug­mynd­inni um banda­rísk­ar her­stöðv­ar í land­inu. Áhugi Banda­ríkja­manna á Græn­landi er sem sé ekki nýr af nál­inni.

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
5
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.
Íslendingar vísa trans konu á flótta frá Bandaríkjunum úr landi
6
Fréttir

Ís­lend­ing­ar vísa trans konu á flótta frá Banda­ríkj­un­um úr landi

Kona sem er á flótta frá Banda­ríkj­un­um með son sinn sótti um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi. Fyr­ir Út­lend­inga­stofn­un lýsti hún því hvernig hat­ur hafi far­ið vax­andi þar í landi gagn­vart kon­um eins og henni – trans kon­um – sam­hliða að­gerð­um stjórn­valda gegn trans fólki. Sjálf hafi hún orð­ið fyr­ir að­kasti og ógn­un­um. „Með hverj­um deg­in­um varð þetta verra og óhugn­an­lega.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár