„Stefnt er að útgáfu skýrslu í þessari viku um leiðir til að fækka frávikum við veiðar á langreyðum,“ segir Dúi Landmark, upplýsingafulltrúi matvælaráðuneytisins, í skriflegu svari til Heimildarinnar um hvenær von sé á ákvörðun um framhald hvalveiða hér við land. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra setti í júní reglugerð um tímabundna stöðvun veiðanna eftir að fagráð um velferð dýra hafði komist að því að sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á stórhvelum, þ.e. notkun sprengiskutla, samræmist ekki lögum um velferð dýra. Veiðibannið gildir út ágúst.
Dúi segir að útgáfa skýrslunnar miðist að sjálfsögðu við það að starfshópurinn sem að henni vinni skili henni af sér fyrir vikulok.
Spurður hvort að Hvalur hf. hafi skilað einhverjum gögnum um breytingu eða bætur á áformuðum veiðiaðferðum segir hann að starfshópurinn hafi fundað með fulltrúum fyrirtækisins til að afla upplýsinga. Einnig hafi hópurinn leitað til sérfræðinga á „þessu sviði,“ segir Dúi. Í hópnum sitja fulltrúar ráðuneytisins, Matvælastofnunar og Fiskistofu.
„Ákvörðun ráðherra varðandi hvalveiðar á þessu ári mun liggja fyrir í mánuðinum.“
Leyfi Hvals hf. til hvalveiða, sem gefið var út 2019 gildir út árið 2023.
Athugasemdir