Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Ný skýrsla: Efnahagsleg áhrif hvalveiða lítil í þjóðhagslegu samhengi

Í fyrra nam út­flutn­ings­verð­mæti hvala­af­urða tæp­lega 0,8 pró­sent­um af heild­ar­út­flutn­ings­verð­mæti ís­lenskra sjáv­ar­af­urða, sam­kvæmt skýrslu sem ráð­gjafa­fyr­ir­tæk­ið In­tell­econ vann fyr­ir mat­væla­ráðu­neyt­ið. Fiski­stofa Jap­ans veit­ir lán til inn­flutn­ings á hval­kjöti frá Ís­landi.

Ný skýrsla: Efnahagsleg áhrif hvalveiða lítil í þjóðhagslegu samhengi
Langdregið dauðastríð 148 langreyðar voru veiddar hér við land síðasta sumar. Eftirlitsaðilar komust að því að margar þeirra háðu langt dauðastríð, jafnvel í fleiri klukkustundir. Mynd: Shutterstock

Ekki verður séð að hvalveiðar hafi verið arðbær atvinnugrein á síðustu árum í því rekstrarumhverfi sem greinin hefur búið við, segir orðrétt í nýrri skýrslu hagfræðings hjá ráðgjafafyrirtækinu Intellecon sem unnin var fyrir matvælaráðuneytið og birt var í dag. Kemst höfundur að þeirri niðurstöðu að tap hafi verið á veiðum Hvals hf. síðustu ár og að það nemi samanlagt þremur milljörðum árin 2011-2019. Fyrirtækið vinni að þróun nýrra afurða úr hvalkjöti, m.a. fæðubótarefnis, en að markað fyrir hvalkjöt og afurðir sé eingöngu að finna í Noregi og Japan. Fiskistofa Japans hafi veitt lán til innflutnings á hvalkjöti frá Íslandi.

Bein efnahagsleg áhrif veiðanna hér við land eru ekki mikil í þjóðhagslegu samhengi, segir ennfremur í niðurstöðum skýrslunnar. Samkvæmt útflutningstölum Hagstofunnar var útflutningsverðmæti hvalaafurða milli 1,6-1,8 milljarðar króna á árunum 2014–2016 eða rétt ríflega 0,6 prósent af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða. „Hér ber þó að hafa í huga að útflutningsverðmætið ræðst að mestu leyti af því magni sem leyft er að veiða á hverjum tíma,“ segir skýrsluhöfundur. Hins vegar, segir á öðrum stað í skýrslunni, var verðmætið 0,79 prósent í fyrra á hundrað daga vertíð Hvals hf., þar sem 148 langreyðar voru veiddar, og stór hluti undir nálarauga eftirlitsaðila um borð í hvalveiðiskipunum.

Tímabundið hvalveiðibann

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra stöðvaði tímabundið veiðar á langreyðum þann 20. júní síðastliðinn og gildir veiðibannið til ágústloka. Niðurstaða eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar um velferð hvala, sem gerð var opinber í lok apríl, var sú að aflífun dýranna sumarið 2022 hefði ítrekað tekið mjög langan tíma, of langan út frá meginmarkmiðum laga um velferð dýra.

Matvælastofnun fól í kjölfarið fagráði um velferð dýra að meta hvort veiðarnar gætu yfirhöfuð uppfyllt markmið laga um dýravelferð. Álit fagráðsins barst matvælaráðuneytinu 19. júní og niðurstaða þess var að sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á stórhvelum samræmist ekki lögum um velferð dýra.

Í því ljósi taldi ráðherra nauðsynlegt að fresta upphafi hvalveiðivertíðarinnar þannig að ráðrúm gæfist til að kanna hvort unnt væri að tryggja að veiðarnar færu fram í samræmi við lög.

Leitað til Intellecon í byrjun árs

Matvælaráðuneytið leitaði þegar í byrjun árs til íslenska ráðgjafafyrirtækisins Intellecon um að meta efnahagsleg áhrif hvalveiða á Íslandi og er sú skýrsla nú loks komin út, örfáum dögum áður en hið tímabundna hvalveiðibann á að renna út.

Skýrslan byggir á opinberum gögnum, segir í inngangi hennar, auk þess sem upplýsinga var aflað hjá ýmsum aðilum sem „þekkja til hvalveiða og markaðsmála“. Er þremur einstaklingum sérstaklega þakkað fyrir „gagnlegar upplýsingar“, þeim Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, Kristjáni Loftssyni, framkvæmdastjóra Hvals hf. og Sigursteini Mássyni hjá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands.

„Þetta endurspeglar þá staðreynd að þrátt fyrir að hvalveiðar og vinnsla sé ekki þjóðhagslega mikilvæg atvinnugrein sem stendur þá skiptir hún miklu efnahagslegu máli fyrir þá sem starfa í greininni.“
úr skýrslu Intellecon

Veiðar síðustu ára

Alþjóðahvalveiðiráðið bannaði allar hvalveiðar í atvinnuskyni árið 1986 en árið 2003 ákváðu Íslendingar að hefja þær aftur. Allt til ársins 2007 voru eingöngu veiddar hrefnur í því sem nefnt var „vísindaskyni“. Veiðar á langreyðum hófust árið 2009 en það ár voru veidd 125 dýr. Árið eftir voru veiddar 148 langreyðar en hlé varð á veiðunum árin 2011 og 2012. Árið 2013 voru veidd 134 dýr, 137 árið eftir og 155 árið 2015. Árið 2018 voru veiddar 145 langreyðar. Engar langreyðar voru svo veiddar þar til í fyrra.

Hlutfall verðmætis seldra hvalaafurða af heildarverðmæti sjávarafurða hefur rúman síðasta áratuginn legið á milli 0,11-0,79% á ári, þegar selt er, segir í skýrslunni.

VerðmætiðHlutfall útflutningsverðmætis hvalaafurða af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða.

Hvalur hf. einn á veiðum

Fjöldi rekstraraðila í hvalveiðum hefur aldrei verið meiri en níu, en það var á árunum 1902 og 1903. Fjöldi hvalveiðiskipa náði hins vegar hámarki árið 1910 þegar talið er að 32 skip hafi stundað hvalveiðar á sama tíma. Hins vegar hefur aðeins eitt fyrirtæki stundað veiðar á stórhvelum síðustu ár: Hvalur hf.

Samkvæmt ársreikningum Hvals hf. síðustu árin má ætla, segir í skýrslu Intellecon að frá árinu 2011 hafi heildarútflutningsverðmæti hvalaafurða verið tæpir 9,8 milljarðar króna. Ef dregin eru frá árin þar sem ekkert var veitt þá var meðaltalsútflutningsverðmæti hvalaafurða ríflega milljarður króna á ári. „En útflutningsverðmæti segja lítið ein og sér um verðmætasköpun vegna hvalveiða,“ segir í skýrslunni. Taka þurfi tillit til verðmæti afurðanna að frádregnum kostnaði við rekstur hvalveiðiskipa, afskrifta og birgðabreytinga.

Að því gefnu hefur oftast verið tap af hvalveiðum þegar þær hafa verið stundaðar, að mati hagfræðings Intellecon. Samanlagt tap áranna 2011 til 2019 nemi um þremur milljörðum króna. Nokkrar sveiflur hefi verið í afkomunni yfir árin og tapið skiljanlega mest þau ár sem veiðar voru ekki stundaðar.

Því er að mati skýrsluhöfundar varhugavert að draga þá ályktun að rekstrarniðurstaða fyrirtækisins væri jafn neikvæð og þessar tölur gefa til kynna hefði fyrirtækið stundað veiðar og sölu hvalaafurða allt þetta tímabil.

Nota lýsið sem eldsneyti á eigin skip

Hvalmjöl og hvallýsi hefur verið unnið úr hvalkjöti Hvals hf. og í fyrra var heildarmagn hvalmjöls um 375 tonn en hvallýsi 476 tonn. „Erfiðlega hefur gengið að fá leyfi til að selja hvalmjölið t.d. í fóður fyrir svín þar sem það hefur ekki uppfyllt skilyrði til slíkrar notkunar,“ segir í skýrslunni. Hvallýsið hafi verið notað til að brenna á skipum Hvals hf. „Sala á því til annarrar nýtingar hefur reynst ómöguleg, m.a. vegna viðskiptahindrana með hvalaafurðir.“

HvalstöðinGert að langreyði í Hvalstöðinni í Hvalfirði síðasta sumar.

Hvalur hf. hefur um nokkurra ára skeið verið að þróa vinnslu annarra afurða úr hvölum en einungis kjöt, spik, lýsi og mjöl. Lengst er komið verkefni er snýr að vinnslu fæðubótarefna til að vinna gegn járnskorti hjá fólki. „Járnskortur er mikið heilbrigðisvandamál á heimsvísu,“ hefur skýrsluhöfundur eftir upplýsingum Hvals hf.

„Hvaða tækifæri eru í að markaðssetja fæðubótarefni unnin úr hvalaafurðum á eftir að koma í ljós en eins og málum er háttað nú væru Noregur og Japan mögulegir markaðir fyrir slíkar afurðir,“ bendir höfundur skýrslunnar hins vegar á.

Almennt bann við sölu hvalaafurða

Skýringin er sú að í gildi er alþjóðasamningur um verslun með villt dýr og plöntur í útrýmingarhættu (CITES) sem bannar viðskipti með hvalaafurðir milli flestra þjóða heims. Í viðauka með samningnum er listi yfir tegundir í útrýmingarhættu og eru þar tilgreindar allar þær hvalategundir sem veiddar hafa verið frá Íslandi. Þau lönd sem gert hafa fyrirvara við framangreindan lista eru ekki bundnar af viðaukanum hvað þær tilteknu tegundir varðar.

Af þeim 183 löndum sem leitt hafa samninginn í lög hafa Ísland, Noregur, og Japan gert fyrirvara við viðaukann m.a. hvað varðar þær hvalategundir sem nú eru veiddar frá Íslandi, þ.e. langreyðar og hrefnur. „Af þessum sökum má einungis flytja afurðir þessara dýra frá Íslandi til Noregs og Japans.“

Langreyðarkjöt er einungis selt til Japan. Neysla á hvalkjöti hefur farið ört minnkandi í því landi eða úr 233 þúsund tonnum árið 1962 í rétt um 1-2 þúsund tonn á árunum 2021 og 2022.

Setja upp hvalkjötssjálfsala

Sala á hvalkjöti hefur gengið treglega þar í landi og er það ekki lengur selt í stórmörkuðum, segir í skýrslunni, og nýverið setti Kydo Senpaku, stærsti söluaðili hvalkjöts í Japan, upp sjálfsala í Yokohama þar sem hægt er að kaupa hvalkjöt í þeim tilgangi að auka aðgengi. Áætlanir fyrirtækisins ganga út að að setja upp 100 slíka sjálfsala út um allt land á næstu fimm árum.

ForstjórinnKristján Loftsson, forstjóri Hvals, virðir fyrir sér langreyði sem skotin var að minnsta kosti tveimur skutlum áður en hún dó á síðustu vertíð.

Kyodo Senpaku hefur einnig tilkynnt að það sé með nýtt móðurskip til hvalveiða í smíðum og hefur hlotið til þess niðurgreiðslur frá Shimonoseki uppá 300 milljón jen, en sú borg er talin upphafsstaður nútíma hvalveiða í Japan. Hvalveiðar í Japan hafa verið niðurgreiddar af fiskistofu landsins. Fiskistofa Japans hefur veitt lán til innflutnings á hvalkjöti frá Íslandi en samkvæmt upplýsingum Intellecon er óljóst hvort slíkt lán standi innflytjendum til boða nú í ár

Há laun á 4 mánaða vertíð

Laun þeirra sem vinna við hvalveiðar og vinnslu eru mun hærri en í flestum öðrum greinum, en vinnan er bæði vaktavinna og bundin við vertíðartímabilið sem er alla jafna um fjórir mánuðir á ári. „Þrátt fyrir að hvalveiðar séu ekki efnahagslega mikilvægar í þjóðhagslegu samhengi þá eru þær mikilvægar fyrir þá einstaklinga sem starfa í greininni á vertíðinni,“ segir í skýrslunni.

Samkvæmt forsvarsmönnum verkalýðsfélags Akraness hafa um 120 manns starfað við vinnslu á hvalaafurðum á síðustu vertíð og eru meðallaun starfsmanna við veiðar og vinnslu hvals sögð milli 1,7-2 milljónir króna á mánuði sem er langt fyrir ofan meðallaun í landinu. Hagfræðingur Intellecon kemst að því að ef gefnar eru forsendur um að meðallaun sem þessum starfsmönnum bjóðist annars staðar á sama tíma séu um 745 þúsund krónur á mánuði þá megi reikna með að hver og einn starfsmaður verði af á bilinu 2–3,8 milljónum króna vegna lægri tekna en ella þá mánuði sem vertíðin standi yfir. „Þetta endurspeglar þá staðreynd að þrátt fyrir að hvalveiðar og vinnsla sé ekki þjóðhagslega mikilvæg atvinnugrein sem stendur þá skiptir hún miklu efnahagslegu máli fyrir þá sem starfa í greininni.“

Neikvætt viðhorf en ekki marktæk áhrif

Þegar leitað er eftir viðhorfum fólks erlendis til hvalveiða er það alla jafna mjög neikvætt, skrifar skýrsluhöfundur í niðurstöðum sínum en bætir við að ekki sé hægt að fullyrða að þau viðhorf hafi merkjanlega neikvæð efnahagsleg áhrif hér á landi. Tæpast verði séð að veiðarnar hafi áhrif a hagnað fyrirtækja sem bjóða t.d. upp á hvalaskoðunarferðir.

Það verði þó ekki „hjá því litið“ að hvalveiðar Íslendinga hafi neikvæð áhrif á ímynd landsins erlendis og gangi „í berhögg við þá mynd sem íslenskir aðilar, t.a.m. í ferðaþjónustu, hafa leitast við að byggja upp“.

Ekki verði hins vegar séð að hvalveiðar dragi úr komu ferðamanna til landsins né að þær hafi neikvæð áhrif á útflutning á vöru og þjónustu.

„Þessi áhrif eru ekki merkjanleg, að öðru óbreyttu, þrátt fyrir augljósa og mikla andstöðu almennings í helstu viðskiptalöndum okkar við hvalveiðar yfirleitt,“ segir Intellecon í niðurstöðum sínum.

Kjósa
8
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • PB
    Páll Bragason skrifaði
    ,,Ekki verður séð að hvalveiðar hafi verið arðbær atvinnugrein á síðustu árum í því rekstrarumhverfi sem greinin hefur búið við...,, Ef þetta eru rök til að banna hvalveiðar, hvað þá með aðrar greinar, sem ekki eru arðbærar, og þrífast illa, jafnvel þótt dælt sé í þær ríkisstyrkjum í tugmilljarðatali?
    -1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Hvalveiðar

Bjarkey: „Það má vel vera að það sé ruglandi fyrir einhverja“
FréttirHvalveiðar

Bjarkey: „Það má vel vera að það sé ruglandi fyr­ir ein­hverja“

Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir mat­væla­ráð­herra seg­ir hefð fyr­ir því að gefa leyfi fyr­ir hval­veið­um milli Aust­ur-Ís­lands og Fær­eyja þótt það hafi senni­lega aldrei ver­ið nýtt. Það megi vel vera að það sé ruglandi. „Það er al­veg ljóst að ráð­herra hvers mála­flokks á hverj­um tíma get­ur aldrei bú­ist við því að standa ekki frammi fyr­ir ákvörð­un­um sem hon­um falla alltaf í geð eða eru sam­kvæmt hans stjórn­mála­skoð­un. Þannig er það bara,“ seg­ir hún spurð hvort henni þyki rétt að taka ákvarð­an­ir gegn eig­in sam­visku.

Mest lesið

Mataræði er vanræktur þáttur í svefnvanda
2
Viðtal

Mataræði er van­rækt­ur þátt­ur í svefn­vanda

Góð­ur svefn er seint of­met­inn en vanda­mál tengd svefni eru al­geng á Vest­ur­lönd­um. Tal­ið er að um 30 pró­sent Ís­lend­inga sofi of lít­ið og fái ekki end­ur­nær­andi svefn. Ónóg­ur svefn hef­ur áhrif á dag­legt líf fólks og lífs­gæði. Svefn er flók­ið fyr­ir­bæri og margt sem get­ur haft áhrif á gæði hans, má þar nefna lík­am­lega og and­lega sjúk­dóma, breyt­inga­skeið, álag, kvíða, skort á hreyf­ingu og áhrif sam­fé­lags­miðla á svefn­gæði. Áhrif nær­ing­ar og neyslu ákveð­inna fæðu­teg­unda á svefn hafa hins veg­ar ekki vak­ið at­hygli þar til ný­lega.
„Við mætum í vinnuna til þess að sigra“
5
Á vettvangi

„Við mæt­um í vinn­una til þess að sigra“

Kona sem sit­ur á bið­stofu með fleira fólki er að grein­ast með heila­æxli og það þarf að til­kynna henni það. En það er eng­inn stað­ur sem hægt er að fara með hana á, til að ræða við hana í næði. Í ann­an stað er rætt við að­stand­end­ur frammi, fyr­ir fram­an sjálfsal­ann en þá fer neyð­ar­bjall­an af stað og hama­gang­ur­inn er mik­ill þeg­ar starfs­fólk­ið hleyp­ur af stað. Í fjóra mán­uði hef­ur blaða­mað­ur ver­ið á vett­vangi bráða­mót­tök­unn­ar á Land­spít­al­an­um og fylgst með starf­inu þar.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Hann sagðist ekki geta meir“
1
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Síðasta tilraun Ingu Sæland
3
ViðtalFormannaviðtöl

Síð­asta til­raun Ingu Sæ­land

Flokk­ur fólks­ins var stofn­að­ur til að út­rýma fá­tækt á Ís­landi, sem Inga Sæ­land, formað­ur flokks­ins, þekk­ir af eig­in raun. Hún boð­ar nýtt hús­næð­is­kerfi með fyr­ir­sjá­an­leika og nið­ur­skurð í öllu því sem heita að­gerð­ir gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Græn­asta land í heimi eigi að nota pen­ing­ana í heil­brigðis­kerfi og aðra inn­viði sem standi á brauð­fót­um.
Svanhildur Hólm með áberandi minnsta reynslu af utanríkismálum
6
Fréttir

Svan­hild­ur Hólm með áber­andi minnsta reynslu af ut­an­rík­is­mál­um

Ljóst er að Svan­hild­ur Hólm, sendi­herra í Banda­ríkj­un­um, sker sig úr hópi koll­ega sinna frá Norð­ur­lönd­un­um hvað varð­ar tak­mark­aða reynslu á vett­vangi ut­an­rík­is­mála. Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd bíð­ur enn svara frá ut­an­rík­is­ráðu­neyt­inu um vinnu­brögð ráð­herra við skip­un á sendi­herr­um í Banda­ríkj­un­um og Ítal­íu.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
3
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
4
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár