Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Hvalirnir upplifa „gríðarlega þjáningu og angist“

Síð­asta sum­ar veiddi Hval­ur hf. eina mjólk­andi lang­reyð­arkú, sem þýð­ir að hún hef­ur ver­ið með kálf á spena. Sá hef­ur lík­lega ekki lif­að lengi án móð­ur sinn­ar. Ell­efu kýr með fóstri voru veidd­ar. Sum þeirra höfðu náð um það bil 2/3 fæð­ing­ar­stærð­ar sinn­ar. Eft­ir­för í myrkri, allt að sex sprengiskutl­um skot­ið að einu og sama dýr­inu og tveggja klukku­stunda dauða­stríð þar sem lang­reyð­ur­in synti særð um, kaf­aði og blés, er með­al þess sem átti sér stað á síð­ustu ver­tíð Hvals hf. Lög um vel­ferð dýra voru ekki brot­in að mati Mat­væla­stofn­un­ar.

Hvalirnir upplifa „gríðarlega þjáningu og angist“
Margskotin Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., virðir fyrir sér langreyði sem nokkra sprengiskutla þurfti til að drepa á síðustu vertíð. Fjórða hvert dýr sem veitt var þurfti að skjóta oftar en einu sinni. Mynd: Arne Feuerhahn

Hann er enn lifandi,“ segir skipverji á hvalveiðiskipi Hvals hf. eftir að sprengjuskutli er hleypt af og hefur hæft líkama um 18 metra langrar langreyðar í annað sinn. Fyrra skotið hafði hæft hana við munnvik og auga. Hún virðist slegin út í nokkrar mínútur en rankar svo við sér og syndir af stað. Vefur tauginni úr sprengiskutlinum um líkama sinn og slítur hana. Syndir lengi, kafar og blæs í um sautján mínútur. Þar til hún er skotin öðru sinni. 2–3 mínútum seinna dregur hratt af henni.

Dauðastríð hennar varði í nítján mínútur. Það er um það bil jafnlengi og það tekur að aka frá Litlu kaffistofunni til Hveragerðis á löglegum hraða.

Skot í myrkri

Þetta er þó ekki lengsta dauðastríðið sem greint er frá í eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar með hvalveiðum síðasta sumars sem gefin var út á mánudag. Það dýr var skotið fjórum sinnum, rétt eins og urðu örlög þriggja annarra, í eftirför hvalveiðimanna sem stóð fram í myrkur og í tvær klukkustundir. Sex sprengiskutlum var í heild skotið á dýrið, en tveir þeirra geiguðu. „Því var um mjög langt dauðastríð að ræða og ætla má með miklum þjáningum áður en [dýrið] drapst,“ segir í skýrslunni sem Þóra Jónasdóttir, sérgreinadýralæknir villtra dýra hjá MAST, ritar. Til að setja þá tímalengd í samhengi má nefna að Disney-kvikmyndin Frozen er 107 mínútur. Og dauðastríð þessa tiltekna einstaklings stóð þrettán mínútum betur. Í 120 mínútur.

Þetta frávik, eins og það er kallað, því lögum og reglum samkvæmt á að aflífa dýrið samstundis eða á sem skemmstum tíma, er að mati MAST „afar alvarlegt“. Stofnunin bendir þó á að hún telji „alltaf alvarlegt ef að dýr sem eru veidd drepast ekki samstundis eða mjög fljótt“.

Við veiðar 11. september var kýr skotin fjórum sinnum. Fyrsta skotinu hleypti skyttan af klukkan 12.26. Sá skutull hæfði bægsli. Öðru skoti var hleypt af kl. 12.48. Sá skutull hæfði kúna rétt ofan bægslis en sprakk ekki. Hún var skotin í þriðja sinn kl. 12.55, rúmum hálftíma eftir fyrsta skotið. Það hæfði hana ofarlega í bak. Og sá skutull sprakk ekki heldur. Klukkan 13.11 var því fjórða skotinu hleypt af.

Tíu mínútum síðar er hún úrskurðuð dáin. Dauðastríðið stóð í tæpa klukkustund.

Sprakk við snertingu

Við veiðarnar á öðru dýri þennan sama dag sprakk sprengiskutullinn þegar við snertingu og því áður en hann gekk inn í líkama þess. Dýrið var skotið öðru sinni. Dauðastríðið varði í ellefu mínútur.

Af þeim 148 langreyðum sem veiddar voru á 100 daga vertíð Hvals hf. síðasta sumar þurfti að skjóta 36 þeirra tvisvar eða oftar, eða í um fjórðungi tilfella. 

„Alvarleg atvik“ sem þessi, þar sem dauðastríðið varir lengi, eru skráð átján sinnum á síðari hluta síðustu vertíðar Hvals hf., eina fyrirtækisins sem stundar hvalveiðar við Ísland.

Skot í myrkriFjórum sprengiskutlum var skotið í eitt dýranna á um tveggja klukkustunda tímabili áður en það dó. Heimild: MAST

Óútskýrð töf á endurskoti

Vinnureglur eru þær að hlaða byssurnar þegar í stað eftir að í ljós kemur að fyrsta skot hefur geigað, þ.e. að ekki hafi tekist að drepa dýrið samstundis. Það tekur um átta mínútur. En í nokkrum tilvikum, sem MAST fjallar um í skýrslu sinni, sem m.a. byggir á myndböndum sem tekin voru upp um borð samkvæmt nýrri reglugerð, eru dýrin ekki endurskotin nærri strax. Einn hvalurinn er fyrst skotinn aftur eftir 19 mínútur, annar eftir 15 mínútur og í þriðja tilvikinu líða heilar 22 mínútur. „Ástæður fyrir töfum við endurskot liggja ekki fyrir,“ segir í skýrslunni.

Ekki tókst að ná þremur hvölum sem skotnir voru. Einn þeirra sleit taugina og synti af stað með sprengiskutulinn í bakinu. Honum var veitt eftirför í fimm klukkustundir án þess að hann næðist.

Edda Elísabet Magnúsdóttir sjávar- og atferlisvistfræðingur segir það enga spurningu að langreyðar finni sársauka við skotin og verði hræddar. „Þetta eru spendýr eins og við sem eru með sambærilegt taugakerfi og við sjálf,“ segir hún við Heimildina. „Því er ekki spurning að dýrin upplifi gríðarlega þjáningu og angist.“

Mjólkandi og kelfdar kýr

Síðasta sumar veiddi Hvalur hf. eina mjólkandi langreyðarkú. Ellefu kýr með fóstri voru veiddar, eða 12 prósent af öllum kvendýrunum. Sum fóstrin voru búin að ná um það bil 2/3 fæðingarstærðar sinnar.

„Kýr sem mjólkar er að öllum líkindum með kálf,“ segir Edda Elísabet. Kálfarnir fæðist yfirleitt á tímabilinu nóvember til mars og mæðurnar mjólki í 6–7 mánuði eftir fæðingu. „Og ef hún er veidd að sumri og er mjólkandi er kálfurinn líklega enn að venjast fastri fæðu,“ bendir hún á. „Því eru miklar líkur á því að kálfurinn hennar hafi það ekki af, ekki nema hann komist í slagtog við aðrar langreyðar og læri að elta uppi bráðina.“

Kelfdar kýrFóstur sem skorið var úr kviði langreyðar í Hvalstöðinni í Hvalfirði síðasta sumar dregið eftir planinu.

Samkvæmt 3. grein laga um hvalveiðar, sem í grunninn eru frá árinu 1949, er óheimilt að veiða kálfa og hvali sem kálfar fylgja. Er mjólkandi kýrin var veidd var myndbandseftirlit um borð í hvalveiðibátunum ekki hafið. Engar slíkar óyggjandi heimildir eru þess vegna til um það hvort kálfur sást fylgja kúnni eða ekki.

Fyrri skýrslan

Þetta er í annað sinn sem gerð er skýrsla af yfirvöldum hér á landi um skilvirkni og velferð við veiðar stórhvela. Sú fyrri var unnin árið 2014 af norskum dýralækni. Í þeirri skýrslu er tiltekið að 84 prósent af dýrunum hafi dáið samstundis og engin eru sögð hafa sýnt lífsmörk eftir fyrsta skot lengur en í 15 mínútur.

Niðurstöður norska sérfræðingsins eru allt aðrar en þær sem sérfræðingar MAST birta í skýrslu sinni. Aðeins 59 prósent langreyða sem veiddar voru í fyrra dóu samstundis og eftir fyrsta skot sýndu 14 prósent þeirra lífsmörk lengur en í 15 mínútur, þar af eitt dýr í tæplega klukkustund og annað í tvær klukkustundir. „Verður slíkt að teljast afar langt og þjáningarfullt dauðastríð, þar sem bæði þessi dýr höfðu fengið í sig fjóra sprengiskutla,“ segir í skýrslu MAST. „Skilvirkni við aflífun hvalanna var því verri á árinu 2022 heldur en árið 2014 og dýravelferð getur þar með talist lakari.“

Sérfræðingur í hvalveiðum

Norski dýralæknirinn sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, undir stjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fékk til skýrslugerðarinnar, heitir Egil Ole Øen. Hann er einn helsti sérfræðingur Noregs í hvalveiðum og kom að endurhönnun sprengiskutla sem notaðir eru við veiðarnar. Hann hefur nú í mörg ár séð um þjálfun skotmanna og annarra í áhöfn hvalveiðiskipa Hvals hf. auk þess að hafa unnið ráðgjafarstörf fyrir fyrirtækið. Andmæli Hvals hf. við skýrsludrögin, sem voru ítarleg og undirrituð af Kristjáni Loftssyni, forstjóra fyrirtækisins, eru m.a. byggð á greiningu Øen.

Með bráðinaHvalskip Hvals hf. á leið með tvær langreyðar til hafnar í Hvalfirði.

Og túlkun hans á gögnunum eru í mörgum atriðum, ef ekki flestum, mjög frábrugðin niðurstöðum sérfræðinga eftirlitsstofnunarinnar. Túlkun hans á því hvenær hvalirnir eru dánir er m.a. önnur. Í einu tilviki metur hann dánartíma 0 mínútur þar sem MAST metur hann 19 mínútur, svo dæmi sé tekið.

Uppfærsla á veiðibúnaði breytti engu

Þóra, dýralæknir hjá MAST, setti sig í samband við Øen í fyrra og sagðist hann þá vera á leið til landsins að beiðni forstjóra Hvals hf. til að fara yfir tækjabúnað og fleira, „þar sem skoða þyrfti þá háu tíðni þess að skjóta þurfi dýr tvisvar og allt að fjórum sinnum“. Eftir þá heimsókn ræddi hún aftur við hann og sagði hann verkefnið hafa gengið vel, sprengiefni hefði verið bætt í skutulbyssu til að tryggja að hraði og afl væri nægjanlegt og vonir stæðu til að tilfellum þar sem þyrfti að skjóta dýr aftur myndi fækka.

En þetta dugði ekki til. „Enginn marktækur munur er á milli fyrri hluta og seinni hluta veiðitímabils 2022 hvað varðar fjölda hvala sem skotnir voru oftar en einu sinni, þrátt fyrir að vonir stæðu til þess að breyting yrði eftir leiðréttingar sem voru framkvæmdar af norskum sérfræðingi,“ segir í skýrslu MAST.

Íslendingar veitt stórhveli í tæpa öld

Hvalveiðar hafa verið stundaðar við Ísland lengi en veiðar á stórhvelum á borð við langreyðar hófust þó ekki fyrr en með tilkomu sprengiskutulsins í lok 19. aldar. Norðmenn stunduðu þessar veiðar hér af miklu kappi en Íslendingar hófu hins vegar ekki að veiða stórhveli fyrr en um 1935. Hvalur hf. hefur stundað hvalveiðar frá fimmta áratug síðustu aldar með hléum.

Í slippHvalur hf. er að gera hvalveiðiskip sín tvö klár á vertíð sumarsins og hafa þau verið í slipp í Reykjavík.

Fyrirtækið fékk upphaflega leyfi til hvalveiða árið 1947 og var það endurnýjað árið 1959. Á grundvelli þess leyfis stundaði Hvalur veiðar allt til ársins 1985 er samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem fól í sér bann við öllum veiðum í atvinnuskyni, tók gildi. Íslendingar gengu úr ráðinu 1992 en aftur í það áratug síðar. Hvalur hf. hóf veiðarnar á ný 2006 og hefur stundað þær síðan með hléum. Sumarið 2019 veitti Kristján Þór Júlíusson, þá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fyrirtækinu leyfi til veiða á langreyði til ársins 2023. 

Segir lög um velferð dýra eiga ekki við

Í athugasemdum Hvals er bent á að eftirlitsskýrslan sé grundvölluð á reglugerð um eftirlit með velferð dýra við veiðar á hvölum, sem Svandís Svavarsdóttir gaf út í fyrrasumar, sem aftur sæki stoð sína í lög um velferð dýra frá árinu 2013. Forsvarsmenn Hvals hf. telja hvalveiðar hins vegar falla utan við gildissvið þessara laga. „Af því leiðir jafnframt að reglugerðin á sér ekki viðhlítandi lagagrundvöll.“

Kristján Loftsson skrifar að samkvæmt dýravelferðarlögunum taki þau ekki til „hefðbundinna veiða og föngunar á villtum fiski“ og vill hann meina að hvalveiðar falli þar undir. „Hvalveiðar eru hefðbundnar veiðar sem hvíla á gömlum merg og því undanskildar efni laganna.“

Horfa verði til „eðlis veiðanna“ og „hvaða kröfur séu raunhæfar í þeim efnum“. Hvalveiðar verði til dæmis „fjarri lagðar að jöfnu við aflífun búfjár eða annars dýrahalds“. Við veiðar á villtum dýrum sé „engin krafa um að dýrið skuli gert meðvitundarlaust eða að það deyi tafarlaust“ en að „ákjósanlegt skotmark“ sé í  brjóstholið“.

Þessum lögskýringum forstjóra Hvals hf. mótmælir MAST og segir ljóst að veiðar á hvölum falli undir gildissvið dýravelferðarlaganna og þá einnig reglugerð ráðherra frá því í ágúst. „Gildistökuákvæði laga um velferð dýra er skýrt og einungis hefðbundnar veiðar á villtum fiski og föngun á villtum fiski falla utan gildissviðs laganna. Veiðar á spendýrum, þ.m.t. hvölum, geta með engum hætti fallið undir slíkt undanþáguákvæði.“

Ósprungnir skutlarÍ nokkrum tilvikum síðasta sumar sprungu sprengiskutlar hvalveiðimanna ekki er þeir hæfðu langreyðarnar. Þessi var með að minnsta kosti þrjá skutla í sér er hún var dregin á land, þar af einn í bægsli.

Óyggjandi staðreyndir

Hvalur hf. telur samantekið að á eftirlitsskýrslunni séu „fjölþættir annmarkar“, sem dragi úr áreiðanleika og þýðingu hennar og er þekking eftirlitsmanna yfirvalda, sem voru um borð í hvalveiðiskipunum síðari hluta vertíðar, m.a. dregin í efa. Ef rétt yrði staðið að málum myndi niðurstaðan líklega verða svipuð og sú sem Egil Ole Øen fékk út árið 2014.

MAST svarar þessu og segir að „meint reynsluleysi“ eftirlitsfólks í að skrá viðbrögð hvala eftir skot með sprengiskutli, „breyti ekki þeirri staðreynd sem er óyggjandi, að endurskjóta þurfi 24 prósent allra dýra og myndbandsupptökur sýna skýrt að öll þau dýr sem voru endurskotin, syntu, köfuðu og blésu eftir fyrsta skot“.

Ekki lögbrot

Þrátt fyrir að sérfræðingar Matvælastofnunar segi í niðurstöðum skýrslu sinnar að veiðar á stórhvelum séu ekki í samræmi við markmið laga um velferð dýra, dragi upp mörg dæmi um langt og þjáningarfullt dauðastríð dýranna, fjalli um að tilraunir til betrumbóta á veiðibúnaði hafi engu skilað, að veiðar hafi verið stundaðar í myrkri, mjólkandi kýr veidd og þrjú dýr hafi verið skotin en ekki náðst, telja þeir Hval hf. ekki hafa brotið lög. MAST segir þó, í svörum til Heimildarinnar, að þessi útkoma veiðanna út frá velferð dýra sé „algerlega óásættanleg“ og óskar stofnunin eindregið eftir því að það verði rýnt hvort veiðar á stórhvelum geti yfir höfuð uppfyllt markmið laga um velferð dýra.

Kjósa
11
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár