Íslenski hestaheimurinn hefur, auk landsmóts hestamanna, haldið Evrópumót og síðar heimsmeistaramót síðan 1968. Í ár fer mótið fram í Hollandi og kunnum við hollenska sambandinu bestu þakkir fyrir.
Hvern hefði grunað þessa útbreiðslu, þróun og miklu áhrif á hestahald og reiðmennsku ganghesta á heimsvísu, þegar fyrstu íslensku hestarnir komu til meginlands Evrópu á sjötta áratugnum?
Sigurför íslenska hestsins um allan heim sem byggir á starfi stofnlanda FEIF samtakanna, hefur leitt til þess að í heimalandi hestsins hefur reiðmennska, mótahald og ræktun náð áður óþekktum hæðum. Hestaútflutningur og síaukinn straumur hestaunnenda sem vilja kynnast upprunalandi hestsins hefur umtalsverð áhrif á viðskiptalífið sem og afkomu í landbúnaði og ferðaþjónustu.
Þessi framþróun hefur um nokkurt skeið átt sér stað í skugga dýraníðs sem á sér stað á íslenskum búum sem byggja afkomu sína á blóðmerahaldi.
Í öllum löndum FEIF er lögð mikil áhersla á dýravelferð og eru reglur sem lúta að dýravernd hvað varðar meðferð, ræktun og keppni, mjög skýrar og eiga líka sinn stað í „The social licence to operate“. Andstaða við blóðmerahald fer sívaxandi í íslensku samfélagi, vegna þeirra brota á lögum um dýravelferð sem einkenna starfsgreinina.
Algert bann við þessari nýtingu hrossanna en ekki bara bættar aðstæður við blóðtöku, hlýtur að vera markmið okkar allra og við þurfum að krefjast þess með öllum mögulegum ráðum. Ísland ber ekki eitt ábyrgðina, Þjóðverjar kaupa mest magn af PMSG af Íslendingum.
Á heimsmeistaramóti þar sem gleði og keppnisskap ræður ríkjum skulum við samt minnast þess að heiðurshringir sigurvegaranna fara fram í skugga kvalræðis fimm þúsund hryssa og folalda þeirra.
Athugasemdir (1)