Um helgina fóru fjórir átján ára strákar í útilegu í Húsafelli. Þeir höfðu hugsað sér að fara í sund en snögghættu við þegar þeir heyrðu hvað kostar ofan í laugina. Ekki er langt síðan þriggja manna fjölskylda sneri við af sömu ástæðum, fjölskylda sem hafði reglulega farið í sund í Húsafelli og sagði það sína uppáhaldssundlaug, hrökklaðist undan verðinu sem hafði hækkað úr 1.200 krónum í 3.800 krónur á tveimur árum. Rekstraraðilar skýrðu hækkunina með því að um væri að ræða einkarekna laug og ráðist hefði verið í endurbætur á aðstöðunni, nú væri gamla sundlaugin rekin sem „afþreyingarlaug“ undir nafninu Lindin, með betri aðstöðu, heitum og köldum pottum. Fjölskyldufaðirinn gægðist yfir grindverkið á leiðinni út og sá að aðeins tveir voru í afþreyingarlauginni þennan sunnudaginn.
Smám saman er að verða breyting á aðgengi landsmanna að þjónustu, upplifunum og náttúruperlum hér á landi, með stöðugu og sífellt stækkandi flæði ferðamanna til landsins. Úrval veitingastaða, gististaða og annarrar þjónustu hefur stóraukist, en annað er að breytast til verri vegar.
Í síðasta mánuði fóru 233 þúsund ferðamenn frá landinu í gegnum Keflavíkurflugvöll, en 176 þúsund á sama tíma í fyrra. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru um 233 þúsund talsins, svo þetta er eins og að hella öllum íbúum Reykjavíkur, Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Seltjarnarness yfir landið á einum mánuði. Þá eru þeir ótaldir sem koma með skemmtiferðaskipum. Í sumum sveitarfélögum koma dagar þar sem ferðamennirnir eru fleiri en heimamenn.
Sunnudagsmorgunn
Á sunnudagsmorgni í júní streymdi fólk frá höfninni á Ísafirði inn í bæinn. Rétt utan við höfnina lágu fjögur skemmtiferðaskip við akkeri. Um borð voru um 7.700 ferðamenn og hátt í þrjú þúsund starfsmenn. Daginn áður var fjöldi ferðamanna með skemmtiferðaskipum svipaður, í plássi þar sem íbúar telja 2.800. Þeir ferðamenn sem voru ekki á leið í skipulagða afþreyingu ráfuðu stefnulaust um bæinn í leit að einhverju til þess að sjá, gera og upplifa, en verslanir voru flestar lokaðar og lítið um að vera. Bókabúðin var opin og þangað lá straumurinn. Lundabangsar, ísskápaseglar og póstkort með ljósmyndum af íslensku landslagi höfðu tekið yfir rýmið og röðin náði út að dyrum. Rétt eins og ferðamennirnir yfirtaki bæinn, svo heimamenn láta sig jafnvel hverfa eða halda sig í það minnsta frá miðbænum.
Síðar í sama mánuði var blaðamaður á vefnum Túristi.is staddur á Ísafirði þegar þrjú skemmtiferðaskip komu að höfn. Eitt þeirra er það lengsta sem hefur lagst að bryggju á Ísafirði fram til þessa. Lýsti hann blárri móðu í loftinu, sagði útblástur skipanna í hrópandi mótsögn við markmið um kolefnalaust Ísland 2040, og í ofanálag stæðu rúturnar í röðum til að ferja ferðamennina í nærliggjandi firði. „Mengunarslæða strýkur fjöllin,“ skrifaði hann og hafnarstjóri samsinnti að ástandið væri ekki gott. Innviði skortir hins vegar til þess að rafvæða komu skemmtiferðaskipa, svo nú er „nauðsynlegt“ að virkja meira á Vestfjörðum að mati orkubússtjóra. Veislan er rétt að hefjast. Stefnt er á að stækka hafnarkantinn svo stærri skip komist að.
Á veiðum
Rannsóknarstöð ferðamála ræddi við heimamenn og hagaðila vegna rannsóknar á áskorunum og ávinningi skemmtiskipaferðamennsku á Ísafirði. Í þeim samtölum var rætt um ferðamenn sem „auðlind eins og fiskurinn“.
Skemmtiferðaskipasiglingar á norðurslóðum hafa aukist með bráðnun jökulíss sem auðveldar aðgengi og opnar nýjar siglingaleiðir. Loftslagsbreytingar hafa þannig gert það að verkum að ferðamenn sækja enn frekar í „þá stórkostlegu náttúru og einstöku menningu sem lítil og afskekkt samfélög á norðurslóðum hafa upp á að bjóða“, eins og fram kemur í rannsókninni. Aldrei hafa fleiri skemmtiferðaskip sótt í að koma til Ísafjarðar, á einu sumri er áætlað að 150 þúsund manns komi þangað með skemmtiferðaskipum. Ávinningurinn er umtalsverður, um 300 milljóna tekjur til sveitarfélagsins, ný atvinnu- og viðskiptatækifæri og allt ýtir þetta undir uppbyggingu innviða. En öllu fylgja fórnir.
Ekki síst þegar markmiðið er að hagnast sem mest og hraðast.
Varað er við „valdaójafnvægi á milli lítilla bæjarfélaga“ á borð við Ísafjörð og stórra skipafélaga, sem stýra því hvort mætt sé á svæðið með fjölda ferðamanna eða ekki. Vegna ótta við að missa viðskipti við þessi skipafélög um ókomna tíð sé öllu fórnað fyrir þau. Af sömu ástæðu reynist erfitt að setja hömlur á komufjölda. „Við erum aldrei fullkomlega við stjórn, því við erum alltaf í hættu á að missa viðskipti,“ sagði einn viðmælandi rannsóknarinnar. Ef fólki þætti nóg um, gæti það valið hvort það vildi vera í bænum þegar hann fyllist af fólki eða ekki.
Niðurstaðan var sú að íbúar fara stundum burt þegar mörg skip eru í höfn. Sumir eiga erfitt með að sætta sig við að þurfa að bíða í röðum eftir þjónustu, allt sé troðfullt eða fullbókað og afþreying uppbókuð með löngum fyrirvara. Meira að segja heimili fólks verða fyrir átroðningi ferðamanna sem kíkja inn um gluggana eða ganga inn í þeirri trú að um safn væri að ræða.
„Af hverju er verið að leyfa svona mörgum að koma í einu?“ spurði einn, þegar innviðir eru ekki til staðar til að þjónusta allt þetta fólk. Vöntun er á rútum, leiðsögumönnum, öðru starfsfólki og salernum. Aukið álag er á heilbrigðiskerfið, vegakerfið og aðrar grunnstoðir samfélagsins. Náttúrunni er ógnað með átroðningi. Með tímanum mun það hafa áhrif á upplifun ferðamanna í leit að ósnortinni náttúru. Það er ekkert „rosalega spennandi að koma að Dynjanda og það eru sjö rútur þar stanslaust allan daginn,“ benti einn viðmælandi rannsóknarinnar á. Í Vigur var ráðist í aðgerðir til að minnka ágang á náttúruna og eyjunni lokað fyrir ferðamenn yfir varptímann. Á Hornströndum var sett af stað verndaráætlun sem fól í sér fjöldatakmarkanir farþega með skipum.
Blágrár reykurinn
Grundarfjörður setti sömuleiðis takmarkanir á fjölda ferðamanna sem koma í land. Á Akureyri hafa íbúar hins vegar fengið nóg af blágráum reyknum. Í viðtali við Vísi lýsti íbúi í Eyjafirði sterkri mengunarlykt sem mætti honum þegar hann gekk úr húsi að morgni. Síðar sá hann slikju myndast yfir firðinum. Sagði hann mengunina vera hinn eiginlega landsbyggðarskatt: „Við fáum hingað þessi risastóru skip sem spúa eldi og brennisteini yfir fjörðinn okkar fagra.“
Ísland er á topp tíu lista yfir þau lönd sem verða fyrir mestri mengun af völdum skemmtiferðaskipa. Mengunin er meiri en frá öllum bílaflota landsins. Samkvæmt skýrslu evrópskra umhverfisverndarsamtaka losa skemmtiferðaskip í Evrópu jafn miklu og milljarður fólksbíla. Umhverfisstofnun lýsir áhyggjum, af losun gróðurhúsalofttegunda, heilsuspillandi svifryksmengun og almennum umhverfisáhrifum: „Skip eru að losa skólp í sjóinn. Það eru ákveðin áhrif sem siglingar skipa hafa á sjávarspendýr, hvali. Það má segja að öll umferð okkar mannanna hafi áhrif á lífríkið á einn eða annan hátt.“
Fleiri hafa lýst áhyggjum, þar á meðal umhverfisráðherra, sem leggur þó meiri áherslu á rafvæðingu hafna heldur en takmarkanir á fjölda. „Þessi skip eiga ekki að vera að spúa í höfnum landsins. Það er ekki bara slæmt fyrir loftgæðin heldur líka er það beinn kostnaður þegar kemur að losun hér,“ sagði hann í viðtali við Vísi. Í ofanálag auki þetta álag á ferðamannastaði. Tjónið sem verði á náttúrunni sé ekki aðeins tilfinningalegt, heldur líka fjárhagslegt.
Maður er allt í einu að átta sig á því hvað kyrrð er mikilvæg
Víða hefur verið gripið til aðgerða. Frá því að Feneyjar bönnuðu skemmtiferðaskipum að leggjast við bryggju hefur mengun minnkað um 80 prósent. En Suðurnesin vilja draga skemmtiferðaskipin að og ráðast í markaðsátak. Og í Reykjavík er verið að slá enn eitt fjöldametið í komu skemmtiferðaskipa, sem eru orðin stærri og með fleiri farþega. Áður en sumri lýkur hafa komið hingað 270 skip með 280 þúsund farþegum. Aftur, þetta er rétt að byrja. Til stendur að byggja fimm þúsund fermetra móttökumiðstöð á tveimur hæðum, með landamæraeftirliti og innritun, á næstu tveimur árum. Velkomin til Íslands, í land hinnar fótum troðnu náttúru.
Í vor bjóst þjóðgarðsvörður á Þingvöllum við því að allt að 10 þúsund manns á dag myndi ganga Almannagjá í sumar. Það yrði því þröng á þingi, en stuð. Fyrir hvern? Varla íbúa borgarinnar á flótta undan þyrlunum sem „eru nánast komnar ofan í kaffibollana“. „Maður er allt í einu að átta sig á því hvað kyrrð er mikilvæg,“ sagði íbúi í Skerjafirðinum þar sem hávaðamengunin er að æra fólk.
Í leit að friði
Fyrr í sumar gekk par í hjónaband nærri náttúruperlu sem var svo til óþekkt á meðal ferðamanna þar til nýlega. Hugmyndin hefur eflaust verið að halda látlaust brúðkaup með sínum allra nánustu aðstandendum úti í friðsælli náttúrunni, en það vildi ekki betur til en svo að fram hjá athöfninni lá stöðugur straumur ferðamanna.
Æ erfiðara verður að finna frið og ró, án fyrirhafnar. Það dugar ekki einu sinni til að fara upp á hálendið. „Fór í Landmannalaugar um helgina sem er allt gott og blessað. Aðstaðan þar er í algjöru rugli,“ skrifaði maður á samfélagsmiðla sem hafði farið þangað með fjölskylduna. Kvartaði hann undan salernisaðstöðu, sem var skítug og illa lyktandi, umgengni á svæðinu, því sumir ferðamenn hefðu gengið um þarna „eins og þetta væru ruslahaugar“ og kastað rusli á jörðina. Því víðar sem rukkað væri fyrir salerni, sagði hann, því oftar kæmi hann að þeim illa þrifnum og illa lyktandi. „Borgaði fyrir það, þá kúgaðist maður af ólykt.“ Fleiri tóku í sama streng.
Landmannalaugar eru ein af perlum hálendisins, í friðlandi að fjallabaki, heimsþekkt svæði fyrir náttúrufegurð, fjölbreytt landslag, jarðhita, litadýrð og náttúruböð. Gufu- og leirhverir eru á svæðinu, sérstakt en viðkvæmt lífríki, líparíthryggir, hrafntinna og víðerni – og allt þar til nýlega, friður.
Nú flykkjast þangað um 130 þúsund ferðamenn á ári, langflestir í dagsferðum yfir sumarmánuðina. Björgunarsveitarmaður á svæðinu sagði að daglega væru þar um 2.000 til 3.000 gestir, 20 til 30 rútur og stundum leigubílar. Fram undan eru miklar framkvæmdir á ósnortinni náttúrunni, til stendur að stækka bílastæði, leggja göngustíga, reisa þjónustuhús með verslun og veitingasal, sex gistiskála með gistingu fyrir 120 manns til viðbótar við þá 78 sem geta þegar gist í skála Ferðafélags Íslands, og á nýju tjaldstæði er gert ráð fyrir minnst 150 tjöldum og 50 húsbílum. Fyrsta áfanga er lokið, sem var að reisa ný baðskýli við laugarnar, en til stendur að reisa þjónustuhús við manngerða laug. Allar þessar framkvæmdir eru til þess fallnar að trekkja enn frekar að. Settur forstjóri Skipulagsstofnunar varar við: „Með bættri aðstöðu kann að fylgja bæði aukinn fjöldi ferðamanna og öðruvísi samsetning. Það getur orsakað neikvæð áhrif og álag á þessa viðkvæmu náttúruperlu.“
Bistro-stemning á fjöllum
Önnur náttúruperla sem hefur tekið stakkaskiptum vegna ferðaþjónustu eru Kerlingarfjöll. Um er að ræða einstakan fjallabálk á miðhálendinu, vinsælan áfangastað göngu- og skíðafólks. Svæði sem var friðað með það að markmiði að vernda merkilegar jarðminjar, landslag, óbyggðir og ásýnd. Með milljarða framkvæmdum er verið að breyta Kerlingarfjöllum í „sælustað á öræfum“. „Þetta er kannski stærsta einstaka fjárfesting á hálendi Íslands, fyrir utan virkjanir,“ sagði framkvæmdastjórinn í viðtali við RÚV.
Að baki framkvæmdunum standa eigendur Bláa lónsins, hinir sömu og högnuðust um tvo milljarða á síðasta ári á rekstri lóns sem var eitt sinn aðgengilegt öllum en er nú markaðssett sem munaðarvara, „eitt af undrum veraldar“. Miðaverðið hefur ekki aðeins farið hækkandi heldur hefur verið reist ný aðstaða fyrir þá sem eru tilbúnir til þess að greiða 79 þúsund fyrir fimm klukkustundir í lokuðu lóni með einkaklefa.
Sama þróun er að hefjast í Kerlingarfjöllum. Enn verður hægt að gista í tjöldum, eða skálum, en nú kostar átta manna skáli 76 þúsund krónur á nóttina. Meiri áhersla er hins vegar lögð á hótelið, þar sem meðal annars er hægt að gista í svítum. Þar er að finna veitingastað sem selur hamborgara á 4.590 krónur og býður upp á kvöldverðarhlaðborð fyrir 8.900 krónur. Talað er um bistró-stemningu á veitingastað sem „sameinar sælkeramat í hæsta gæðaflokki, einstakt útsýni og notalegt andrúmsloft“. Innangengt er frá hótelinu í laugarnar, en aðrir þurfa að greiða aðgangseyri. Þar eru nú setlaug, kaldur pottur, gufubað og búningsaðstaða. Allt í einu eru Kerlingarfjöll ekki lengur sjálfsagður viðkomustaður, heldur fyrst og fremst fyrir ríka ferðamenn.
Ýmist er verið að umbreyta svæðum í lúxussvæði fyrir afmarkaðan hóp ferðamanna eða svæði verða fyrir átroðningi. Fjaðrárgljúfur var orðið að drullusvaði áður en því var lokað fyrir ferðamönnum. Nú er gjaldtaka hafin á svæðinu og til stendur að reisa þar þjónustuskála með veitingasölu. Þetta er þróunin. Til að verjast raski sem óhjákvæmilega fylgir slíkum fjölda ferðamanna og hagnast á ástandinu fjölgar stöðugt þeim svæðum þar sem rukkað er inn eða fyrir grunnþjónustu, svo sem bílastæði eða salernisaðstöðu. Nú þarf að greiða gjald fyrir að stoppa við Þingvelli, Seljalandsfoss og Jökulsárlón. Það þarf að greiða fyrir salernisaðstöðu í Hörpu, við Gullfoss, Reynisfjöru og Dimmuborgir. Aðgangseyrir er rukkaður að Kerinu, Víðgelmi og Raufarhólshelli og víðar.
Lykill að endurreisn
Ferðaþjónustan er „lykillinn að endurreisn efnahagslífsins“, sagði ráðherra. Atvinnugrein sem er svo mikilvæg að stjórnkerfið lagðist á eitt til að sækja undanþágu frá fyrirhugaðri löggjöf ESB um losunarheimildir flugferða. Markmið laganna er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og flýta fyrir því að vistvænna eldsneyti verði notað á flugvélar. En til að skerða ekki samkeppnisstöðu sína fengu Íslendingar auknar heimildir til að losa koltvísýring í flugi næstu tvö árin.
Óumdeilt er að ferðaþjónustan er mikilvæg stoð í íslensku efnahagslífi, sem hefur haft jákvæð áhrif á krónuna, bætt lífsgæði Íslendinga og fjölgað tækifærum. Atvinna hefur skapast og ákveðinn hópur fólks hefur hagnast verulega, á ástandi sem ógnar náttúrunni, skapar láglaunastörf og gjörbreytir upplifun Íslendinga af Íslandi. Jafnvel þótt framboð af afþreyingu hafi aukist er verðið oftar en ekki utan seilingar fyrir venjulegt fjölskyldufólk, enda ekki ætlunin að selja þeim vöruna, upplifun og aðgengi að landi sem var eitt sinn þeirra, jafnvel þótt nú sé rétt að hefjast sú þróun að stöðugt þurfi að draga upp veskið til þess að njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða.
Vegna þessara jákvæðu áhrifa virðist viðhorfið stundum vera að allt sem viðkemur ferðamennsku sé yfir gagnrýni hafið. Að þeir sem leyfi sér að kvarta undan ágangi séu leiðindapúkar, sem skemma stemninguna í veislunni. Ef ekki þetta, hvað þá? er spurt, eins og ferðaþjónustan sé eina svarið. Eins og allt væri í volæði, ef 2 milljónir ferðamanna væru ekki á leið til landsins í ár. Slíkur fjöldi ferðamanna verður seint sjálfbær og þá þurfum við að svara því hversu langt við erum tilbúin til að ganga og hverju við viljum fórna.
Þegar verið er að nálgast ferðaþjónustu eins og veiðar, þar sem mestu skiptir að draga inn sem stærstan afla, yfirtaka ferðamenn helstu náttúruperlur landsins og stundum heilu bæjarfélögin. Í byrjun árs lýsti íslenskur leiðsögumaður því sem svo að við værum að „drukkna í erlendu fólki með flíshúfur“. Stundum er tilfinningin sú að öllu öðru sé rutt í burt. Það eina sem skipti máli sé að fá sem flesta í partíið, svo lengi sem það stendur. Hvað verði, sé seinni tíma vandamál. Fyrir vikið þurfa íbúar að þola skerðingu á frið, frelsi og aðgengi.
Hvað almenningur lætur moka ofan í sig og yfir sig ganga og hafa af sér, hér á þessu blessaða skeri. Hrein skelfing.