Ég vil byrja á því að óska öllum Íslendingum nær og fjær til hamingju með stórkostlegan áfanga í meintum siðferðilegum þroska þjóðarinnar, nú þegar ljóst er að sprengjuóði auðkýfingurinn Kristján Loftsson fær ekki lengur að stunda sitt viðurstyggilega dýraníð í ár átölulaust í einhverja tvo mánuði. Enda er það að skjóta sprengjum í grunlausar hvalkýr – sem eru sumar með fangi og aðrar sem fylgja afkvæmum sínum til betri haga í von um bjartari daga og betri tíð – einfaldlega ekki ásættanlegt fyrir nokkurn sæmilegan mann.
Ein ríkasta þjóð heims þarf ekki á því að halda að eltast áfram við viðlíka áráttu eins manns, jafnvel þó að hann sé kyrfilega innmúraður í Sjálfstæðisflokknum, hokinn af vélabrögðum Valhallar og milljarðamæringur í þokkabót. Og fyrir utan það að hann hafi mokað tugmilljónum inn í Valhöll í áranna rás. Þvert á móti verður sæmd okkar Íslendinga mun meiri með því að vernda alla hvali – já alla hvali – sem koma inn í lögsögu okkar.
Satt að segja er hjákátlegt að hlusta á andmæli íhaldsins, hvort heldur það varðar pólítíkusa eða svokallaða verkalýðsforingja. Sérhver sæmilega greindur maður hlýtur að sjá að það að skjóta sprengjum í einhver stórbrotnustu spendýr jarðar – ekki bara einu sinni, heldur oftar – er einfaldlega ekki réttlætanlegt.
„Sæmilegur maður verðleggur ekki ásættanlegar þjáningar annarra dýra.“
Það að 150 manns hefðu getað verið með sirkabát tvær milljónir á mánuði – og með greiðslum félagsgjalda hjá Vilhjálmi Birgissyni upp á einhverja silfurpeninga – skiptir ekki nokkru máli. Sæmilegur maður verðleggur ekki ásættanlegar þjáningar annarra dýra. Hvað þá heldur verkamaður, enda ætti hann að þekkja vélabrögð kapítalistanna.
Vitað er að milljarðamæringurinn Kristján Loftsson kærir sig kollóttan um slíkt smotterí. Það var jú hann sjálfur sem afboðaði hvalveiðar árið 2009 vegna þess að honum þótti verkalýðurinn vera helst til heimtufrekur. Það er aukinheldur margsinnis búið að benda þessum dapurlega manni á að hann gæti grætt miklu meira með því að stofna safn utan um söguleg dráp sín með hvalaskoðun á gufuknúnum skipum. En Kristjáni er skítsama. Hann á nóg af seðlum. Hann vill ekki græða meira. Hann vill bara sprengja hvali. Og Vilhjálmur Birgisson virðist nú nóg boðið og er nú reiðubúinn að stefna sprengjukarlinum.
Sér er nú hver vitleysan!
Hitt er öllu aumkunarverðara þegar Valhallarliðið stígur fram og barmar sér yfir því að hér sé einungis um að ræða „sjálfbæran“ stofn og „ábyrgar“ veiðar í nafni „fullveldis“. Þetta er vitanlega þvættingur. Langreyðar eru á válista. Fyrir þá sem þekkja ekki til þeirrar skilgreiningar – þ.e. að vera dýrategund á válista – þá þýðir það einfaldlega að viðkomandi tegund sé hætt við útrýmingu.
Fyrst stígur fram einhver pótintáti úr Valhöll, sem varla nokkur kannast við fyrir afrek hans á Alþingi og krefst þess furðulega ábúðarfullur að fá frekari skýringar ráðherra og vísar í „stjórnsýslu“. Svona menn spyr maður einfaldlega hvort þeir skilji ekki íslensku. Þessar veiðar eru dýraníð á stórbrotnum skala. Það eru lög sem einfaldlega banna þvílíka ósvinnu. Ráðherra byggir sína ákvörðun með hliðsjón af niðurstöðu fagráðs.
Aðrir jafningjar þessa auma pésa streyma fram á samfélagsmiðlum og hreyfa viðlíka andmælum: „Hvað með lömbin?“ og „Hvað með laxveiðar, finna laxar ekki til?“. Eða jafnvel þegar hvað best liggur á þessum bjánum: „Hvað með orma sem eru þræddir upp á öngul til að veiða laxa, finna þeir ekki til?“. „Hvað með túnfífil sem er slitinn upp, finnur hann ekki til?“
Um þetta er að segja; Nei! Vafalaust ekki á sama máta og 40 tonna spendýr, sem er skotið með einum sprengjuskutli eða fleirum og látið þjást í margar klukkustundir meðan sjórinn litast af blóði spendýrsins og andardrætti. Hafi þetta lið raunverulegar áhyggjur af velferð orma – sem það gerir hreint ekki – þá ber þeim að berjast fyrir því hinu sama. Ekki með því að jafna þessu saman við morðótt sprengjuæði milljarðamærings. Sérstaklega þegar ávinningur er enginn. Þetta er ekki eitthvað álitamál. Það þarf ekkert að deila um jafn sjálfsögð sannindi.
Einfaldari skýring fyrir viðlíka vitleysinga er þessi: Það að skjóta sprengjum í einhver stórkostlegu spendýr jarðar er viðurstyggilegt – þau eru jú, rétt eins og allir þingmenn, spendýr. En flestir þeirra eru sannarlega ekkert stórkostlegir.
Vitað var að Valhallargengið myndi að svo komnu máli tefla fram einhverri merkilegri kanónu og fyrir valinu varð lukkuriddarinn Óli Björn Kárason af öllum ólöstuðum! Sá hinn sami og hefur margsinnis reynt fyrir sér sem sannkallaður kapítalisti, en jafnan hrökklast aftur inn á þing. Sá ber því nú við – löngu eftir verknaðinn – að þessi frestun Svandísar á sprengjuæði ríka kallsins sé ekkert annað en „blaut tuska“ framan í samstarf flokkanna. Það var og.
Vitanlega er þetta ekkert annað en dragúldin smjörklípa. Sú er í anda meistara hans, Davíðs Oddssonar, sem beitti henni óspart til að ala á sundrungu andstæðinga. Á sama tíma eru þessir meistarar vitanlega að víkja sér undan allri þeirri augljósu spillingu sem þrífst innan Sjálfstæðisflokksins við sölu í hlutum í Íslandsbanka. Pabbi fjármálaráðaherra græðir milljónir. Öllum er þeim sama. En ræðum frekar um stjórnsýslulegt klúður um sprengjuregn eins helsta styrktaraðila Sjálfstæðisflokksins. Það varðar jú „sjálfstæði og fullveldi okkar“.
Ef það að verja stórbrotin spendýr með frestun á sprengjuregni milljarðamærings er til marks um brogaða stjórnsýslu, þá hlýtur salan á Íslandsbanka að hafa meira vægi í nákvæmlega sama skilningi. Hræsni Sjálfstæðismanna er óborganleg.
Fyrir utan allt blóðbaðið.
Höfundur er þýðandi.
Athugasemdir (1)