Stefnt er að því að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fundi næstkomandi miðvikudag og fjalli þar um þær upplýsingar sem fram koma í sáttargjörð Íslandsbanka við fjármálaeftirlitið. Þetta staðfestir Ágúst Bjarni Garðarsson, 1. varaformaður nefndarinnar og þingmaður Framsóknarflokksins.
Spurður hvernig hann meti þær upplýsingar sem í sáttargjörðinni koma fram sagði Ágúst um eitt leytið í dag að hann væri byrjaður að fara yfir skjalið en ætti eftir að lesa það allt. „Það slær mig illa en ég á eftir að lesa þetta allt saman stafanna á milli og ætla að klára það áður en ég segi meira.“
„Nei, hann verður lokaður“
Spurður enn fremur hvort hann teldi, miðað við það sem hann hefði þó þegar séð, að einhverjir þeir aðilar sem ábyrgð bæru á ferlinu, til að mynda bankastjóri og bankastjórn þyrftu að víkja, sagði Ágúst að rétt væri að blaðamaður heyrði aftur í honum síðar í dag, þegar hann hefði lokið við lesturinn. „En þetta lítur ekki vel út.“ Ágúst svaraði ekki í síma klukkan 15:00 þegar Heimildin reyndi að hafa samband við hann aftur.
Stefnt er að því að halda fund í efnahags- og viðskiptanefnd klukkan 11:00 á miðvikudaginn næsta vegna málsins, segir Ágúst Bjarni, og hefur nefndarritari sett sig í samband við fjármálaeftirlit Seðlabankans til að fá fulltrúa þaðan á fundinn. Ekki er þó staðfest enn sem komið er að hægt verði að halda fundinn þá en segir Ágúst Bjarni að hann geri ráð fyrir því. Spurður hvort að fundurinn verði opinn svarar Ágúst Bjarni: „Nei, hann verður lokaður.“
Athugasemdir