Fundur hefur verið boðaður í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins vegna sáttar Íslandsbanka og Fjármálaeftirlitsins. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, staðfesti þetta í samtali við Heimildina.
Hún á fast sæti í nefndinni ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.
Nefndin mun funda um sáttina, en vegna hennar mun Íslandsbanki greiða 1,2 milljarða króna sekt vegna lögbrota við framkvæmd einkavæðingar á 22,5 prósenta hlut ríkisins í bankanum sjálfum.
Funda á morgun
Hlutverk nefndarinnar er að „samræma stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og hafa eftirlit með framkvæmd efnahagsstefnunnar á einstökum sviðum.“
Verkefni hennar eru m.a. framtíðarskipulag peningamála og samræming í fjármálum hins opinbera til skemmri og lengri tíma. Henni er jafnframt ætlað að „vera vettvangur samráðs og samræmingar við endurskoðun fjármálakerfisins í samræmi við þá áherslu í sáttmála ríkisstjórnar að breið sátt náist um endurskipulagningu fjármálakerfisins á Íslandi.“
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar verður fundurinn haldinn strax eftir ríkisstjórnarfund á morgun.
Athugasemdir (1)