Það sem við vitum um stjórnunarstíl Katrínar Jakobsdóttur, nú þegar Vinstri græn hafa verið við völd í sex ár, er að hún er leiðtogi sátta, samstöðu og stöðugleika. Á valdatíð sinni hefur hún ítrekað valið að fylgja þessum gildum umfram öðrum og með hófstilltri framkomu reynt að valda sem minnstu uppnámi eða óþægindum. Hún kemur fallega fram, vandar orð sín, forðast að fella gildisdóma og stendur þétt að baki sínu samstarfsfólki í ríkisstjórn.
Vandinn er sá að með því hefur hún veitt öðrum skjól til að ganga fram með hætti sem samræmist ekki grunngildum flokksins sem hún leiðir, áherslum og yfirlýstri stefnu. Stjórnmál eru í eðli sínu leikur málamiðlana, en það er vont að gefa of mikið eftir. Fyrir vikið hefur vinsælasti stjórnmálamaður landsins leitt flokk sinn að fylgishruni, þar til það var orðin raunveruleg hætta á að Vinstri græn þurrkist af þingi. Allt vegna þeirrar hugmyndar um að það skipti meira máli hver stjórnar heldur en hverju er fórnað fyrir völdin. Í tilviki Vinstri grænna var trúverðugleika fórnað. Nánast átakanlegt er að lesa í gegnum stefnuyfirlýsingu flokksins og reyna að rifja upp allt sem flokkurinn hefur látið viðgangast og varla hægt án þess að missa von um að hér muni einhvern tímann eitthvað breytast.
Sáttin virðist helst vera við valdhafa, samstaðan birtist nú síðast með sérhagsmunaöflum og stöðugleikinn felur í sér kyrrstöðu, þegar kallað er eftir breytingum.
Því hefur verið fleygt fram að „fjölmiðlar hafi ekki áhuga á sátt og samstöðu“, en hefur þjóðin áhuga á slíkri sátt? Fimm komma eitthvað fylgi Vinstri grænna bendir ekki til þess. Stuðningur við ríkisstjórn Katrínar hefur sömuleiðis aldrei mælst minni.
„Það skiptir máli hver stjórnar,“ voru skilaboð Vinstri grænna, sem hafa lýst ótta við að án þeirra verði allt verra. Kannski er það rétt, en í stjórnarandstöðu stillti flokkurinn sér upp sem breytingarafli, hreyfingu hugsjóna, þar sem önnur gildi og aðrar áherslur væru í forgrunni en hjá ráðandi öflum fyrri tíma. Vinstri græn seldu sig sem umhverfisvænan, feminískan flokk friðar og réttlætis.
Á þessum forsendum komst flokkurinn til valda, vegna þess að fjöldi fólks þráði breytingar á íslensku samfélagi. En jafnvel þótt forsætisráðherra, aðrir ráðherrar og þingmenn flokksins tali enn á þeim nótum hafa orð þeirra misst vængi, ná ekki flugi og falla oftar en ekki dauð niður. Af því að orðin samræmast of illa því sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sætt sig við, samþykkt eða staðið fyrir.
Þetta byrjaði illa, var vont og versnar enn.
Að standa með gildum
„Við munum halda áfram að standa með ykkur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún setti leiðtogafund Evrópuráðs í Hörpu nú í maí. Orðum hennar var beint að Úkraínumönnum og forseta þeirra. „Fórnarlömb stríðsins hafa þann rétt að á þau sé hlustað og að þau falli ekki í gleymskunnar dá,“ sagði Katrín, sem kvaðst vonast til þess að fundarins yrði minnst sem viðburðar þar sem leiðtogar Evrópu sýndu samstöðu með Úkraínu, og vettvangs til að „ítreka grunngildi á stríðstímum og afturhaldstíma lýðræðis“.
Þar sem forsætisráðherra stóð frammi fyrir þjóðarleiðtogum var málflutningurinn afgerandi. Við vorum stór og sterk, á ráðherra var ekkert hik, enginn vafi lék á því að Ísland hafði og myndi áfram taka afstöðu með Úkraínumönnum gegn árás Rússa.
En það leið ekki nema rétt rúmur mánuður þar til Alþingi þurfti að sýna afstöðu sína í verki, með því að endurnýja samþykki fyrir beiðni stjórnvalda í Kænugarði um tollfrjálsan innflutning á landbúnaðarvörum. Og þá vorum við ein heima og enginn að horfa, en ráðamenn sýndu hvað við erum í raun: Pínulítil þjóð sem vill spila sig stóra á alþjóðavettvangi.
Beiðni Úkraínumanna er liður í viðleitni til að halda, af veikum mætti, efnahagslífi gangandi. Í stað þess að kalla eftir matargjöfum báðu Úkraínumenn um samþykki fyrir því að fá að stunda viðskipti við Vesturlönd. Beiðnin var fyrst sett fram fyrir ári og samþykkt. Á þeim tíma fjórfaldaðist innflutningur á landbúnaðarvörum frá Úkraínu, aðallega vegna innflutnings á kjúklingakjöti. Sem ógnaði stöðu innlendra framleiðenda, sem hagnast sjálfir á sölu innflutts kjöts. Samtök fyrirtækja í landbúnaði lögðust gegn framlengingu undanþágunnar, framsóknarráðherrann í innanríkisráðuneytinu tók undir og sjálfstæðiskonan sem stýrir efnahags- og viðskiptanefnd, en tekur brátt við ráðherraembætti í ríkisstjórn, neitaði að setja málið á dagskrá Alþingis.
Það er auðvelt að veita stuðning sem stuðar engan, en erfiðara að standast þrýsting sérhagsmunaafla, þrátt fyrir fögur fyrirheit um að fórnarlömb stríðsins „megi ekki falla í gleymskunnar dá“.
Eitt ár, þar lágu þolmörkin.
Forsætisráðherra, sem fer fyrir flokki sem sagði í stefnuskrá sinni að Ísland væri í forréttindastöðu á alþjóðavettvangi og bæri því að gera það sem „í valdi þess stendur til að deila auðlegð sinni með þeim sem mest þurfa á að halda,“ hafði ekkert um málið að segja annað en að það bara „náðist ekki full samstaða“.
Máttleysið var algjört.
Að reyna ekki einu sinni
Forsætisráðherra er formaður flokks sem hefur enn á stefnuskrá að ganga úr NATÓ en er engu að síður orðinn fulltrúi Íslands á þeim vettvangi og stuðningsaðili stækkunar hernaðarbandalagsins. Þegar NATÓ hóf loftárásir á aðstöðu sýrlenskra stjórnvalda árið 2018 birtist opinber yfirlýsing um að allar aðildarþjóðir hefðu lýst stuðningi við árásirnar, sem gekk þvert á orð Katrínar hér heima.
Allt var þetta réttlætt með því að hlutverk forsætisráðherra væri að framfylgja utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar, eins og hún hefði sjálf ekkert um það að segja.
Frá árinu 2003 hefur Katrín margoft kallað eftir viðskiptabanni gegn Ísrael og hvatt til að stjórnvöld andmæli mannréttindabrotum gegn Palestínu: „Þetta á almenningur að þrýsta á stjórnvöld að gera,“ skrifaði hún til dæmis, í grein um „þjóðarmorð“ Ísraela. Þegar hún var árið 2021 spurð út í ályktun landsfundar Vinstri grænna um að ríkisstjórn Íslands ætti að slíta stjórnmálasamstarfi við Ísrael, svaraði hún því til að „það hefði ekki verið til umræðu“.
Sem forsætisráðherra hafði hún ekki einu sinni reynt.
Kannski vegna þess að tilraun hennar til að ná í gegn þingsályktunartillögu um að vörur sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu misfórst. Þótt tillagan hafi verið tekin upp af öðrum þingmönnum síðan hefur viðkvæðið ávallt verið hið sama, þvert nei. Þannig hefur farið fyrir mörgum mikilvægum málum Vinstri grænna.
Það að sýna öðrum samstöðu felur ekki endilega í sér að þeir standi með þér.
Að gefa of mikið frá sér
Tilraun Katrínar til að ná samstöðu um breytingar á stjórnarskrá mistókst, enda andstæð vilja samstarfsflokka. Að lokum lagði Katrín ein fram frumvarp um stjórnarskrárbreytingar. Málið endaði á borði sérfræðinga sem eiga að vinna greinargerðir um valda kafla. Áhersla á flokkspólitíska sátt fór endanlega með niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu 2012, þar sem meirihluti þjóðarinnar lýsti vilja til að lýsa náttúruauðlindir í þjóðareign.
Hugmynd Vinstri grænna um hálendisþjóðgarð á miðhálendinu var sömuleiðis hafnað og flokkurinn missti frá sér umhverfisráðuneytið, sem varð að umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðuneytinu. Það er því í höndum ráðherra Sjálfstæðisflokksins að semja regluverk um vindmyllugarða, sem áætlað er að rísi um allt land og feli í sér milljarða hagnað fyrir eigendur. Í loftslagsmálum hefur ríkisstjórnin sætt gagnrýni fyrir að draga það að setja sér skýr markmið, þau séu of óljós og ófullnægjandi.
Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir lýsti vonbrigðum í viðtali við The Guardian og sakaði hún Katrínu um að hafa gengið á bak orða sinna, þegar hún hefði heitið þeim Gretu Thunberg því að lýsa neyðarástandi í loftslagsmálum. Gekk Björk svo langt að segja að Katrín hefði „ekkert gert fyrir umhverfið“.
Ef ekki væri fyrir kröfu heilbrigðiseftirlitsins um úrbætur á olíutanki gæti Hvalur hafið hvalveiðar á ný, í skugga skýrslu Matvælastofnunar sem sýndi þjáningarfullan dauðdaga hvala. Inntir eftir afstöðu sinni sögðust aðeins fjórir þingmenn Vinstri grænna andvígir veiðunum. Sjálf lýsti Katrín efasemdum án þess að gefa afgerandi svar.
Allt í anda sáttar.
Að veita skilyrðislausan stuðningur
Þannig hefur þetta verið. Þegar forsætisráðherra stendur frammi fyrir siðferðislegum spurningum stillir hún sér gjarnan upp sem nánast valdalausum einstaklingi.
Eins og þegar formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hóf frumkvæðisathugun á hæfi þáverandi sjávarútvegsráðherra, í ljósi náinna tengsla hans við Samherja eftir að framganga fyrirtækisins í Namibíu var afhjúpuð. Stjórnarliðar reiddust og málinu lyktaði með því að meirihluti nefndarinnar lét bóka að tilgangslaust væri að halda rannsókninni áfram. Í mótmælaskyni lét þingmaður Pírata af formennsku fyrir nefndina, en forsætisráðherra sat þögul hjá.
Á aðfangadag 2020 rataði fjármálaráðherra í dagbók lögreglu vegna brota á sóttvarnarlögum. Dómsmálaráðherra brást við með því að hringja samdægurs í lögreglustjóra, tvisvar. Mánuði síðar þakkaði Katrín fyrir að fjármálaráðherra hefði beðist afsökunar og málið „ekki skaðað traust á milli flokkanna“. Hún hefði haft áhyggjur af því.
Sennilega hefðu fæstir gert sér í hugarlund að undir hennar stjórn myndi fjármálaráðherra fara með sölu á Íslandsbanka. Af því að fjármálaráðherra á langa og vafasama sögu með bankanum.
Salan á hlutabréfum í Íslandsbanka fór síðan fram í skjóli nætur, þar sem skortur var á gagnsæi og gagnrýnt var að kaupendum hafi verið veittur allt of mikill afsláttur. Eða, eins og stjórnarandstaðan orðaði það: „Svo virðist sem nokkrir mjög litlir aðilar hafi verið handvaldir og boðið að kaupa með afslætti.“ Þeirra á meðal var faðir fjármálaráðherra, sem varð til þess að umboðsmaður Alþingis kallaði eftir svörum frá ráðherra varðandi söluferlið og hæfi Bjarna til að stýra því.
Katrín viðurkenndi að margt hefði valdið henni vonbrigðum, en þegar stjórnarandstaðan kallaði eftir rannsóknarnefnd taldi hún það „ótímabært“.
Þetta var reyndar ekki í eina skiptið sem umboðsmaður Alþingis hefur þurft að kalla eftir svörum frá fjármálaráðherra. Það gerði hann líka í kjölfar tilkynningar ráðuneytisins um að ólöglegt væri að opinbera greinargerð ríkisendurskoðanda um Lindarhvol, sem fjölmiðlar kölluðu eftir. Benti hann á ósamræmi í svörum fjármálaráðherra og tilkynningu ráðuneytisins.
Þegar þessi mál hafa komið upp hefur forsætisráðherra forðast að taka afgerandi afstöðu, í nafni sáttar.
Að verja dómsmálaráðherra vantrausti
Til upprifjunar þá féll ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar árið 2017 vegna spillingarmála Sjálfstæðisflokksins, aðeins ári eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll vegna afhjúpunar á skattaskjólsnotkun ráðherra.
Fólk var reitt, réttlætiskenndinni var misboðið og hávær krafa var sett fram um breytt og betra samfélag. Á fjölmennustu mótmælum Íslandssögunnar var þess krafist að þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediksson afhentu lyklana.
Sjálfstæðisflokkurinn komst aftur til valda, en féll með dómsmálaráðherra sem reyndi að leyna því að faðir Bjarna hefði veitt barnaníðingi meðmæli fyrir uppreist æru. Málið kom við kjarnann í stefnu Vinstri grænna, enda létu þingmennirnir til sín taka í stjórnarandstöðu.
Allt þar til formaður flokksins skipaði ríkisstjórn með Bjarna Benediktsson í fjármálaráðuneytinu, sama dómsmálaráðherra og sama ömurlega viðmótinu gagnvart lögbroti í Landsréttarmálinu. Þingmennirnir sem áður höfðu gagnrýnt framferði dómsmálaráðherrans settust nú við hlið hans í ríkisstjórn og vörðu hann vantrausti á Alþingi. Jafnvel þótt ráðherra hefði skipað dómara með ólögmætum hætti, með þeim afleiðingum að dómsstigið varð óvirkt, sem hafði í för með sér ómældan sársauka fyrir fjölda fólks, ekki síst brotaþola ofbeldis. Fólkið sem Vinstri græn höfðu öðrum fremur sagst ætla að verja.
Allt hefur verið eftir þessu.
Að verja annan dómsmálaráðherra vantrausti
Núverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins var líka varinn vantrauststillögu á þingi, þegar stjórnarandstaðan sagði hann hafa „bannað Útlendingastofnun“ að afhenda gögn, sem fæli í sér lögbrot, brot gegn einni af grunnstoðum þingræðis, upplýsingarétti Alþingis. „Ráðherra sem brýtur jafn freklega gegn upplýsingarétti almennings getur ekki, má ekki og á ekki að njóta traust þess sama Alþingis.“
Áður hafði ráðherrann ýjað að því að þingmenn hefðu þegið gjafir frá fólki sem hefur fengið ríkisborgararétt með lögum frá Alþingi. Ítrekað hefur hann haldið á lofti rangfærslum um umsækjendur um vernd hér á landi, án teljandi viðbragða frá forsætisráðherra flokksins sem gerði það að stefnumáli að tekið yrði vel á móti flóttafólki. Fordómar yrðu „ekki liðnir á Íslandi, né heldur orðræða og framkoma sem felur í sér hatur og tortryggni gagnvart innflytjendum“, sagði í stefnuskrá þeirra sömu og þögðu þunnu hljóði yfir rasískum ummælum innviðaráðherra um framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands: „Þessari svörtu“.
Afstöðu- og aðgerðarleysi Vinstri grænna gagnvart grimmri útlendingastefnu Sjálfstæðisflokksins leiddi til þess að útlendingafrumvarpið náði fram að ganga, þingmenn sögðu skilið flokkinn og stórskáld neitaði að mæta á bókmenntahátíð þar sem forsætisráðherra var heiðursgestur, því hann ætlaði ekki að undirgangast „menningarlega hvítþvott“.
Það var skömmu eftir að ljóskösturum var beint að frétta- og tökumönnum til að koma í veg fyrir myndatökur af því þegar flóttamenn voru fluttir úr landi með leiguflugi til Grikklands.
Seinna komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að þessi sami dómsmálaráðherra hefði gerst sekur um samráðsleysi þegar hann innleiddi rafbyssuvæðingu lögreglunnar, þegjandi og hljóðalaust, með undirritun reglugerðar án samráðs við þing eða ríkisstjórn. Sjálfur lýsti hann sig ósammála niðurstöðunni, óþarft væri að taka aukna vopnavæðingu lögreglu upp í ríkisstjórn. Katrín sagði að „heppilegra“ hefði verið að ræða málið í ríkisstjórn, en ráðherra yrði að meta mikilvægið sjálfur. Ráðherrann var hvergi nærri hættur og átti eftir að hlaða vel í vopnabúrið. Gríðarlegt magn skotvopna var keypt fyrir leiðtogafund Evrópuráðs, sem mun liggja hjá lögreglunni til framtíðar.
Að láta verkin tala
Hægt væri að halda áfram.
Auðvitað eru áherslur ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur aðrar en ef um hreinræktaða hægri stjórn væri að ræða. En það er varla hægt að viðhalda ríkisstjórnarsamstarfi á slíkum forsendum. Valmöguleikarnir eru fleiri.
Yfirlýst stefna Vinstri grænna er að „láta verkin tala“, en hvað segir það okkur ef verkin eru meðal annars þessi. Áherslan á sátt, samstöðu og stöðugleika hefur reynst forsætisráðherra og flokknum sem hann leiðir dýru verði keypt. Það er kostnaðurinn af kurteisinni.
Það er samt hér sem annarsstaðar í umfjöllun um VG og alveg sérstaklega tilvist eða ábyrgð formannsins Katrínar Jakobsdóttur í því sambandi, óþarfi og að mínum dómi beinlínis rangt, að beint eða óbeint gefa í skyn, að í hennar pólitísku sögu (sem hún skrifar auðvitað sjálf með yfirlýsingum sínum og verkum), þá sé ávallt einhver annar (flokkur eða þingmaður) en konan sjálf ábyrg fyrir þeim verkum sem meiri ríkisstjórnar hennar strendur fyrir og kemur í gegn.
Fyrir mér er hún einn allra besti einstaklingur og pólitíkus sem Sjálfstæðisflokkurinn gæti haft í forystu innan sinna raða...og hefur sannarlega komið mér á óvart. Ég veit að ég er ekki einn um það!
Til að halda í frægðina og stólinn er hún bullandi meðvirkur gerandi.
Fleira þarf ekki að segja en spurning af hverju ritstjórinn er svona meðvirkur að tala niður þessa staðreynd og aðrar staðreyndir á ferli Katrrínar.